Örvitinn

Athugasemd sem mun hverfa

Davíð Þór mun væntanlega eyða þessari athugasemd af síðu sinni, best ég visti hana hér líka. Þetta er svosem endurtekning, en þegar rangfærslur eru endurteknar sé ég fátt í stöðunni annað en að reyna að endurtaka leiðréttinguna.

Davíð Þór reynir enn og aftur að réttlæta rangfærslur sínar með því að vísa á tiltekin skrif á síðu minni.

Vandamál Davíðs er að ekkert af því sem hann vísar á rökstyður gífuryrði hans. Þar sem ég nota stærstu orðin er ég að tala um tiltekna einstaklinga (t.d. biskup) eða hópa af tilteknu tilefni (t.d. leikskólatrúboði). Hvergi alhæfi ég um alla trúmenn, geri þeim upp heimsku eða eitthvað á námunda við það.

Ég hef hvergi haldið þvi fram að ég hafi ekki notað stór orð, eins og t.d. fífl eða lygari. En fjandakornið Davíð, þú varst sjálfur að enda við að kalla hóp nafngreindra einstaklinga níðinga. Þú ættir að skilja mig manna best.

Við þetta vil ég bæta, að ég tel ljóst að Davíð hafi lesið síðu mína svipað og hann les Vantrú. Með því að renna yfir fyrirsagnir. A.m.k. er ljóst að margt af því sem hann vísar í máli sínu til stuðnings er einmitt rök gegn máli hans (sjá a, b).

Óttalega er þetta leiðinlegt og þreytandi.

efahyggja
Athugasemdir

Eyja - 05/10/06 21:50 #

Ég held að vangaveltur þínar um það hvernig Davíð les síðuna þína og Vantrúarsíðuna bendi einmitt á hluta af svarinu við því sem þú veltir fyrir þér í síðustu færslu á undan, þ.e. um meintar öfgar og ofstæki á Vantrú. Stór hluti fólks les nefnilega ekkert ofboðslega nákvæmlega, það rennir yfir lesefnið. Svo sér það kannski orðið "fífl" eða "heimskur" og sér að málið varðar einhvern sem hefur með trú að gera og eftir situr að þarna hafi staðið að allir sem trúi séu heimsk fífl. Það hjálpar svo ekki þegar um trúmálin er að ræða að þau eiga það til að vera svolítið viðkvæmt mál og fólk fer gjarnan í varnarstöðu þegar þau eiga í hlut. Það hindrar enn frekar að fólk rýni nákvæmlega í það sem skrifað er, það rennir yfir fyrirsögnina og einhver stikkorð og er þá búið að mynda sér óhagganlega skoðun á því hvað stendur í greininni.

Eins kemur þarna inn í að fólk er ekki alltaf mjög minnugt á smáatriði, hvað þá í netheimum þar sem framboðið á efni er mikið, og að það myndar sér gjarnan skoðun á hlutum út frá einhverri heildartilfinningu sem það fær við lestur fremur en hvað var skrifað nákvæmlega. Það er ákveðinn aggressífur andi sem ríkir (afsakið þetta líkingamál, ég er ekki í alvörunni andatrúar) á Vantrú og sem situr eftir í fólki. Lesendur muna eftir honum og muna svo líka eftir að hafa séð þar orð eins og "fífl" og "asni" og finnst þá að á Vantrú sé alltaf verið að skrifa að þeir sem eru trúaðir séu fífl og asnar.

Pointið er sem sagt að það sem skilar sér til lesanda, hvað þá það sem situr eftir þegar einhver tími hefur liðið frá lestri, getur verið talsvert öðruvísi en það sem höfundurinn ætlar að koma á framfæri. Og ég er ekki viss um að það dugi að segja fólki bara að lesa betur þótt þetta geti að sjálfsögðu verið frústrerandi fyrir viðkomandi höfund.

Gunnar - 05/10/06 22:12 #

Þetta er góð og skynsamleg ábending hjá Eyju. Hættan við að nota tilfinningahlaðin orð er að þau gera lesandanum erfiðara fyrir að vega og meta rökin á yfirvegaðan og hlutlausan hátt. Sá sem vill ýta undir sanngjarna, gagnrýna hugsun, ekki aðeins hjá sjálfum sér heldur einnig tilheyrendum, hann gætir hófs í orðavali til þess að rökin drífi alla leiðina í koll viðtakandans.

En ég veit að þú ert ósammála mér um þetta Matti. Og ég er svosem búinn að segja það nógu oft. Efast um að það skili nokkru að halda áfram að endurtaka þetta. Ég er hættur.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 06/10/06 14:28 #

Já, þetta er fín ábending. Gallinn er auðvitað sá að fólk eins og Davíð þór finnst að það eigi að "virða trúartilfinninguna" sína og því bregst hann illa við allri gagnrýni á trúna hans.

Vésteinn Valgarðsson - 06/10/06 15:07 #

Það leggst lítið fyrir annars góðan dreng, þar sem Davíð ólmast í þessu flagi.

Gunnar - 06/10/06 21:19 #

Hjalti, þið sakið Davíð réttilega um að hafa ykkur fyrir rangri sök. En þú hefur hann líka fyrir rangri sök þegar þú heldur því fram að hann bregðist illa við allri gagnrýni á trú hans. Það hefur væntanlega ekki farið fram hjá þér að hann hefur gagnrýnt margt sem gert er og sagt í nafni kristninnar.

Með þessu virðingartali sýnist mér vera átt við kurteisi og sanngirni frekar en gagnrýnisleysi.

Sleppum öllum þessum strámönnum á báða bóga. Reynum að vera sanngjörn hvert við annað og gera okkur far um að skilja hvað andmælendur eiga við fremur en að leitast við að misskilja til að hanka þá á einhverju.

Óli Gneisti - 07/10/06 03:56 #

Það að Davíð hafi gagnrýnt margt sem hefur verið sagt og gert í nafni kristinnar trúar þýðir einfaldlega að hann telur þá þætti ekki vera hluti af sinni trú.