Örvitinn

Þessi risastóra bók um allt

Þessi risastóra bók um allt
er ótrúlega góð
ef þið lesið hana
um allt þið verðið fróð

Það er langt síðan ég hef fengið lag svona hrikalega á heilann, þetta ómar í hausnum á mér daginn út og inn. Samt vildu stelpurnar ekki taka undir þegar ég ætlaði að syngja það undir sálmasöng í kirkjunni.

Fermingu er lokið. Þetta heppnaðist vel. Að sjálfsögðu var alltof mikill matur en það er bara fínt. Fengum góða aðstoð og höfðum því ekki mjög mikið fyrir veislunni sjálfri. Gengum frá salnum og komum heim í pakkaopnun um hálf tíu. Fermingarbarnið fékk náttúrulega ótrúlega mikið af gjöfum. Þetta var ekki svona svakalegt þegar ég fermdist :-) Grínlaust, þetta er ótrúlegt. Erum búin að nettengja PSP tölvuna, djöfull er það töff - flakkandi um netið á svona smátölvu. Svo eru leikirnir líka ótrúlega flottir. Ferðatölva frá pabba hennar og Hrund, hellingur af peningum, Londonferð með mömmu sinni í kringum næstu mánaðarmót, bækur og skart. Úff. Eina gjöf verð ég að nefna sérstaklega, Auður og Benni gáfu henni Birting eftir Voltaire, uppáhaldsbókina mína. Afskaplega var ég ánægður með það enda mitt eintak löngu glatað, annars hefði ég fyrir löngu verið búinn að reyna að fá Áróru til að lesa bókina.

Ég tók slatta af myndum (það er ágætis afþreying í kirkjuathöfn), þær fyrstu eru komnar á netið. Ég bæti svo við þetta á næstum dögum. Ég get sagt ykkur, að það var nauðsynlegt að eiga almennilega aðdráttarlinsu í dag.

þessi risastóra bók um allt....

dagbók
Athugasemdir

Halldór E. - 03/04/06 01:22 #

Altarisgöngu myndin er frábær. Það er augljóst að það eru fáir sem taka jafn flottar myndir af sr. Valgeiri og þú.

Hjalti - 03/04/06 17:48 #

Þessi barna- og ungmennasöngvar kristinna manna eru þannig gerðir að maður fær þá auðveldlega á heilann. Ætli það sé tilviljun?

Amk hef ég ekki enn náð mér eftir að hafa sungið Upprisinn er hann, húrra, húrra... :)

Matti - 03/04/06 18:14 #

"Þessi risastóra bók um allt" er teiknimynd, sýnd á laugardagsmorgnun, alveg ókristilegt :-)

sirrý - 05/04/06 00:41 #

Ég bíð eftir nýjum myndum hvernig væri að fara að setja inn ?

Matti - 05/04/06 09:21 #

Hvaða pressa er þetta, ég bæti við myndum bráðlega :-)

Matti - 05/04/06 18:09 #

Jæja Sirrý, ég er búinn að henda inn fleiri myndum.