Örvitinn

Engisprettufaraldursmýtan

Er eitthvað óeðlilegt að ég eða aðrir taki upp á því að svara/spyrja/gagnrýna þegar einhverjir einstaklingar úti í bæ skrifa pistil um mig/okkur? Myndu ekki flestir gera það sama, hvort sem um væri að ræða pólitík, knattspyrnu eða trúmál. Ef einhver gerir mér upp skoðun reyni ég að leiðrétta það.

Er það ekki frekar alveg fáránlega eðlilegt? Ég hunsa svona helminginn af því sem fólk bloggar um Vantrú. Ég sé allar vísanir sem eru gerðar á síðuna og yfirleitt nenni ég ekkert að skipta mér af því sem fólk segir. Stundum læði ég inn einni vísun og stundum taka fleiri Vantrúarsinnar eða trúleysingjar sem ekki tengjast Vantrú þátt í umræðum.

En í þessu tilviki er það Davíð Þór Jónsson sem er upphaflega "engisprettan", það var jú hann sem kommentaði á þessa síðu til að leiðrétta ósannindi í bloggfærslu minni. Samt hefur enginn kallað hann ofsamann fyrir þá ósköp eðlilegu hegðun, að svara gagnrýni. Stefán Pálsson bloggar um fermingar og Davíð kommentar. Er Davíð þá ofsamaður sem leggur alla í einelti sem skrifa gegn trú? Nei, að sjálfsögðu ekki. Ég gerði Davíð upp skoðun ("það má ekki gagnrýna trú"), hann svarar. Davíð gerir mér upp ótal skoðanir, ég svara. Hvert er vandamálið?

Hvað er eiginlega í gangi? Af hverju er fólk að búa til þessa skrípamynd af okkur Vantrúarsinnum þegar það sem við erum "sekir" um er eðlilegasti hlutur í heimi - að svara gagnrýni sem beint er að okkur.

Hvað um það, í Vantrúargrein dagsins er gerð tilraun til að leiðrétta rangfærslur í baksíðupistli Davíðs Þórs. Verst að þetta skiptir engu máli, menn sjá það sem þeir vilja sjá og fullyrða það sem hentar - sannleikurinn skiptir víst litlu máli.

efahyggja vísanir
Athugasemdir

Már - 09/10/06 13:50 #

Þessi viðbrögð (árásir, gagnrýni, eða hvað sem er rétt að kalla það) við ykkur og verkum ykkar á Vantrú sem þú kvartar yfir, eru samt blákaldur raunveruleiki sem þið þurfið að sætta ykkur við.

Málflutningur eins og ykkar (innihald + framsetning) vekur einfaldlega svona viðbrögð hjá fólki, og það hvort ykkur þyki það merki um að fólk sé fífl breytir engu þar um.

Þið þurfið að ákveða hvort ykkur finnist þessi viðbrögð merki um að þið séuð að gera eitthvað rétt, eða um að þið þurfið að breyta einhverju hjá ykkur.

Matti - 09/10/06 14:38 #

Vissulega þurfum við að lifa með því. En það eru þessar meðvituðu tilraunir til að festa í sessi ranghugmyndir sem pirra mig. Nú er t.d. frekar breiður hópur farinn að breiða út þessa hugmynd um að enginn megi tjá sig um trú sína án þess að á hann sé ráðist af hópi brjálaðra Vantrúarsinna sem einoka athugasemdarkerfi. Tja, ekki gerðist það hjá þér og fleirum síðustu daga. Stök dæmi eru ekki merki um almenna reglu. Þessi hugmynd er afar óheiðarleg og að mínu mati skammarlegt að fólk skuli taka þátt í að breiða hana út þó það eigi að vita betur.

Ég veit ekki, á maður að endurskoða sinn gang þegar gagnrýnin er ekki heiðarleg? Ef gagnrýnin væri heiðarleg sé ég vissulega þörf á því að fólki fari í smá sjálfskoðun og endurskoði hlutina. Nú gætu margir t.d. gagnrýnt mig fyrir að vera stundum of æstur í fótbolta. Ég gæti (og hef getað) tekið þá gagnrýni til mín og reynt að endurskoða málið. En þegar aðrir saka mig ranglega um offors og að skella hurðum á SAMT fundum á ég afar erfitt með að nota þá gagnrýni til að endurskoða hegðun mín, gagnrýnin er jú ósönn.

Það hafa margir gagnrýnt okkur áður fyrir að vera stundum dálítið berorð á Vantrú og fyrir að fara stundum dálítið ógætilegum orðum um trúmenn. Sú gagnrýni á rétt á sér og hana höfum við oft rætt innan okkar veggja. Sjálfur vill ég meina að málflutningur á Vantrú sé miklu hógværari en margir vilja láta.

Svo ég ítreki, þá hef ég lítið út á það að setja að Vantrúarhópurinn eða ég sjálfur fáum á okkur gagnrýni. En þegar óheiðarleg gagnrýni breiðist út eins og sinueldur er afskaplega erfitt fyrir mig að nota þau viðbrögð á gáfulegan máta. Það eina sem ég get í raun gert er að segja "hættið að segja ósatt".

Vissulega er það rétt að málflutningur okkar hefur stuðað marga. Af því leiðir að það eru margir frekar fúlir út í okkur og virðast því grípa tækifærið og taka þátt í svona rugli þegar það fer af stað. Heiðarlegra væri að pönkast í okkur þegar við höfum rangt fyrir okkur í stað þess að hoppa upp á næsta múgæsingarvagn !

Árni Þór - 09/10/06 14:50 #

Hörðum viðbrögðum má alltaf búast við eingöngu út frá innihaldinu.

Það sem angrar Vantrúarsinna að þessu sinni eru ósannindin sem eru borin upp á þá. Ég rak augun í grein Davíðs í Fréttablaðinu og fannst hún frekar ómakleg.

Hvað varðar málflutning Vantrúarmann þá held ég að það sé óþarfi að breyta einhverju. Þeirra framlag til afhelgunnar á umræðuefninu er að mínu mati nauðsynlegt.

Er það ekki annars rétt skilið hjá mér að Vantrú var einmitt stofnuð gagngert til að pönkast út í hjátrú og hindurvitni þegar ykkur fannst aðrir hópar halda sig of mikið til baka?

Árni Þór - 09/10/06 14:54 #

Fyndið.. ég var ekki búinn að sjá svarið hans Matta þegar ég póstaði.. notum báðir orðið "pönkast".. :)

Kristján Atli - 09/10/06 16:54 #

Persónulega, þá tek ég eiginlega undir báðar hliðar í þessu. Ég þekki Davíð Þór ekkert persónulega en Eyvindur Karlsson er vinur minn, auk þess sem ég hef lesið þessa síðu þína Matti í nokkur ár og kommentað reglulega. Ég gat tekið undir sumt í gagnrýni Eyvindar en ekki allt, þannig að ég kaus að halda mér utan við þær rökræður sem fóru fram í kjölfar hennar á síðunni hans.

Það sem mér fannst Vantrúarmenn mega taka til sín var það að þið eigið það til að taka eilítið djúpt í árinni hvað varðar gangrýni á trúaða og/eða trúarbrögð. Ég er nefnilega sammála flestu sem þið segið um trúarbrögðin og þá sérstaklega um þau mál sem eru í brennidepli á Íslandi í dag, svo sem skólatrúboðið og aðskilnað kirkju og ríkis, en það hefur oft stuðað mig að það er eins og pistlahöfundar á Vantrú.is geti stundum ekki staðist þá freistingu að láta eitt lítið högg undir beltisstað fylgja vel ígrunduðum rökum þegar trú/trúarbrögð eru gagnrýnd.

Hins vegar þá fannst mér Eyvindur kannski svara af of mikilli viðkvæmni gagnvart trúnni. Trúaðir eru ekkert undanskildir gagnrýni að mínu mati, né trúlausir, og því fannst mér ekki alveg rétt hjá honum að trúlausir mættu bara alls ekkert setja út á trú fólks, ættu bara að tala um trúarbrögðin. Á meðan trúmenn úr öllum áttum mega tala um trúleysi (ekki trúarbrögðin Trúleysi heldur trúleysi einstaklinga) eins og það sé einhver forsenda siðleysis þá hljóta trúleysingjar að mega svara fyrir sig.

Þannig að ég kaus að standa fyrir utan þessa umræðu, þar sem ég gat tekið undir margt hjá báðum aðilum en líka fundið eitthvað ámælisvert hjá báðum. Það sem síðan virðist hafa gerst í þessari umræðu allri, og mér þykir miður, er að allir aðilar vilja hafa 100% rétt fyrir sér og taka ekkert annað en algeran sigur í mál. Davíð Þór getur ekki unað Vantrúarmönnum að hafa neitt til síns máls, né Eyvindur, en það getið þið Vantrúarmenn ekki heldur. Ég hefði viljað sjá ykkur taka til ykkar ákveðna punkta í grein Eyvindar, og jafnvel grein Davíðs líka, og svara svo hinu. Á móti hefðu þeir getað tekið til baka sumar rangfærslur sínar og allir hefðu getað verið sáttir, því það var ljóst löngu áður en þessi umræða hófst að þið næðuð aldrei að gera trúleysingja úr þeim félögum, né þeir að kristna ykkur.

Í skák spila báðir aðilar fram sinni bestu sókn en stundum þarf að semja um jafntefli. Það hefði verið ásættanleg niðurstaða en þess í stað sitja allir aðilar í dag við þrátefli og heimta að hinn aðilinn felli kóng sinn. Það þykir mér miður.

En þetta er bara mín persónulega skoðun, hvers virði sem hún er.

Matti - 09/10/06 16:59 #

Eins og ég sagði í athugasemd, þá get ég tekið til mín gagnrýni sem gengur út á að á Vantrú sé stundum full djúpt í árina tekið, það er samt alger undantekning að mínu mati og mun sjaldgæfara en margur heldur.

Davíð er svarað í dag. Sá pistill hefði mátt fara í loftið í síðustu viku. Ekki tekur því að svara Eyvindi frekar.

Hvað stendur eiginlega eftir af gagnrýni Davíðs? Jú, við höfum gagnrýnt Teresu (réttilega) og gagnrýnum trúarskoðanir. Honum og Eyvindi finnst það, tja, ljótt!

Matti - 09/10/06 17:18 #

Vil við þetta bæta, að ég mun seint taka til mín þá gagnrýni að ekki mega gagnrýna trúarskoðanir vegna þess að þær séu svo heilagar eða "handan skynsemi".

Eins og fram hefur komið í þessu þrasi við vin þinn, þá finnst okkur trú í sjálfu sér gagnrýniverð, þ.e.a.s. sú aðferð að mynda sér skoðun án raka. En við gerum afskaplega lítið af því að gagnrýna óljósar trúarhugmyndir. Ef einhver segir við mig "ég trúi á einhvern æðri mátt" myndi ég kannski ræða það við þann einstakling, en ég myndi ekki eyða mikilli orku í að sannfæra hann um annað. Ef hann aftur á móti myndi bæta við "og þessi æðri máttur er forsenda siðferðis" eða eitthvað álíka, er hætt við að ég myndi benda honum á það hve gölluð sú hugmynd er.

Vandamál vinar þíns er að hann vill endilega klína á okkur einhverjum öfgum sem við höfum ekki. Til þess þarf hann að lesa á milli línanna, sem er undarleg aðferð við að lesa vefrit sem helst hefur verið gagnrýnt fyrir að setja skoðanir sínar of harkalega fram, Vantrú hefur hingað til ekki verið vettvangur þeirra sem vilja tala undir rós !

Jón Magnús - 09/10/06 22:59 #

Fyrir mína parta fékk ég frá Eyvindi það sem ég var að leitast eftir þ.e. að honum finnst (og s.s. allt í lagi með það) gagnrýni á trúarskoðanir vera röng en mér finnst það ekki. Ég sé ekki mun á trúarskoðunum og t.d. stjórnmálaskoðunum og þannig er það bara.

Svo mér fannst ég og Eyvindur vera bara sammála um það að vera ósammála.

Matti - 10/10/06 13:15 #

Kristján Atli, ég nenni ekki að skrifa um þetta sér blogg - en ég verð að minnast á þetta einhversstaðar.

Síðasta útspil Eyvindar vinar þíns er alveg ótrúlegt. Eftir að hafa skrifað um okkur (ég er nafngreindur á vantrú.is sem einn aðstandenda síðunnar) níðbloggfærslu, flutt um okkur níðpistil í útvarpinu og kallað okkur öllum illum nöfnum í athugasemdum á bloggsíðum fer maðurinn að skæla vegna þess að ég sagði að hann og Davíð segi ósatt um okkur. Ég er tilbúinn til að standa við þá fullyrðingu hvar sem er, jafnvel fyrir dómstólum. Eyvindur Karlsson hefur oftar en einu sinni opinberlega sagt ósatt um Vantrú. Ekki þarf að fara langt, því ég var þegar búinn að segja honum að þessi fullyrðing hans, "Þið ráðist á innræti og gáfnafar trúaðra", er lygi. Við það stend ég, þetta er ósatt. Ég hef leiðrétt hann ítrekað og ítarlega. Hann heldur áfram að halda þessu fram. Þetta er lygi.

Mér finnst þetta minna mig á bulluna á skólalóðinni sem leggur alla í einelti, er óskaplegur töffari og með sífellda stæla. Svo loks þegar einhverjir standa í hárinu á honum hleypur hann burt vælandi og klagar í skólastjórann.

Ég mæli með því að fólk skoði umræður við þessa færslu á Vantrú þar sem Eyvindur Karlsson "fer á kostum". Skoðið sérstaklega þá hluta athugasemda hans sem ég hef strikað yfir og segið mér á hvaða hátt þeir eru málefnalegir. Er langsótt að lesa hroka gagnvart Vantrúarsinnum úr því og árásir á persónur okkar? Nei, þessi orð hans þarfnast ekki túlkana.

Nú síðast er ég vanviti og ýmislegt verra ef marka má Eyvind og aðdáendur hans. Eyvindur Karlsson kallar mig vanvita. Ég held að sjálfsálit mitt hafi sjaldan fengið jafn mikið búst!