Örvitinn

Ofstæki Vantrúar

Ef ósannindi eru endurtekin nógu oft er hætt við að fólk byrji að trúa þeim.

Ég var næstum farinn að trúa því að við Vantrúarsinnar værum sífellt að drulla yfir trúmenn, banna þeim að hafa trú sína og værum sífellt að kalla þá heimskingja. Vildum brenna bækur, banna trúarbrögð, banna kennslu um trúarbrögð, banna fólki að fara í nálarstungur og svona mætti lengi telja.

Lygin er lævís.

Þannig að ég tók mig til og renndi yfir greinarnar á Vantrú. Byrjaði á afbragðsgóðri grein dagsins Er siðfræði guðfræði og fletti svo aftur um svona 30-40 greinar, vísanir og ummæli, með því að smella á vísun á næstu grein á undan, efst á hverri síðu.

Viti menn. Ég fann engar öfgar. Ég fann málefnalegar greinar um trú og önnur hindurvitni. Ég fann ábendingar, grín og pælingar. Ég fann enga grein þar sem trúmenn eru kallaðir hálfvitar eða heimskingjar. Enga grein þar sem trúmönnum er stillt upp við vegg og þeim bannað að trúa.

Ég fann greinar þar sem ýmis atriði trúarbragða eru gagnrýnd.

Ég hef gert þetta áður þegar svipuð gagnrýni hefur komið fram, rennt yfir nær allar Vantrúargreinarnar, skoðað umræður og leitað að þessari skuggalegu hörku okkar. Hún er ekki þarna. Hún er einungis í kolli þeirra sem finnst að hugmyndir þeirra eða annarra um heiminn séu svo heilagar að allir sem gagnrýna þær séu sjálfkrafa ruddar sem séu að ráðast á persónu þeirra og svo í kolli þeirra sem hafa gaman að því að gaspra og spá lítið í sannleiksgildi þess sem þeir segja.

Auðvitað er hægt að finna hörð orð hér og þar. Vantrú hefur það markmið að tala hreint út, ekki undir rós eins og meðal annars starfsmenn Þjóðkirkjunnar. Þegar einhver lýgur köllum við hann lygara, þegar einhver svíkur köllum við hann svikara og þegar eitthvað lið prettar peninga af fársjúku fólki með loforðum um kraftaverkalækningu köllum við það hyski. Ef okkur þættu allir trúmenn heimskingjar myndum við kalla trúfólk heimskingja. En við gerum það ekki vegna þess að okkur finnst það ekki. Það er ekki skoðun okkar. Lygarar þurfa að rembast við að "lesa það úr skrifum okkar". Fólk virðist ekki skilja að skynsamt fólk getur haft óskynsamlegar skoðanir. Fólk hefur stundum rangt fyrir sér. Fjandakornið, ég er sífellt að uppgötva að fyrri skoðun mín eða hegðun var röng og samt er sjálfsmynd mín ekki svo slæm að ég líti á sjálfan mig sem örvita... tja, ekki þannig :-)

efahyggja
Athugasemdir

Jón Magnús - 05/10/06 11:16 #

Já það er merkilegt með þessar öfgar - það virðist sem við fáum þetta svar nokkuð oft "En ég les það í orðunum" - LES ÞAÐ Í ORÐUNUM! Það stendur ekki en menn lesa víst falda letrið á milli línanna og koma upp með að við séum svívirðilegir dónar.

Jæja, það segir manni bara eitt að þeir sem stunda þannig vinnubrögð geta ekki fundið neitt krassandi þegar þeir lesa greinar okkar og þurfa því að skálda upp eitthvað kjaftæði svo þeir geti gangrýnt okkur.

Það hlýtur að vera hægt að kalla svoleiðis menn lygara eða hálfvita?

Matti - 05/10/06 11:42 #

Það hlýtur að vera hægt að kalla svoleiðis menn lygara eða hálfvita?

Auðvitað gerir maður það í svekkelsi sínu. En vafalaust eru þessir menn hvorugt. Þeir hafa bara rangt fyrir sér og hafa komð sér í þá stöðu að geta ekki játað það.