Örvitinn

Hýr dagur

regnbogaregnhlífHvað í andskotanum er ritstjórn Morgunblaðsins að spá? Hvaða fávitar ákváðu að leyfa Jón Val Jenssyni og kaþólsku vinum hans að kaupa heilsíðuauglýsingu sem beint er gegn samkynhneigð á þessum degi? Hvað næst, heilsíða þar sem konum er sagt að halda sig heima á kvennafrídegi? Myndi Vantrú fá að kaupa heilsíðu á jólum þar sem bent er á að Jesús hafi eflaust ekki verið til og hafi alls ekki fæðst á jólum? Ég efa það. Moggamenn mega skammast sín.

Við kíktum að sjálfsögðu í bæinn í dag. Fullt af fólki og heljar fjör í göngunni, við stóðum á miðjum Laugavegi og virtum þetta fyrir okkur, stelpunum þótti þetta afar áhugavert en tónlistin frekar hávær og Kolla furðaði sig á öllu fólkinu sem var að reykja í göngunni (ég mæli með því að næst verð mælst til þess að göngufólk reyki örlítið minna meðan á göngu stendur). Ég tók nokkrar myndir.

Við settumst svo á túnið fyrir neðan MR og hittum þar foreldra mína, systkyni og Jakobínu. Vorum í bænum til að verða fimm.

Nágranni minn, í næsta "u-i" er að halda upp á stórafmæli. Rétt í þessu hljómaði YMCA lagið um hverfið, afar viðeigandi á þessum degi.

dagbók
Athugasemdir

Jón Valur Jensson - 12/08/06 23:54 #

Ég og mínir kaþólsku vinir keyptum enga heilsíðuauglýsingu í Mbl. – höfum ekki efni á því !

Matti - 12/08/06 23:55 #

Af hverju er þá vísun á kirkju.net í auglýsingunni?

Carlos - 13/08/06 00:04 #

Afar ósmekkleg auglýsing engu að síður á þessum degi. Hverjir standa eiginlega að baki henni?

Jón Valur Jensson - 13/08/06 01:29 #

Ósmekkleg auglýsing? – Alveg var sú fullyrðing órökstudd. Vísunin er á Kirkju.net af því að viðkomandi auglýsendum þótti ástæða til þess. Það er sáralítið af frambærilegu efni um þessi mál á íslenzkum vefsíðum, enda fór sem fór á þingi í júní (og enn munu samkynhneigðir halda áfram kröfugerð sinni, með a.m.k. fjögur baráttumál næst á dagskrá; þingmenn, sem héldu að þeir fengju nú frið frá kröfum þessa hóps, komust að öðru í vikunni sem var að líða).

Matti - 13/08/06 09:40 #

Vísunin er á Kirkju.net af því að viðkomandi auglýsendum þótti ástæða til þess.

Hverjir eru viðkomandi auglýsendur?

Ég hef afar litla trú á því að þú tengist málinu ekki Jón Valur. Innihald auglýsingarinnar er alltof líkt því sem þú hefur frá þér látið.

Keli - 13/08/06 12:48 #

Í þessu sambandi má benda á yfirlýsingu hóps kristinna félaga og einstaklinga frá því janúar 2006. Sá hópur kallar sig það sama og ritað er undir auglýsinguna í gær: Samvinnuhópur kristinna trúfélaga. Þarna á meðal er vissulega Jón Valur Jensson.

Matti - 13/08/06 12:52 #

Ah, alveg rétt. Ég skrifaði um það á sínum tíma en linkarnir virka ekki eins og er, ekki frekar en þinn. Vísir virðist einstaklega illa rekinn vefþjónn.

N.b. ég lagaði vísunina í athugasemdinni hjá Kela.

Matti - 13/08/06 13:12 #

Ekki er nóg með að Jón Valur sé á listanum, heldur er félagi hans á kikju.net, Jón Rafn Jóhannsson þarna líka.

  • Hvítasunnukirkjan Fíladelfía, Reykjavík,
  • Hvítasunnukirkjan í Keflavík,
  • Hvítasunnukirkjan á Akureyri,
  • Hvítasunnukirkjan Betel, Vestmannaeyjum,
  • Hvítasunnukirkjan Salem, Ísafirði,
  • Hvítasunnukirkjan Selfossi,
  • Hvítasunnukirkjan Kirkjulækjarkoti,
  • Íslenska Kristskirkjan, Grafarvogi,
  • Fríkirkjan Kefas,
  • Krossinn í Kópavogi,
  • Fríkirkjan Vegurinn,
  • Betanía, kristið samfélag,
  • Hjálpræðisherinn á Íslandi,
  • Sjónarhæðarsöfnuður, Akureyri,
  • Akurinn, kristið samfélag, Kópavogi,
  • Samfélag trúaðra, Reykjavík,
  • Samfélagið Hörgshlíð 12,
  • Vinyard, kristið samfélag, Reykjavík,
  • Aðventkirkjan á Íslandi,
  • Rússneska rétttrúnaðarkirkjan: Söfnuður Moskvu-Patríarkatsins í Reykjavík (Ísland - prestur Timur Zolotuskiy)
  • Anton Ingimarsson, kt 1108595709, verslunarstjóri.
  • Dr. Arngrímur Jónsson, fyrrv. sóknarprestur.
  • Eva S. Einarsdóttir, ljósmóðir í Kópavogi.
  • Flóki Kristinsson, sóknarprestur á Hvanneyri.
  • Guðlaugur L. Aðalsteinsson, kt 2611602779,
  • og k.h. Kolbrún B. Jónsdóttir
  • Guðmundur Óli Ólafsson, fyrrv. prófastur í Skálholti.
  • Guðmundur Pálsson, sérfræðingur í heimilislækningum.
  • Gústaf Níelsson, sagnfræðingur í Reykjavík,
  • og k.h. Bergþóra Sigurbjörnsdóttir, forstjóri.
  • Halldór S. Gröndal, fyrrv. sóknarprestur.
  • Jakob Rolland, kanslari kaþólsku kirkjunnar.
  • Jón Oddgeir Guðmundsson, Akureyri.
  • Jón Valur Jensson, guðfræðingur í Reykjavík.
  • Jón Rafn Jóhannsson OCDS (Karmelítareglunni, kaþ. kirkjunni)
  • Laufey Jensdóttir, 210524-3989, húsmóðir.
  • Lilja Kristjánsdóttir húsmóðir, fyrrv. kennari.
  • Dr. Loftur R. Gissurarson, gæðastjóri OR, Mosfellsbæ.
  • Patrick Breen, sóknarprestur kaþólskra á Akureyri.

frelsarinn@gmail.com - 13/08/06 13:38 #

Ekkert kemur þarna á óvart, Þarna er fólk innan raða Þjóðkirkjunnar sem biskupinn (hann væri reyndar á listanum ef hann væri ekki biskup) var að vernda með því að heimta að Alþingi samþykkti ekki að trúfélög mættu gefa saman samkynhneigða.

Jón Valur Jensson - 13/08/06 22:34 #

Allt, sem ég sagði hér ofar, var sannleikanum samkvæmt, ólíkt því sem sagði í 2. setningunni í greininni Hýr dagur hér ofar ("Hvaða fávitar ákváðu að leyfa Jón Val Jenssyni og kaþólsku vinum hans að kaupa heilsíðuauglýsingu sem beint er gegn samkynhneigð á þessum degi?"). En frumkvæði þeirra, sem að þessari auglýsingu stóðu, er lofsvert. Ég ætla að styðja það framtak eftir helgina með táknrænum þúsundkalli, því að auglýsingin mun hafa verið mjög dýr. En samvinnuhópurinn, sem að auglýsingunni stendur, er ekki nákvæmlega sá sami og stóð að yfirlýsingunni í janúar. Hvorki Kirkjunetið né kaþólska kirkjan áttu aðild að þessum hópi, sem Kristinn Ásgrímsson sagði frá í Rúv-útvarpi og Sjónvarpinu í kvöld, enda var víst sáralítill tími til undirbúnings. Hitt er rétt, að ég tók því fegins hendi, að bent yrði á vefmöppu um málefni samkynhneigðar á Kirkjunetinu í þessari auglýsingu, þ.e. á www.kirkju.net/index.php/jon?cat=51

Góðar stundir.

Matti - 13/08/06 22:38 #

Þú vissir semsagt af auglýsingunni fyrirfram og þú ætlar að styrkja þetta fjárhagslega.

Gott að vita að þetta var ekki nákvæmlega sami hópurinn. Dálítið erfitt að greina á milli þegar hópurinn notar sama heiti.

Skora á þig að fylgjast með umræðunni hér á landi næstu daga Jón Valur, almennt talað fyrirlítur fólk þá sem að þessari auglýsingu stóðu.

Get sagt þér að það var afar góð stemming í bænum í gær þar sem tugþúsundir íslendingar úr öllum stéttum voru mættir til að gleðjast með samkynhneigðum.

Jón Valur Jensson - 14/08/06 15:21 #

Menn skemmta sér víða vel, þegar skemmtiatriði eru í boði. En aðsóknin var langt frá þeim 50 þúsundum sem talað var um að hefðu mætt í fyrra. Ég heyrði: 20-25.000 eða 25-30.000 á einni útvarpsstöð og 30.000 skv. Mogganum eða Fréttablaðinu -- sem er vissulega mikið, en skiljanlegt vegna skemmtiatriða og eins vegna samstöðu margra við þá, sem þeir telja hafa verið kúgaða, en líka vegna afar lélegs upplýsingaástands um kröfumál samkynhneigðra hér á landi, sem ganga of langt. Áberandi er þó þetta a.m.k. 40% fall í aðsókn síðan í fyrra. Og í Fréttablaðinu í dag var birt útkoman úr svörum við spurningu blaðsins: Fagnaðir þú á GayPride-hátíðinni? 23% sögðu já, 77% nei. 23% er mikil útkoma, en fyrst og fremst eru það skemmtiatriðin, fjörið og sérstæð sýniatriði sem ég hygg að hafi togað í menn.

En ekkert umboð né aðstöðu hefur þú, Matti, til að tala fyrir hönd þjóðarinnar um afstöðu hennar til aðstandenda nefndrar auglýsingar.

Kristján Atli - 14/08/06 17:58 #

Jón Valur Jensson segir:

"En ekkert umboð né aðstöðu hefur þú, Matti, til að tala fyrir hönd þjóðarinnar um afstöðu hennar til aðstandenda nefndrar auglýsingar."

En ekkert umboð né aðstöðu hefur þú, Jón Valur, né aðrir sem koma að þessari fyrirlitlegu auglýsingu ykkar, til að tala fyrir hönd gagnkynhneigðra um afstöðu þeirra sem heildar til aðstæðna og eiginleika samkynhneigðra!

Hættu þessari hræsni maður! Þú skammast hér að ofan í Matta fyrir að alhæfa um eitthvað en hefur ekki gert neitt annað sjálfur. Þú ert á þeirri skoðun að samkynhneigð sé veiki sem megi lækna, sem og fámennur hópur manna hjá kirkju.net og/eða þeim sem standa að þessari auglýsingu, en samt stendur hvergi í henni eftirfarandi: "Við teljum að hægt sé að lækna samkynhneigð."

Hvergi. Þið gefið ykkur þess í stað að skoðun ykkar sé sannleikur, en ekki skoðun.

Í auglýsingunni, sem og annars staðar þar sem hinn þröngsýni minnihlutahópur sem þú tilheyrir tjáir sig um samkynhneigð eru alhæfingar, órökstuddar staðhæfingar og mannfyrirlitning allsráðandi. ALLSRÁÐANDI! Ég er gagnkynhneigður og í mér býr ekki það gen að geta skilið hvers vegna karlmaður ætti að hrífast af öðrum karlmanni, en samt stekk ég ekki upp á næsta sápubox og segi hommum og lesbíum heimsins að þeir lifi í villu og að þá villu megi lækna.

Ég virði það að fólk heimsins skuli vera ólíkt og skil fyllilega að þótt ég hafi ekki alltaf sömu skoðun og allir aðrir er ekki þar með sjálfgefið að ég hafi rétt fyrir mér og allir hinir séu geðveikir!

Ekki einu sinni þú, sem hagar þér geðveikislega á nær allan hátt að mínu mati. En það er bara mín skoðun og hún er ekki sú sama og þín, og ég virði rétt þinn til að hafa þína skoðun.

Hafðu þínar skoðanir. Viðraðu þær jafnvel, til þess er málfrelsið. En ekki dirfast að:

  1. Gefa þér það að sönnu að þín skoðun sé sú eina rétta og aðrir séu því að lifa í villu.

  2. Sýna af þér þá hræsni að saka Matta um að alhæfa, þegar þú ert þúsund sinnum sekari um það sjálfur, og það á töluvert alvarlegri hátt.

Ég get alveg liðið fólki að vera heittrúað og/eða með hómófóbíur. En ég get ekki liðið fólki að stunda ofsóknir og/eða sýna af sér þá opinberu mannfyrirlitningu sem þessi auglýsing í Mogganum ber vitni um. Og ég ætla ekki einu sinni að minnast á þá mannfyrirlitningu sem er að finna á kirkju.net.

Matti - 14/08/06 19:04 #

Vissulega hef ég ekki umboð eða aðstöðu til að mæla fyrir hönd þjóðarinnar enda skrifaði ég "almennt talað" sem má túlka þannig að meirihluti hafi þessa skoðun (að mínu mati). Ég tel að miðað við skoðanakannanir um hug þjóðarinnar til frumvarps um réttindi samkynhneigðra séu þetta engar ýkjur hjá mér. Auk þess er þetta það viðhorf sem ég verð var við í kringum mig.

Varðandi mætingu á laugardag, þá var veðurspá slæm fyrir þennan dag, spáð var rigningu. Slíkt hefur úrslitaáhrif varðandi mætingu á atburði sem þessa. Þrátt fyrir slæma spá rættist úr veðri (það rigndi ekki) og tugir þúsunda mættu á svæðið.

Hvað mættu margir á kristnihátíð á Þingvöllum um árið? :-)