Örvitinn

Þessi blíða

Ég í blíðunni í dagÓskaplega er gott þegar blíðan leggst yfir borgina. Við höfum haft það afskaplega gott um helgina. Í gær skutlaði ég garðúrgangi og sófa á Sorpu og stelpurnar léku sér úti allan daginn. Kíktum í heimsókn í leikskóla stelpnanna um morguninn, hádegismat hjá tengdó og borðuðum svo grillmat hjá foreldrum mínum í gærkvöldi.

Í dag tjölduðum við í garðinum okkar til að viðra tjaldið og röltum svo á bensínstöðina til að pumpa í hjólin okkar. Fórum þvínæst í afar stuttan hjólatúr með stelpunum. Gyða ætlar að hjóla í vinnuna á morgun, ég er að velta því fyrir mér að hjóla líka.

Ég horfði á lokaumferð enska boltans í dag. Úrslit voru ekki eins og ég hafði vonast eftir, Charlton menn spiluðu eins og aumingjar og voru engin fyrirstaða fyrir United. Það sem er svekkjandi við þessi úrslit er að Liverpool náði ekki nema stigi frá Charlton á þessu tímabili. En ég er sáttur við tímabilið hjá Liverpool, byrjunin var slæm en ef tímabilið hefði hafist um miðjan október væri Liverpool meistari í dag! Ég var líka að vonast til þess að Arsenal myndi ekki ná fjórða sæti, ekki það að mér sé illa við þetta Arsenal lið en það hefði samt verið skondið ef þeir hefðu ekki náð Meistaradeildarsæti.

Ég grillaði lambakótilettur og ostapylsur á svölunum í kvöld, drakk að sjálfsögðu einn bjór með. Er að spá í að kaupa mér nýtt grill, sé ekki betur en að það sé að koma smá verðsamkeppni í þeim geira, Hagkaup, Byko og fleiri væntanlega með stóran lager af grillum.

Ég er rjóður í kinnum, hef eflaust tekið smá lit um helgina. Skellti nokkrum myndum á myndasíðuna.

dagbók