Örvitinn

Meika þetta ekki

Ég var hrikalega þreyttur í gærkvöldi. Fór í rúmið klukkan tíu, kláraði fyrsta kaflann í The End of Faith og sofnaði svo, svaf til tíu í morgun.

Er búinn að koma mér fyrir í stofunni og er að rembast við að vinna (í sumarfríinu). Veðrið er ekki beinlínis að hjálpa til. Kíkti út í garð rétt áðan, ógurlega notalegt að sitja aðeins í sólinni ef það væri ekki fyrir nágrannann sem hamast með slípirokk á grindverki fimm metra frá garðinum mínum. Af hverju fer karlinn ekki í sólbað?

Ég veit ekki hvað ég næ að vinna mikið í dag, er reyndar kominn yfir helstu tæknilegu hindranir, er núna að rekja formúlur í excel skjali sem er flóknara en það hljómar. Sjáum til hvað ég næ að gera mikið í dag, seinnipartinn á morgun ætla ég að yfirgefa borgina.

Það er golfmót á vegum starfsmannafélagsins í kvöld á golfvellinum í Grindavík. Þarf að redda mér kylfum. Þetta verður þá í þriðja sinn sem ég fer í golf. Gera má ráð fyrir miklum tilþrifum.

Það sveima nokkrir máfar yfir Bakkaselinu. Hundur í hinum endanum geltir stanslaust.

dagbók