Örvitinn

Ítrekun til sinnuleysingja

Mikið óskaplega vildi ég að fólk sem rembist við að hafa skoðun á trú og trúleysi myndi lesa örlítið um hvoru tveggja (og nei, ekki bara nýaldarbækur).

Það er broslegt að sjá tilraunir til að skilgreina trú og trúleysi sem ganga út að finna lausn sem hentar fordómum þess sem skilgreinir. Svona fólk á það til að segja eitthvað eins og "íslam er friðsöm trú", "trú og skoðanir eru gjörólíkir hlutir" eða jafnvel "mér [finnst] að eigi að virða trú allra" og fer svo í fýlu þegar bent er á að skoðanir þess eru kannski byggðar á frekar veikum grunni. Svo fær fólk útrás fyrir fýluna með því að skrifa níðgrein þar sem menn eru sakaðir um hitt og þetta með afskaplega veikum rökum.

Hvað með trúarskoðanir sem ala á fordómum, kvenfyrirlitningu og hatri? Á að virða svoleiðis trú? Að sjálfsögðu ekki. Trúarskoðun biskups Íslands er sú að samkynhneigð sé synd og óæskileg í samfélagi voru. Ætli þetta fólk beri virðingu fyrir þeirri trú? Að sjálfsögðu ekki. Það er ekkert að marka þessa frasa. Hvað með þá trú gyðinga að þeir séu guðs útvalda þjóð og öðrum þjónum æðri? Virðingarvert? Að sjálfsögðu ekki. Það er í mörgum tilvikum ekki hægt að aðskilja trú og skoðanir, trú einstaklings hefur í langflestum tilvikum áhrif á skoðanir hans og iðulega er ómögulegt að gera greinarmun þar á milli

Ég nenni ekki að svara þó kallað sé eftir svari. Mín reynsla er að tilgangslaust sé að ræða við afstæðishyggjumenn um svona mál. Vitna í staðin enn og aftur í grein mína, upphafning sinnuleysis, einnig greinina öfgafullir trúleysingar og að lokum tilvitnum í fyrrverandi rektor HÍ: Á að virða skoðanir annarra.

Nei, hér er ekki fjallað um Davíð Þór.

Viljið þið sjá dæmi um ruglið sem við þurfum að fást við?

Laganeminn Dagbjört Hákonardóttir skrifaði þetta í dag:

Ég hef aldrei fílað móður Theresu. Hún var íhaldssamur kaþólikki sem talaði gegn getnaðarvörnum og fóstureyðingum, en prýðilega markaðssett af kaþólsku kirkjunni sem besta kona í heimi. Ég leyfi mér samt ekki að kalla hana ógeðslega fíflatussuhóru eins og öfgamennirnir á Vantrú.

Eina vandamálið er að "öfgamennirnir á Vantrú" hafa aldrei sagt nokkuð þessu líkt. Hvernig er hægt að fást við það þegar fólk er stöðugt að ljúga upp á mann? Það er ekki hægt að leiðrétta lygarnar endalaust, því svona sögur breiðast út hraðar en hægt er að stöðva þær. Haldið þið að Dagbjört eigi eftir að biðjast afsökunar? Að sjálfsögðu ekki.

Ég efast um að margir hópar þurfi að þola jafn mikla fordóma og níð á Íslandi í dag og Vantrúarsinnar. Mér er drullusama þó fólk sé með skítkast, en þessar endalausu lygar fara í taugarnar á mér.

efahyggja
Athugasemdir

Matti - 03/10/06 00:44 #

Einmitt, ég held að sú fyrirsögn þín sé það grófasta sem við höfum sagt um Teresu. Það mætti kalla hana margt verra mín vegna.

Hr. Pez - 03/10/06 09:17 #

Þetta þykir mér ágætlega skrifað. Og dittó um systurgreinina á Vantrú.

Sverrir - 03/10/06 22:53 #

Ekki ætla ég að halda því fram að við eigum að vera umburðarlynd fyrir hvaða bulli sem er.

Á hinn bóginn finnst mér þessi almenna (og eldri) gagnrýni þín á afstæðishyggju (sem ég er að sumu leyti mjög ósammála) ekki hafa mikla tengingu við það sem þú ert aðallega að segja (og ég er sammála): Það á ekki að sýna trúarbrögðum neitt meiri virðingu en öðrum skoðunum.

Póstmódernísk fræði eru vísindi, góð eða vond eftir atvikum, en samt kenningar sem aðrir vísindamenn geta gagnrýnt.

Trúarbrögð eru ótengd vísindum og (flestir) trúmenn vilja alls ekki rökræða við vísindamenn. Hér á Íslandi hefur Sigurbjörn Einarsson boðað þessa línu og flestir prestar (nema örfáir bókstafstrúarmenn) fylgja honum. Þeir telja að trúin eigi einhvern skika sem vísindin megi ekki skipta sér af.

Þetta er raunar ólíkt því sem margir trúmenn (spírítistar) vildu gera fyrir ca. öld síðan. Þá vildu þeir endilega færa vísindalegar sannanir fyrir öðru lífi og var allt miðlavesenið því tengt. Þetta rann allt saman út í sandinn og þá varð hin línan ofan á.

Á Vantrú eru menn að reyna að draga guðfræðinga úr sjálfskipaðri einangrun með því að gagnrýna og rökræða um trúmál. Það er ágæt viðleitni en gengur gegn markvissri stefnu guðfræðinga undanfarinna áratugi - um að alls ekki megi blanda trú og vísindum saman. Það er því ekki nema von að árekstrar við guðfræðinga hafi orðið og muni verða áfram.

Matti - 03/10/06 22:57 #

Notkun mín á hugtakin "afstæðishyggjumaður" í þessum pistli var satt að segja frekar vanhugsuð. Ég var, eins og þú sást, bara að vísa til hugmyndarinnar um að virða allar skoðanir - þær séu allar réttháar.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 04/10/06 00:05 #

Ég held að það sé rangt að guðfræðingar (td Sigurbjörn)hafi verið á móti því að rökræða um trúmál. Þeir voru gegn því að blanda trú og vísindum saman, en af því leiðir ekki að þeir hafi verið á móti rökræðum um trúmál.

Sverrir - 04/10/06 09:27 #

Þeir eru ekki á móti rökræðum um trúmál í sjálfu sér, það er rétt. Á hinn bóginn vilja þeir ekki að rökræða á grundvelli nútímavísinda, t.d. Darwinisma. Það er í sjálfu sér mikil breyting frá guðfræði fyrri alda.