Örvitinn

Sjálfsævisaga Robbie Fowler

fowler autobiographyPalli lánaði mér þessa bók eftir golfið um daginn og ég kláraði hana áðan.

Þetta er afar áhugaverð bók fyrir stuðningsmenn Liverpool. Reyndar er bókin skelfilega illa skrifuð, mikið um endurtekningar og svo er málfarið afskaplega sérstakt (Scouse). Það hefði einhver grimmur ritstjóri mátt fara yfir bókina og strika yfir það sem áður hafði komið fram. En mér fannst bókin ansi skemmtileg, það er gaman að skyggnast bak við tjöldin hjá Liverpool og enska landsliðinu (Leeds og City líka, jújú). Maður á það til að gleyma því hve magnaður leikmaður Fowler var, algjört undrabarn þegar hann hóf að spila með aðalliði Liverpool og skoraði rúmlega þrjátíu mörk á hverju tímabili.

Frásagnir af umgjörðinni í kringum Liverpool eru fróðlegar og gaman að heyra hans sjónarmið á þá knattspyrnustjóra sem stýrt hafa liðinu. Augljóst er að Fowler líkar ekkert mjög vel við Gérard Houllier. Ég hef heyrt á spjallborðum að Fowler hefði mátt sleppa þeim kafla eða tóna hann niður þar sem hann virki ansi bitur i þeirri umfjöllun þegar hann kennir Houllier um að hafa hrakið sig burt, en ég get skilið Fowler og finnst umfjöllunin um þetta ansi góð.

Sögurnar af leikmönnum sem hann hefur spilað með eru margar lygilegar, þetta eru náttúrulega "vitleysingar" upp til hópa og Fowler er duglegur að benda á það að þetta séu ekkert afskaplega skarpir náungar, hann sjálfur meðtalinn. Gazza virðist vera snarruglaður, Collymore og Anelka fá ekki jákvæða umsögn og ég skil vel að menn hafi ekki viljað deila hótelherbergi með David James.

Fræg atvik eru útskýrð eins og t.d. þegar Fowler "sniffaði" línuna, sneri rassinum að Graeme Le Saux og ruglið þegar hann hefur komist í kast við lögin. Kannski er maður grænn, en mér finnst skýringar Fowler á þessum atriðum góðar, þó hann sé ekki að gera of lítið úr sínum hlut, margt af þessu var náttúrulega algjört bull.

Það er einkar ánægjulegt að lesa þessa bók vitandi það að Fowler fór aftur til Liverpool nokkrum mánuðum eftir að bókin kom út. Það er alveg ljóst við lesturinn að hann vildi aldrei fara frá liðinu og hann tekur það oft fram að hann vildi helst vera kominn aftur til Liverpool. Nú er bara að vona að hann klári ferilinn með stæl og nái að vinna titla með liðinu sínu.

boltinn bækur
Athugasemdir

Kristján Atli - 28/07/06 16:23 #

Ég hef aldrei nennt að lesa þessar sjálfsævisögur knattspyrnumanna, ekki eina einustu þeirra, en ég gæti freistast til að lesa þessa við tækifæri. Ég meina, þetta er Fowler, og það er ástæða fyrir því að við Liverpool-aðdáendur köllum hann Guð - þar er þó einn sem þú trúir á Matti ;)

Já og kannski ef Jamie Carragher gefur einhvern tímann út sjálfsævisögu. Það ætti að verða kostuleg lesning. En yfirleitt nenni ég ekki að lesa eitthvað sem fótboltakappar hafa sagt og svokallaðir 'draugapennar' hafa skrifað upp eftir þeim.

Matti - 28/07/06 16:29 #

Já, þessar sjálfsævisögur fótboltakappa eru engin bókmenntaverk, en áhugamenn um knattspyrnu ættu að hafa gaman að þessu.

Skondið annars að ég sá sömu galla á sjálfsævisögu Keane, sé ég þegar ég renni yfir hana núna. Þessi draugapennar mættu greinilega vanda sig betur!

Auðvitað trúi ég á Gvuðinn Robbie Fowler og kraftaverk hans :-) (annars ætti maður ekki að láta svona frá sér, trúmenn eru sumir líklegir til að grípa þetta á lofti til að snúa út úr í umræðum um trú og trúarbrögð!)

Mummi - 28/07/06 17:07 #

Ég las þessa bók í fyrra og fannst hún einnig mjög áhugaverð. Hún er frekar lengi í gang og kaflarnir um æsku hans eru alltof langir. En annars ágætis lesning og ég varð mun fróðari um kappann.

Kristján Atli - 28/07/06 17:39 #

Tja, þú nefnir Robbie Fowler og [fyrrverandi United-fyrirliða, ónefndur hér af augljósum ástæðum] í sömu andránni. Það, í mínum bókum, er gvuðlast! ;)

Matti - 28/07/06 22:00 #

Maður verður að þekkja myrkrið til að greina ljósið :-P