Örvitinn

Í sólinni

Ég hef ekki fengið að njóta blíðunnar mjög mikið. Hjólaði þó heim í afskaplega góðu veðri í gær. Ferðalagið gekk nokkuð vel en brekkurnar í Breiðholtinu reyndust samt dálítið erfiðar. Þegar heim var komið rakaði ég í blíðunni og svo lagðist ég bara í grasið í smá tíma með stelpunum áður en ég skellti mér í sturtu. Næst á dagskrá er að þrífa grasið úr sturtunni!

Ég hjólaði ekki í dag enda fótbolti í hádeginu. Því miður var mætingin slöpp, vorum sjö en við spiluðum samt á framvellinum í afskaplega góðu veðri. Þar tók ég bara alveg ágætlega á því. Fann í lokin að ég var orðinn tæpur í fótunum.

Litlu stelpurnar hafa haft það gott þessa tvo sólardaga. Gunna og Ásmundur hafa sótt þær á leikskólann báða dagana. Í gær fóru þau í Heiðmörk en í dag er öll hersingin í Viðey. Meira að segja Áróra Ósk var fengin að láni hjá pabba sínum, dregin frá tölvunni og út í góða veðrið.

dagbók