Örvitinn

Páskafrí búið

Í HeiðmörkHvernig stendur á því að maður er dauðþreyttur í vinnunni eftir fríið, á maður ekki að vera endurnærður? Hvað um það, ég er ansi þreyttur.

Við skelltum okkur í Heiðmörk í gær og röltum þar um í rúman klukkutíma. Ég þekki Heiðmörk fyrst og fremst útfrá Garðabæjarhlutanum en í gær gengum við um Reykjarvíkurhluta Heiðmerkur, ég þekki ekki örnefnin. Þetta er fallegt og gróið svæði. Alltaf finnst mér jafn skrítið að vera kominn í myndarlegan skóg rétt við borgarmörkin. Göngutúrinn lagðist misvel í fjölskyldumeðlimi, Kolla var óskaplega lítið glöð með þetta umstang og kvartaði mikið. Við vorum í raun ósköp fegin þegar var vorum komin aftur að bílnum þrátt fyrir að það væri afar huggulegt að rölta um svæðið.

Ég eldaði kjúklingarisotto og focaccia brauð í gærkvöldi, hálfa uppskrift af hvoru. Ég man satt að segja ekki eftir að hafa eldað hálfa risotto uppskrift áður, nota alltaf fullan poka af grjónum (500gr) en bara hálfan í þetta skipti. Ekki frá því að það sé dálítið auðveldara að eiga við þetta þannig. Maturinn kláraðist að sjálfsögðu allur. Yfirleitt elda ég alltof mikið, það væri kannski ráðlegt að fara að minnka það sem eldað er.

Óskaplega fannst mér Bananas fyndin. Flissaði eins og fífl útaf aulabröndurum Allen. Þetta er ekki fyrir alla.

Blóðbankinn sendir tölvupóst og betlar úr mér blóð. Kemst því miður ekki í dag, er bíllaus. Kíki á morgun.

Ég seldi gömlu aðdráttarlinsuna í gær. Var alltaf að fara að auglýsa hana hér og á lmk vefnum en svaraði svo pósti á lmk í gær og stuttu síðar var linsan seld, þó ekki þeim sem þar óskaði eftir linsu. Magnað þetta internet. Linsuna seldi ég þar sem ég keypti nýja (gamla) um daginn og a) hafði ekkert við tvær aðdráttarlinsur að gera, b) þurfti að fá fé upp í kaupin á nýju linsunni og c) kom ekki öllum linsunum fyrir í myndavélatöskunni.

dagbók
Athugasemdir

Birgir Baldursson - 19/04/06 00:17 #

Þessi endalausu ljósmyndablogg þín eru farin að æsa upp í mér gömlu ljósmyndadelluna. Ef þú ferð ekki að hætta þessu veit ég í hvað peningarnir fara hjá mér næstu mánuðina. :)

Annars ertu helvíti lunkinn ljósmyndari og verður betri með hverjum degi.

Matti - 19/04/06 00:36 #

Takk fyrir hrósið.

Ég mæli með þessu, vissulega er hægt að eyða óþarflega miklum pening í þetta áhugamál en það er auðveldlega hægt að finna dýrara hobbí :-) Með tilkomu stafrænna myndavéla er þetta orðið afar aðgengilegt og rekstrarkostnaður sama og enginn. Í dag er hægt að fá fínan pakka með öllu (SLR myndavél, linsa og minniskort) fyrir tiltölulega lítinn pening, sérstaklega ef fólk er tilbúið að skoða notaðar græjur (sem ég myndi mæla með) - gæti trúað að hægt sé að komast í góðar græjur fyrir 50-60k.

Ég ætla semsagt ekki að letja þig í að hella þér út í ljósmyndadelluna ;-)