Örvitinn

Úr mér lak blóð (og ég át grænmeti)

Skrapp í blóðbankann og gaf blóð. Tókst óvenjuvel í þetta skipti, varla að ég fyndi fyrir stungunni. Samt verð ég alltaf dálítið stressaður áður en nálinni er stungið í æðina, reynslan hefur þar lítið að segja því í langflestum tilvikum er þetta ekkert mál. Í eitt eða tvö skipti hefur þetta verið sárt, hin skiptin í versta lagi smá óþægindi. Samt fæ ég hnút í magann og aukinn hjartslátt.

Ég og Gyða fórum svo að borða á Grænn kostur, þar fékk ég mér Spínatböku (til að fá járn eftir blóðgjöfina :-P ) og Gyða fékk sér indverska böku. Afar fínn matur, vel útlátnir skammtar og sanngjarnt verð (950 á manninn).

Skrapp með ferðavélina í viðgerð. Hún fraus aftur í gærkvöldi. Fyrst kom skruðningshljóð, eins og einhver vifta eða diskur væri að gefa upp öndina, svo fraus hún smátt og smátt (fyrst hættu forrit að svara, svo lyklaborð, svo mús og að lokum bláskjáaði vélin. Virkaði fínt í morgun en ég ákvað að skella mér með hana í viðgerð meðan hún er enn í ábyrgð. Fékk afrit af reikningnum sent í faxi frá Landsbankanum en þar fékk ég einmitt tölvukaupalán á sínum tíma. Fín þjónusta hjá starfsmannadeild Landsbankans.

dagbók matur tölvuvesen