Örvitinn

Furðulegir strætóbílstjórar

strætóHvað er málið með suma strætóbílstjóra? Hvað er eiginlega málið?

Ég tók strætó úr vinnunni í kvöld, steig upp í 17 fyrir framan Laugaveg 178 korter yfir tíu í kvöld og lét mér líða vel meðan mér var ekið í Mjódd. Þegar vagninn nálgaðist Mjódd sá ég að S3 var rétt á undan, svona 30-45 sekúndum. Ég fagnaði í hjarta mínu, stóð upp og var tilbúinn að hlaupa á milli vagnanna.

Þegar 17 kom að Mjódd var S3 stopp, á milli bílanna voru tæpir tveir metrar. Ég steig út úr vagninum en um leið og fæturnir snertu tyggjóslettustéttina fyrir framan biðstöðina lagði S3 af stað. Ég stóð þarnan frosinn, hefði getað tekið sprettinn með ferðatölvuna á öxlinni en lét það eiga sig, var bara gáttaður. Af hverju í ósköpunum beið bílstjórinn ekki eftir því hvort einhver kæmi úr vagninum sem var stopp fyrir aftan? Í svona fimm sekúndur voru 17 og S3 báðir stopp í Mjódd en samt ók S3 áfram áður en ég gat gengið á milli vagnanna.

Hvað um það, ég rölti heim í góða veðrinu og hafði gott af því. En vagnstjórinn sem ók S3 frá Mjódd í Seljahverfi um hálf ellefu í kvöld er furðufugl.

kvabb
Athugasemdir

Búddha - 19/04/06 09:04 #

Þú ferð fram á þjónustu. SVR er ekki kraftaverkafyrirtæki.

Eyja - 19/04/06 10:02 #

Er það ekki eitt af helstu inntökuskilyrðum strætóbílstjóra að vera furðufugl? Svona svipað og hjá sundlaugastarfsfólki?

Matti - 19/04/06 11:14 #

Það sakar eflaust ekki að vera dálítill furðufugl.

En ætli ég sé ekki jafn mikill furðufugl að halda að maður fái þjónustu á þessum síðustu og verstu tímum.

Halldór Berg - 19/04/06 12:05 #

Sendu þeim bréf og kvartaðu. Þeir verða miður sín í hvert skipti sem einhver gerir það. Þú átt skilið að einhver verði miður sín (annar en þú) eftir þetta. Ekki búast samt við að eitthvað muni lagast.

Gullikr - 19/04/06 22:51 #

Þetta er nú ekki eini furðufuglinn. Því miður virðast einnig vera furðufuglar í yfirstjórn Strætó. Í það minnsta hef ég misst alla trú á stjórnendum hjá þessu fyrirtæki. Kvörtunum er svarað góðlega en lítið er um efndir. Ég gafst upp á þessu rugli og keypti mér bíl.

En þar sem 17 og S3 eiga að vera á sama tíma í Mjódd þá mundi ég biðja vagnstjórann um að láta S3 vita að þú ætlir að taka hann. Þannig ættir þú alltaf að ná S3 í Mjódd.

Guðmundur D. H. - 20/04/06 00:00 #

Matti: Kannski hefur bílstjórinn gleymt sér, eða verið stressaður, kannski ekki séð þig, hver veit.

En svo ég svari út fyrir efnið, þá finnst mér strætó hafa orðið alglataður þegar þeir felldu niður næturferðunum hérna fyrir nokkru, og ekki veit ég til þess að þeir hafi reynt að láta farþega sína vita með nokkrum fyrirvara um það!

Breytingar virðast iðulega vera illa eða ekki auglýstar, þær virðast aðallega auglýstar á síðustu stundu eða eftir á. Undantekningin frá þessu var stóra leiðabreytingin í sumar, enda algjörlega nauðsynlegt að auglýsa hana.

Ég var annars að vonast til þess að með breytingunni í sumar myndu ferðir á 10 mínútna fresti verða normið á fleiri leiðum en bara S-leiðunum, en svo virðist ekki vera, því að núna er komin sumar og vetraráætlun, og 10 mínútna ferðir eru ekki á sumrin! Ef skera þarf niður, þá má hugsa sér að ferðir á 10 mínútna fresti verði felldar niður alveg - mér finnst það meira að segja mjög líklegt að svo yrði, og jafnvel má ætla að frekari sparnaður verði raunin, þar eð verð á eldsneyti hefur farið hækkandi og spurning hvað framtíðin ber í skauti sér í þeim efnum.

Reykvíkingar eru annars að ég tel að brenna inni með að búa sér til betri almenningssamgöngur. Ég segi brenna inni, vegna þess að eftirspurn eftir eldsneyti hefur farið sívaxandi (og setur æ ofan í æ ný met) - og verðið fer hækkandi - og jafnframt fer magn eldsneytisins minnkandi, en einnig vegna þess að Reykvíkingar nota einkabílinn grimmt. Já, grimmt. Þegar og/eða ef verðið á eldsneyti verður of hátt, og fólk getur ekki lengið rekið bensínskriðdrekann sinn, þá mun krafan um vitrænar almenningssamgöngur verða æ háværari og æ réttlátari. - Ekki má gleyma að hraðbrautirnar okkar verða meira eða minna tómar, sennilega fullar af strætóbílum. Og hvað ætlum við þá að gera? Bæta og breyta leiðakerfinu og bæta við bílum? Já, ég hugsa það. En við munum eftir sem áður hugsa, æ, shitt, við hefðum átt að gera eitthvað á meðan við gátum. Spurningin er nefninlega sú hvort við eigum ekki að fara að drífa okkur í að undirbúa okkur fyrir erfiða tímabilið sem er vel hugsanlega eða líklega framundan á næstu árum og búa til lestarkerfi sem gengur fyrir rafmagni? Með þeirri ráðstöfun, að nota rafmagn, þá erum við líka að gera viðskiptahallanum gott, minnka mínusinn aðeins. Oggulítið.

En mér virðist sem svo að íslendingum þyki mjög eðlilegt að allir keyri 10-20km í vinnuna, keyri um á bensíndrekum, borgi svo og svo háar upphæðir í bíl og bensín - og bölvi í leiðinni, kvarti undan tryggingum, og bölva strætó í hástert fyrir að eyða þeirra skattpeningum í eitthvað sem er hvort eð er meingallað.

Já, það er æði að búa með þessu liði.

Gyða - 20/04/06 09:25 #

Guðmundur sagði: "Ég var annars að vonast til þess að með breytingunni í sumar myndu ferðir á 10 mínútna fresti verða normið á fleiri leiðum en bara S-leiðunum, en svo virðist ekki vera, því að núna er komin sumar og vetraráætlun, og 10 mínútna ferðir eru ekki á sumrin!"

Hvaðan hefur þú það að ferðir á 10 mín fresti séu ekki á sumrin? Ég sé ekkert um það á heimasíðu strætó og nota strætó daglega. Reyndar er ég svo heppin að S leið gengur heiman frá mér og beint í vinnuna mína.

Gyða

Guðmundur D. H. - 20/04/06 14:51 #

Gyða: Það kemur ekki fram á heimasíðu Strætó, heldur er það einungis að finna á leiðatöflum S-leiðanna (svo best ég viti). Raunar er mér það óskiljanlegt hvers vegna þetta er svona, en svoleiðis er það nú bara stundum.

Gyða - 20/04/06 17:07 #

Stórfurðulegt að þetta sjáist ekki á leiðartöflunni á netinu hjá þeim en bara í strætóskýlunum!! Ég fór meira að segja út á stoppustöð til að staðfesta þetta hjá þér og jú mikið rétt stendur þar! En annars eru bílarnir meira og minna tómir eftir að skólarnir klárast svo ég get svo sem skilið að það sé dýrt að láta bílana keyra með örfáa farþega á 10 mín fresti.