Örvitinn

Verð á bíómiðum - ótrúverðug skýring Senu

Ég fór í fyrsta sinn í hálft ár í kvikmyndahús í gærkvöldi. Meðal þess sem ég minnist á í bloggfærslunni er verðið á bíómiðanum. 1200 krónur kostaði inn á Mýrina.

Svo skemmtilega vill til að í Fréttablaðinu í dag er fjallað um verð á bíómiðum (bls. 78), en almennt miðaverð hækkaði nýlega úr 800 í 900 krónur.

"Miðaverðið hefur verið 800 krónur í fimm ár og nefndu mér eitthvað sem hefur ekki hækkað á þeim tíma," segir Björn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Senu sem sýnir Mýrina. Hann segir launakostnað og annan rekstrarkostnað kvikmyndahúsa hafa hækkað umtalsvert á tímabilinu og hækkunin nú sé því tímabær.

Mig langar til að benda Birni á eitt sem ekki hefur hækkað á síðustu fimm árum. Dollarinn hefur lækkað á þessu tímabili en langflestar kvikmyndir eru keyptar frá Bandaríkjunum. Á sínum tíma var hækkun á bíómiðum réttlætt með hækkun dollarans en ekkert gerðist þegar dollarinn snarféll í verði. Málstaður Senu og annarra sem selja kvikmyndir á Íslandi er ekkert sérlega góður.

Gengi dollarans, október 2001 til október 2006

(grafið er tekið af heimasíðu Landsbankans og sýnir gengisþróun dollarans á tímabilinu október 2001 til október 2006)

fjölmiðlar kvikmyndir
Athugasemdir

Freyr - 25/10/06 12:01 #

Gæti verið að rekstrarkostnaður hafi hækkað umfram lækkun dollarsins? Mér skilst að það sé erfitt að halda starfsfólki í vinnu þessa daganna og það kæmi mér ekki á óvart að þeir hafa þurft að auka launakostnað töluvert.

Þetta er bara hugleiðing, ég hef engar heimildir fyrir þessu.

Matti - 25/10/06 13:04 #

Það má vel vera, ekki útiloka ég það. En dollarinn hlýtur að vega ansi þungt, því ég hef heyrt að innkaupsverð bíómynda sé ansi stór hluti rekstrarkostnaðar kvikmyndahúsanna. Ég er þó enginn sérfræðingur í þessu máli :-)

Óli Gneisti - 26/10/06 01:09 #

Ég efast um að það þurfi að selja marga bíómiða til að kosta hvern starfsmann þarna.