Örvitinn

Sprengjulist

Í sjónvarpinu er verið að tala við gaur sem býr til stálskúlptúra og sprengir þá svo í tætlur. Erlendur fræðingur heldur ekki vatni yfir snilldinni. Listamaðurinn segist mála með dýnamíti eða eitthvað þessháttar. Tætlurnar eru svo til sýnis (og sölu).

Ég sá merkilegri stálafganga þegar ég vann í smiðjunni í gamla daga. Margar afklippurnar voru fallegri en þetta drasl og sagan á bak við þá suma líka áhugaverðari. Aldrei datt mér í hug að hengja járnadraslið upp á listasafni, það fór í afgangagáminn.

Niðurstaðan er að list er meira og minna feik. Þetta er bara spurning um það hver platar flesta, hann vinnur.

Ég hefði ekki átt að skilja ryðgaða rörbútinn eftir í fjörunni. Hann á augljóslega heima á safni :-)

menning
Athugasemdir

Eyja - 26/03/06 21:26 #

Ussussuss, þú ert bara ekki nógu næmur til að skilja þetta.

En svona í alvöru þá er nú kannski óþarfi að draga þá ályktun að öll föt séu bara í plati á þeim forsendum að keisarinn sé nakinn. Ég er sammála þér um þetta tiltekna tilvik en skil ekki alveg af hverju þú færð það út að list sé meira og minna feik. Það er ekki mjög sanngjarnt gagnvart alvöru listamönnum að dæma þá út frá þessum sprengjusérfræðingi.

Bjarni Rúnar - 26/03/06 21:49 #

Plat og ekki plat... mér þætti þetta mjög áhugaverð sýning, þó ekki nema fyrir þær sakir að ég hef mjög litla reynslu af því hvernig sprengingar fara með hluti.

Hvort það á að kalla þetta list eða ekki er nánast bara spurning um snobb.

Matti - 26/03/06 21:52 #

Þetta er hárrétt Eyja.

"meira og minna" hljómaði einhvern vegin sem betri fyrirvari þegar ég skrifaði þetta.

Járnskúlptúrar geta verið afar flottir, eins og Jón Gunnar sýndi og sannaði. Einhverntíman í gamla daga aðstoði ég Rúrí við að útbúa eitt listaverk í smiðjunni, það er var áhugavert.

En rústirnar í Kastljós voru óskaplega .... óáhugaverðar :-)

Sigga Magg - 27/03/06 11:31 #

Spurningin er auðvitað hvort hægt sé að skilgreina list. Ef eitthvað snertir við mér er það þá ekki list fyrir mér? Það þarf auðvitað ekki að snerta við næsta manni. Ekki svo að skilja að ég hafi séð þennan sprengjugaur, bara heyrt um hann og flestum fannst það sama og þér.

Matti - 27/03/06 14:15 #

Ég kann ekki að skilgreina (góða) list, en ég þekki hana þegar ég sé hana :-)

Már - 27/03/06 21:30 #

Listin er í auga sjáandans.

Listheimurinn er að miklu leyti inngróinn. Ekki ósvipaður og lögfræðin, þar sem leikmönnum er ekki alltaf ætlað að greina raunverulega merkingu hlutanna.

Þannig má líka segja að list skiptist dálítið í tvo hópa ... list sem er ætlað að tala við almenning, og list sem er ætlað að tala við list(fræðimenn). Svoldið eins og vísindagreinar.

Fullt af list er bara hugsuð sem (fræðilegur) "prívatdjókur", og sumir listamenn líta beinlínis niður á þá listunnendur sem eru ekki gjörsamlega innvíklaðir í listasöguna, nýjustu strauma og stefnur í heimspeki og listum. (Fílabeinsturnar, etc.)

Það getur verið varhugavert að meta gæði/mikilvægi hlutanna eftir því hversu vel þeir höfða til okkar almúgans. Þetta getur verið svo afstætt. Vísindalegar uppgötvanir geta verið afar mikilvægar og merkilegar, en jafnframt algjörlega óskiljanlegar öllum nema innvíkluðustu fræðimönnum á því sviði.

Bjarni Rúnar (sjá ofan) stakk einu sinni upp á því að kalla avant-garde myndlist "verklega heimspeki". Mér finnst það á köflum vera ágæt útskýring.

Matti - 29/03/06 10:13 #

Það eina sem mér finnst pirrandi við "heimspekilist" er að stundum (ekki alltaf) er spekin svo grunn að það hálfa væri nóg :-)

Hversu oft hefur maður ekki séð viðtal við listamann sem útskýrir pælinguna á bak við verkið - en gerir í raun ekkert annað en að æla úr sér innihaldslitlum frösum.

En það er góður punktur sem Már bendir á, sum list er einfaldlega ekki hugsuð fyrir "almenning" og því lítil von til að fólk eins og ég skilji hana :-)

Eyja - 29/03/06 12:42 #

En ef listin er ekki hugsuð fyrir almenning heldur bara "sérfræðinga", hvers vegna í ósköpunum er þá verið að kynna hana almenningi, sýna hana í sölum ætluðum almenningi, o.s.frv.?

Svo er ég með tvær athugasemdir til viðbótar: 1) Þó að stundum sé eitthvað almenningi óskiljanlegt vegna þess að það er mjög fræðilegt og sérhæft þá getur ástæða þess að eitthvað virðist óskiljanlegt líka verið sú að það er ekkert vit í því.

2) Mér finnst alltaf dálítið vafasamt, sem heimspekiiðkanda og -unnanda, að nota heimspekina sem allsherjarruslakistu fyrir allt það sem felur í sér einhverja háfleyga frasa.

Már - 29/03/06 14:36 #

Það er misjafn sauður í mörgu fé. Það er svooo margt sem má gagnrýna við listheiminn hér á landi (og víða annarsstaðar reyndar líka), en það er líka afskaplega auðvelt að falla í þá gildru að gagnrýna hann með fáfræðina eina að vopni.

Myndlistin er líka svolítið eins og frjáls markaður hugmyndanna. Það sprettur upp alveg rosalegt magn af sprotahugmyndum, en 90% þeirra eru fánýtar og andvana fæddar. Inn á milli, af og til, koma hins vegar snilldarverk sem breyta heiminum.

Það væri mér ofviða að ætla að útlista með sannfærandi hætti dæmin í sögunni um hvernig myndlistin hefur verið konkret birtingarmynd nýrrar heimsmyndar, og ýmist á smáum eða stórum skala verið prímus mótor í að breyta viðhorfum okkar.

Léleg myndlist er nokkuð sem við verðum bara að sætta okkur við. Hún er hvimleið hliðarverkun á framleiðslu stórkostlegrar myndlistar.

P.S. mér fundust þessir sprengjuskúlptúrar dáldið skemmtilegir og athygliverðir, en upplifi þá samt ekki neitt rosalega merkilega. (Auga sjáandans og allt það...)

mar - 29/03/06 14:51 #

Matti reit:

"Ég hefði ekki átt að skilja ryðgaða rörbútinn eftir í fjörunni."

Það er einmitt þetta sem skilur að þig og fólk eins og gaurinn sem sprengir upp stálskúlptúrana.

Listamaðurinn lætur stjórnast af óstjórnlegri hvöt til að framkvæma hið fáránlega, en á meðan aðrir nöldra í kór: "iss, ég gæti sko alveg..."

;-)

Matti - 29/03/06 14:53 #

Tja, ég tók þó mynd, þannig að í raun skyldi ég rörbútinn ekki eftir í fjörunni - heldur gerði úr honum ódauðlega list :-P

Már - 29/03/06 15:32 #

Múhahahaha :o)

Eyja - 29/03/06 22:45 #

Umm, ég veit ekki hvort það er meiningin hjá þér Már, en það sem þú skrifar kemur svolítið út eins og þú álítir þig manna fróðastan um myndlist og sért að fræða okkur fáfróðu sauðina um málið. Vonandi er ég að lesa eitthvað vitlaust í þetta.

Ég er ekki sammála þessu með auga sjáandans. Ég held að það hvort eitthvað er list hafi frekar með það að gera hvort listamaðurinn hafi eitthvað fram að færa, eitthvað til að tjá, og gefi af sjálfum sér í þessa tjáningu á ákveðinn hátt. Þannig er t.d. alveg hægt að vera misskilinn listamaður sem enginn kann að meta, þ.e.a.s. þótt "sjáendurnir" séu allir staurblindir.

Már - 30/03/06 09:59 #

"Ég er ekki sammála þessu með auga sjáandans."

Ég var bara að meina að "list" sé bæði afstætt og hugtak og erfitt að festa fingur á það. Það eru til þúsund og ein skilgreining á hvað er list og engin þeirra 100% "rétt". Enn síður er til nothæf skilgreining á hvað er "góð list".

Listin er sér í lagi ekki endilega staðsett í verkinu, eða í huga listamannsins eingöngu, heldur getur hún átt sér stað í huga áhorfandans - eða jafnvel einhversstaðar miðja vegu á milli þessara þriggja þátta. Þannig getur listamaður byrjað með eina hugmynd, komið henni í framkvæmd, sýnt hana, og sýningargestirnir fara heim hver með sína útgáfuna af listaverkinu í farteskinu. Svona ferli er oft á tíðum yfirlýst markmið listamannsins, og þá getur verið erfitt að greina hvort um eitt listaverk eða mörg sé að ræða.

Í eldgamla daga var list einfalt hugtak: List var fallegur hlutur með vönduðu handbragði. Listamaður var góður handverks-/iðnaðarmaður með líflegt ímyndunarafl.
Listhugtakið hefur þróast og flækst óendanlega mikið síðan þá, og er enn í sífelldri þróun.

Sagan þín um misskilda listamanninn minnir mig svoldið á dilemmuna með kött Schrödingers.

Er list absolút fyrirbæri sem getur átt tilvist úr öllu félagslegu samhengi?

Eyja - 30/03/06 22:23 #

Æ, er það víst að list hafi verið eitthvað einfaldara hugtak í gamla daga? Ætli við séum nokkuð flóknari en fólk var áður fyrr?

Ég er alveg sammála því að erfitt sé að finna nákvæma skilgreiningu á list, hvað þá einhverja greinargóða útlistun á muninum á góðri list og vondri. En það gerir listina ekkert sjálfkrafa afstæða eða eingöngu háða auga sjáandans.

"Er list absolút fyrirbæri sem getur átt tilvist úr öllu félagslegu samhengi?"

Það sagði ég ekki. Ég veit svo sem ekki hvað þú átt við með "absolút fyrirbæri" en að sjálfsögðu fer list alltaf fram í félagslegu samhengi (nema listamaðurinn sé kannski einbúi í afskekktum helli). Það hvort listamaður (eða einhver annar, ef út í það er farið) hefur eitthvað fram að færa ræðst meðal annars af því hvort hann hefur eitthvað að segja því samfélagi sem hann lifir í, hvort hann hefur einhverja merkilega sýn á það, o.s.frv. Og þannig getur eitthvað verið frumleg og góð list ef það er nýjung í viðkomandi samfélagi en þreytt og margtuggin klisja þegar það er eftiröpun.