Örvitinn

Nasistakökur og tíuþúsund dagar

Það er varla að ég vilji vísa á þetta svo maður komi Kristjáni Atla ekki í vandræði, en fjandakornið, hvað er málið með þessa nasista? Æi, ef maður setur það á vefinn er það vegna þess að maður vill að fólk lesi um það :-)

Ég á tvo yfirmenn hérna, pabba og bróður hans. Við erum þrír sem aldrei snertum á þessum tertum, bökuðum í minningu milljóna manna sem var slátrað vegna haturs og fordóma. Ætli það sé önfirska loftið sem hefur blessað okkur með svona sterkri sannfæringu? Erum við óeðlilega sterkir karakterar? Eða erum við umkringdir hálfvitum … ?

Ég er stundum ekki viss.

Þið eruð umkringdir hálfvitum. Það er ekkert sniðugt við það að halda uppi merkjum Nasisma á vorum tímum, ekkert. Vel má vera að flestir þeirra sem þiggja kökurnar og brosa að þessu séu ágætis menn, en þarna skortir alla hugsun, alla tilfinningu fyrir því sem máli skiptir. Hvað hefðu þeir svo sagt hefði gyðingur, blökkumaður eða samkynhneigður einstaklingur gengið inn í kökuboðið? "hahaha, þetta er bara djók, finnst þér þetta ekki fyndið?" (ef einhver örvitinn líkir þessu við Múhameðsteikningamálið...). Stundum þarf að rífa kjaft, styggja fólk. Þarna er nauðsynlegt að láta kökuliðið heyra það, ekki þegja til að hafa alla góða.

Þetta hefði ég náttúrulega skrifað í athugasemd ef það væri í boði :-)

Svo vildi ég bara nefna það, því það tengist Kristjáni Atla, að ég er að hlusta á nýjstu plötu Tool, 10,000 Days. Um mig fer sæluhrollur. Grínlaust.

dagbók
Athugasemdir

Eyja - 21/04/06 10:14 #

Oj bara! Ég legg til við Kristján Atla að á næsta ári mæti hann með myndir af illa útleiknum líkum fórnarlamba nasista og hengi upp við hliðina á kökunni.

Jón Magnús - 21/04/06 14:19 #

Sammála, þetta er algerlega út í hött. Fyrir mann eins og mig sem hefur komið í Auswitz er dapurt að horfa upp á svona vitleysu. Ef menn hampa manni eins og Adolf Hitler og láta baka köku honum til heiður þá séu þeir eitthvað heimskir.

Ég viðurkenni það alveg að ég hef fordóma gagnvart fordómafullu fólki og greinilegt er að Fiskm. Haf. er fullur af mönnum sem hafa ekki kynnst öðrum menningarheimum en sínum eigin.

Jæja, best að fara baka köku fyrir afmælið hans Idi Amin...

Eggert - 21/04/06 18:03 #

Ekki seinna vænna að byrja að baka, Idi Amin á afmæli 17. maí.

Kristján Atli - 21/04/06 18:47 #

Ummæli 1: Mig grunaði algjörlega að þú myndir tjá þig um þetta. Það hefur hvarflað að mér að koma með mótleik, eins og að baka köku til minningar um Sri Ramawati (minnir að nafnið hennar hafi verið stafsett svo, man það þó illa) ... eða ganga jafnvel lengra og baka köku með nöfnum frægra gyðinga.

En það bara þýðir ekkert. Þeir myndu sennilega éta þá tertu líka, hvort sem verið væri að skjóta á þá eða ekki. Hvernig er hægt að rífast við menn sem finnst það of mikil fyrirhöfn að standa fast á skoðunum sínum?

Ummæli 2: Besta hljómsveit í heimi. Án gríns. ÁN GRÍNS! ÁN GRÍNS!!! ;-)

Matti - 21/04/06 23:51 #

Hvernig er hægt að rífast við menn sem finnst það of mikil fyrirhöfn að standa fast á skoðunum sínum?

Það er náttúrulega ekki hægt, það er rétt. En það er hægt að gefa þeim í skyn að maður sé ekki sömu skoðunar, eins og þú gerðir þarna.

En hvaða kökugerðarmaður bakar svona köku?

Þetta er absúrd mál.

Kristján Atli - 22/04/06 00:48 #

Bakarinn sem gerði kökurnar (hátt í 25 stykki, sendar þrjár í einu á um átta eða níu staði frá Sandgerðis til Reykjavíkur) er gamall vinur mannsins sem lætur hann gera kökurnar fyrir sig. Þeir eru báðir nasistar, og bakarinn er svo áhugasamur um þetta málefni að hann gefur vinnu sína svo að fögnuðurinn geti farið fram. Þannig að þeir eru ekki að borga fyrir neitt nema hráefnið.

Hann kom til mín í dag, daginn eftir kökuátið, og spurði hvernig fólki hefði líkað kökurnar. Ég sagði honum að fólk hefði étið þær, flestum hefði samt verið skítsama hvað stóð á þeim. Hann brosti bara og sagði, "þá er hálfur sigurinn unninn."

Mig langaði til að stöðva hann í dyrunum á skrifstofunni minni, og segja við hann: "Þú veist að ef ég væri yfirmaður hér hefðu þessar tertur aldrei komist inná lóðina, hvað þá inní kaffistofu! Þetta helvítis nasistarugl þitt hefur gengið allt of langt, allt of lengi. Hvers konar fullorðinn manneskja á 21. öldinni lætur út úr sér að Hitler hafi verið 'misskilið mikilmenni'? Hvers konar aumingi kallar svertingja sviðakjamma? Hvers konar hálfviti neitar að afgreiða mötuneyti um fiskibollur af því að viðkomandi mötuneyti ræður filippseyskar konur í eldhúsið sitt? Hvers konar skrímsli ólu þig eiginlega upp? Hvers konar djöfulsins mannvera ertu eiginlega, sérð ekki sólina fyrir hugsunarlausu og tilgangslausu hatri þínu á fólki sem myndar um fjóra/fimmtu af fólksfjölda þessa hnattar? Og svo vogarðu þér að fara beint eftir kökudreifingarnar með barnabarnið þitt á kristilegan fund hjá KFUM&K? Þar sem fólk reynir að útbreiða boðskap? Hvers konar boðskap laumar aumingi eins og þú að barnabörnunum sínum þegar foreldrar heyra ekki til? 'Jesús hataði líka sviðakjamma.' Hvers konar djöfulsins ófreskja ertu?!?"

En ég sagði ekki neitt. Þetta er bara gamall kall og ég hef rifist oft við hann. Hef gefist upp á því, og þótt ég rífi kjaft við alla hina sem fá sér sneið langar mig ekki lengur til að rífast við hann.

Úff. Sorrý að ég skuli nota færslukerfið þitt til að fá útrás, það var ekki planað. Þú veist hvernig þetta er. :)

Matti - 22/04/06 00:54 #

Fáðu endilega útrás hér, þetta er til fyrirmyndar :-)

Eftir að hafa heimsótt Auschwitz/Birkenau og skoðað þar með eigin augum hvað þar fór fram hef ég engan skilning á málstað þeirra sem mæra Nasisma, engan vilja til að vera kurteist við þá og engan áhuga á að sýna þessu hyski umburðarlyndi.

En ég skil þig vel þó þú rífist ekki við gamla karlinn. Tilgangsleysið væri fullkomið.

En hvað ætli bakarinn segði við fjölmiðlafólk væri hann spurður út í þetta? Ætli hann myndi stæra sig af bakstrinum, hreykja sér af þessu?

Ingibjörg Stefánsdóttir - 01/05/06 18:09 #

Hvar er bakarí þessa manns? Þarf að muna að sneiða hjá því.

Óli Gneisti - 01/05/06 19:17 #

Ég ætlaði einmitt að spyrja að því sama.

Erla Hlyns - 01/05/06 20:57 #

Vá, hvað ég hlýt að vera firrt. Ég hugsaði: Þetta getur ekki verið á ÍSLANDI - svona gerist ekki hér.