Örvitinn

Jón Baldvin guðleysingi

Það er viðtal við Jón Baldin í blaðinu í dag. Af þessum orðum er endanlega ljóst að hann er hættur í pólitík því svona tala íslenskir stjórnmálamenn ekki!

Þú sagðir mér einu sinni að þú tryðir ekki á Guð. AF hverju trúir þú ekki á Guð?
"Hvaða Guð? Ertu að biðja mig um að trúa á 2000 ára gamlar þjóðsögur gyðinga og afneita þróunarkenningunni eða stjarneðlisfræði. Hvað er verið að biðja mig um að trúa á?
Eiginlega ætti ég að segja: Þér kemur ekkert við hvort ég trúi eða trúi ekki því það er mitt einkamál. Trú á að vera einkamál. Ég lít svo á að andlegt frelsi sé það sem skiptir mestu máli í lífinu. Ég trúi á sannleiksleit. Ég er skoðanabróðir Fjallræðumannsins. Ég þarf enga guðspekinga til að segja mér til um hvað er rétt eða rangt, gott eða vont og ég geri mikinn ágreining við handhafa rétttrúnaðarins í öllum trúarbrögðum. Ég er enginn skoðanabróðir George Bush sem segist vera trúaður maður. Heiminum stafar mest ógn af trúarofstækismönnum í Bandaríkjunum, Ísrael og í múslimaheiminum. Þessir menn eru lausir við allt umburðarlyndi. Að bera virðingu fyrir skoðunum annarra er grundvallargildi í minni siðfræði og lýðræðisþjóðfélag stenst ekki nema þau gildi séu vernduð en réttur annarra til að þröngva sinni trú upp á mig er ekki sjálfsagður.
Það er fáránlegt að halda því fram að trú á hið góða sé útilokuð nema algóður Guð sé þarna uppi. Líttu á þessa veröld. Tugþúsundir barna deyja úr hungri á degi hverjum. Hundruð milljóna saklausra eru fórnarlömb ofbeldis, fátæktar og sjúkdóma. Það gerist í heimi þar sem við höfum þekkingu, kunnáttu, tækni og fjármuni til að leysa þetta. Ef Guð er almáttugur þá stýrir hann þessum heimi. Ef hann er almáttugur og algóður og þetta er hans niðurstaða þá er ég guðleysingi."

kristni pólitík
Athugasemdir

Eyja - 01/04/06 11:21 #

Mikið er ég sammála honum um þetta með að trúin sé einkamál. Ég er orðin alveg ferlega þreytt á öllum þessum viðtölum þar sem alltaf þarf að spyrja viðmælandann um trúarskoðanir.

Matti - 01/04/06 12:55 #

Það er einmitt áhugavert sem þú nefnir hve það er algengt að rætt sé um trúarskoðanir í viðtölum og sjónvarpsþáttum. Jafnvel þó þessir einstaklingar hafi aldrei tjáð sig opinberlega um trúmál. Jón Ársæll hefur t.d. verið gjarn á þetta í þeim fáu þáttum sem ég hef séð.

Helgi Hrafn Gunnarsson - 01/04/06 19:15 #

Það er sorglegt að þessi maður ætli ekki meira í pólitík. En njóti hann vel.