Örvitinn

Mr. Skallagrímsson

Á föstudagskvöldið skellltum við okkur á leiksýningu í Borgarnesi, nánar tiltekið í Landnámssetri Íslands.

Það er ekki erfitt að finna Landnámssetrið, Borgarnes virðist fátt annað rúma þessa dagana, flögg og merkingar úti um allt. Setrið er í tveimur húsum sem búið er að byggja tengibyggingu á milli, ansi flott barasta. En ég ætla ekki að fjalla um það heldur segja frá þessari sýningu.

Kjartan Ragnarsson sjálfur var í miðasölunni og handskrifaði fyrir mig miða handa fjórum, ég hafði nefnilega greitt miðaðana með kreditkorti um miðja síðustu viku. Þetta var semsagt ekkert óskaplega stíft umhverfi.

Sýningin er á loftinu þar sem er lítill en notalegur salur. Tvöfaldar sætaraðir eftir endilöngu lofti og salurinn var næstum fullur klukkan sjö á föstudagskvöld. Við skelltum okkur framarlega í biðröðina og náðum sætum í fremri röð.

Benedikt Erlingsson, sem skrifar handrit með liðsinni Snorra Sturlusonar, segir okkur Egilssögu á tveimur tímum í þessu verki. Hann gerir þetta gríðarlega skemmtilega, brýtur frásögnina upp með allskonar vísunum, tengir söguna staðháttum og leikur svo ótal persónur með miklum tilþrifum. Svo miklum að sumum fannst hann frussa full mikið en mér fannst þetta alveg hæfilega mikið fruss.

Ég man hvað ég frestaði því lengi að lesa Egilssögu í gamla daga enda var ég neyddur til þess og fátt dregur meira úr áhuga manns á bók en að vera skyldaður til að lesa hana. Las bókina loks í einum rikk nóttina fyrir próf og var hundfúll að hafa ekki gert það fyrr, þótti hún það skemmtileg. En mikið óskaplega gæfi ég mikið fyrir að hafa haft svona kennslu því sagan lifnar við í meðförum Benedikts. Allur hrottaskapurinn kemst til skila og maður fyllist hálfgerðri sektarkennd á stundum yfir því að þetta skuli vera hetjur, brjálaðir morðhundar og sadistar. En hvað um það, þetta er ekki bara blóðugt heldur líka fyndið. Ýmsar endurtekningar í verkinu voru stórskemmtilegar, sérstaklega þótti mér það skondið þegar Egill fékk verk fyrir brjóstið og þurfti því að slátra einhverjum þar til verkur hvarf.

En þó verkið væri fyndið sýnist mér að Benedikt sé kominn í dálítið erfiða stöðu sem best er að kenna við Sigga Sigurjóns. Siggi Sigurjón lenti nefnilega iðulega í því að áhorfendur fóru að flissa þegar hann birtist á sviðinu í Þjóðleikhúsinu jafnvel þó verkið væri alvarlegt og persóna Sigurðar að gera eitthvað ákaflega ófyndið.

Þetta var kannski ekki svo alvarlegt á föstudaginn en þó var þarna ein kona sem þótti Benedikt gríðarlega sniðugur. Hún svoleiðis sprakk úr hlátri við kynninguna, Benedikt sagði "góða kvöldið" ... hahahaha. En hann tæklaði það vel og var með fína stjórn á þessu. Það er eitthvað óþægilegt við fólk sem hlær of mikið, jafnvel þó sýningin sé fyndin.

Mr. Skallagrímsson er semsagt sýning sem ég mæli eindregið með. Stórskemmtileg og fróðleg sýning. En ekki fara ef þið þolið ekki að vera í nálægt við leikarana. Stúlkan sem sat hliðina á mér fyrir hlé átti dálítið bágt með sig þegar Benedikt var nálægt okkur og horfði þá iðulega í öfuga átt, á móti mér. Það þótti mér kjánalegt. Eftir hlé skipti hún um sæti við kærastann sinn og hann átti ekkert erfitt með sig.

Eitt verð ég að nefna. Ljósmyndir í leikskrá eru afar flottar. Annað vil ég líka minnast á, leikmynd er afar einföld. Felst eiginlega bara í fjórum drumbum sem Benedikt tillir sér á af og til. Kannski mætti halda því fram að salurinn og útsýnið sé hluti af leikmyndinni því Benedikt notfærir sér umhverfið og útsýnið afar skemmtilega; "nákvæmlega þarna" segir hann og bendir út á haf, "nákvæmlega þarna komu þeir að landi". Og maður trúir honum þó maður viti að það sé líklegast ekkert til í þessu.

En ætli helsti kostur þessara sýningar sé ekki sá að maður fær það ekki beinlínis á tilfinninguna að maður sé í leikhúsi. Benedikt Erlingsson er bara að segja okkur Egilssögu og er meira að segja búinn að læra fullt af setningum og kvæðum utan að!

leikhús