Örvitinn

Athugasemdin sem Carlos eyddi

Séra Carlos Ferrer, presturinn sem varð frægur að endemum fyrir að lemja fermingarbörn með kúst og ræða við þau um sjálfsfróun, er undarlegur gaur. Nú er hann farinn að ritskoða mig vegna þess að honum finnst betra að hrópa að ég sé troll í stað þess að líta í eigin barm og játa að hann hefur rangt við. Ég vistaði athugasemdina áður en ég sendi hana inn.

Merkilegir útúrsnúningar, hér eru hvorki útúrsnúningar né stríðni í gangi. Sýnt hefur verið fram á með fullnægjandi hætti að báðir þessir grínistar sögðu ósatt og skrumskældu málflutning Vantrúar. Þú hefur ekkert gert annað en að taka undir með þeim þó ítrekað hafi verið bent á að þetta er ósatt.

Að lokum hefur þú boðið öðrum þeirra að prédika hjá þér.

Ásakanir um að ég sé troll eru enn einar dylgjurnar frá þér. Það er afskaplega sorglegt að fylgjast með framkomu þinni í netsamskiptum Carlos og álit mitt á þér sem persónu fer minnkandi með hverju skeytinu.

Fyrsta setningin er klúður, þarna meina ég náttúrulega að þarna séu merkilegir útúrsnúningar hjá Carlos, því það eru engir útúrsnúningar hjá mér.

Það sem gerðist er einfalt. Tveir misheppnaðir grínistar sögðu ósatt um Vantrú í fjölmiðlum. Vantrúarsinnar mótmæltu en Carlos Ferrer fagnaði eins og unglingsstúlka á popptónleikum. Sannleikurinn virðist skipta prestinn litlu máli enda starfar hann við að boða staðhæfingar sem hann trúir ekki einu sinni sjálfur. Nei, það skríkti í honum þegar fræga fólkið var farið að rægja Vantrú, jafnvel þó búið væri að sýna fram á að málstaður þeirra væri kjaftæði. Svo hrifinn varð Carlos Ferrer að hann bauð öðrum grínistanum að prédika hjá sér.

Jæja, Carlos Ferrer má líta á mig sem troll, hann tekur ekki rökum (enda átrúnaðargoð hans búinn að segja að rök séu hallærisleg). Sjáið þessa tilraun hans til að lesa úr biblíunni forsendur þess að þrælar voru frelsaðir. Jú, það stendur að fara eigi þokkalega vel með vissa þræla, þess vegna dregur Carlos þá ályktun að Biblían boði góða meðferð á þrælum og hafi í raun verið ástæða þess að þrælahald lagðist niður, jafnvel þó hvergi sé mælt gegn þrælahaldi í allri Biblíunni en ótal sinnum með því. Það er ekki hægt að skálda svona vitleysu.

Álit mitt á þessum furðulega gaur hvarf reyndar þegar hann lagði blessun sína yfir leikskólatrúboð hér á þessari síðu. Ég gerði mér þá grein fyrir því að ég hef lítið við siðlaust fólk að segja. Þegar hann er svo farinn að mistúlka umræður sem hann veit vel að ég get ekki rætt opinberlega til að koma höggi á mig varð mér ljóst að maðurinn á bágt.

Ýmislegt