Örvitinn

Ferska loftið fyrir utan Players

Ég fór á Players í gærkvöldi að horfa á fótboltaleik. Vitið þið hvað var besta upplifunin við þá heimsókn? Það var ekki þessi staki bjór sem ég fékk mér og ekki heldur pepperonipizzan sem þó var ágæt.

Það besta var að komast út í hálfleik og að leik loknum. Ég get svo svarið það, loftið fyrir utan var svo ferskt (samanborið við reykjarsvæluna inni á Players) að upplifunin var eins og að koma upp úr kafi eftir að hafa haldið inni andanum aðeins lengur en maður þolir, skyndilega gat ég fyllt lungun af lofti og fann hvernig líkaminn fagnaði óeitruðu súrefni sem flæddi um kroppinn. Þetta var eins og að gæða sér á fullkomnum mat, sæluhrollur fór um mig.

Þegar ég fór aftur inn eftir hálfleikspásuna fann ég hvað loftið á Players var súrt. Djöfulsins fokking viðbjóður, að fólki skuli finnast þetta í lagi er ekkert annað en klikkun. Fólk sem situr inni á svona stað og reykir er barasta geðveikt. Það gæti eins verið að kúka á borðið, setið þar í eigin hægðum og hlegið að þeim sem finnst lyktin vond. Ég lét mig hafa það að sitja þarna, annað hvort horfir maður á leikinn á svona búllu eða lætur Sýn fjárkúga sig, þannig að valið er ekki gott.

En mikið óskaplega var ferska loftið fyrir utan Players gott í gærkvöldi.

kvabb
Athugasemdir

Árni Þór - 18/05/06 10:28 #

En Matti, þú gleymir að reykingar eru bara svo kúl...

Gæti ekki verið meira sammála þér. Ég aðhyllist sjaldan gerræðisákvarðanir, en það er löngu kominn tími á að banna þetta þar sem fólk kemur saman.