Örvitinn

Árbærinn er ekkert svo langt í burtu

andarungar í hópknúsi Ég sló garðinn fyrir framan og aftan í gær. Nennti ekki að klára að raka, ákvað að geyma það til dagsins í dag. Auðvitað er hellidemba núna.

Við hjónin skelltum okkur út að hjóla í gærkvöldi. Fórum ekki stóran hring en áður en við vissum af vorum við komin að Árbæjarlaug. Ég verð bara að játa að ég fattaði ekki að hún væri svona nálægt, hef ekki áður hjólað þennan spöl. Hef ansi oft keyrt á Fylkisvöllinn en er nokkuð viss um að það tæki ekki lengri tíma að hjóla þessa leið.

Við stoppuðum meðal annars við stífluna, röltum yfir og skoðuðum fuglalífið. Þetta er merkilega stórt gróið svæði inni í miðri borg. Er ekki hægt að planta álveri eða annarri stóriðju þarna :-P

Á heimleiðinni kom í ljós að Gyða hefur verið að hjóla óþarflega langa leið heim í og úr vinnu. Ég sýndi henni "mína leið" sem ég hef reyndar ekkert hjólað á þessu ári. Er að spá í að hjóla í vinnuna í vikunni.

dagbók
Athugasemdir

anna - 30/07/06 15:53 #

Til hvers að hjóla í vinnuna? Hér löbbum við allra okkar ferða, í vinnuna, Árbæjarlaug, stífluhringinn, Heiðrúnu, Bónus, Árbæjarkirkju, Vog og rasistakrá ÁHE. Það er gott að búa í Árbænum þótt ekki sé ég áhangandi Fylkis

Matti - 30/07/06 19:44 #

Tja, ég nenni ekki að labba úr Bakkaselinu á Laugarveginn :-) En það er létt að labba hjóla það.

Aftur á móti munum við vafalítið hjóla með stelpurnar í Árbæjarlaugina í framtíðinni.

anna - 30/07/06 22:52 #

Þú verður bara að gera eins og ég, að sameina vinnu og heimili, að flytja á Laugaveginn eða fá þér vinnu í Seljahverfi. Ég bý í sex mínútna göngufæri við vinnuna, annað en þegar ég bjó í Södertälje og vann í Hässelby (tveir tímar með lestum hvora leið)

Matti - 30/07/06 23:14 #

Þegar ég vann hjá Landsbankanum gat ég gengið í vinnuna því þá var hugbúnaðardeild bankans staðsett í Álfabakka, 5-10 mínútna göngutúr frá heimilinu. En ég er hættur þar og auk þess er tölvudeildin flutt í miðbæinn.