Örvitinn

Í öðrum fréttum

Inga María fimm áraÉg setti vetrardekkin undir í gær, Þórður bróðir minn sá um verkið og ég ek því um götur borgarinnar með nagandi samviskubit, dekkin eru nelgd. Ef ég ætti ógeðslega mikið af peningum myndi ég kaupa ónelgd vetrardekk, en þessi fylgdu bílnum.

Fórum út að borða í gærkvöldi, á TGI Fridays sem Inga María valdi. Ástæða þess að hún valdi þann stað er að þar fær maður ís með stjörnuljósum ef maður er afmælisbarn. Við höfnuðum fyrsta borði sem okkur var boðið því það var of nálægt reykmekkinum við barinn, biðum frekar í nokkrar mínútur í viðbót. Maturinn var ágætur, þjónusta nokkuð klúðursleg en hvað haldið þið að hafi klikkað? Jú, stjörnuljósin voru ekki til. Þetta má ekki gerast.

Ég varð alveg óskaplega stoltur af Ingu Maríu í gærkvöldi. Þannig er mál með vexti að Gunna amma hennar gaf henni nokkra litla pakka til að opna á veitingastaðnum, auk þess að einn pakki var til Kollu. Þegar stelpurnar voru að opna pakkana kom í ljós að dótið sem Kolla fékk var nú frekar óspennandi, en þær fengu báðar þannig pakka. Kolla varð dálítið leið, ekki frek, því það er hún ekki, heldur leið. Grét aðeins af svekkelsi í fangi mínu. En viti menn, Inga María litla systir og afmælisbarn gaf Kollu aðra gjöf, litla dúkku og Kolla tók gleði sína á ný. Þetta er hegðun sem maður hefði frekar átt von á frá Kollu því hún er afar gjafmild og hugsar vel um systur sína en Inga María hefur hingað til alls ekki verið þessi týpa. En í gærkvöldi fannst henni leiðinlegt að sjá systur sína sorgbitna og sýndi þarna óvænt gjafmildi. Mikið óskaplega varð ég glaður að sjá þetta. Hrósaði henni vel áður en hún fór að sofa.

dagbók
Athugasemdir

Jóhann Þ. - 18/11/06 23:42 #

TGI, fór þangað með fjölskylduna þangað á mánudagskveldi, bað um reyklaust borð, fengum borð nálægt barnum. Það var fínt þangað til einhver sem var á reyklausu borði innar fór þangað til að reykja. Þessi bar er í miðjunni á staðnum. Kallaði á þjóninn og bað hann um að flytja okkur á reyklaust borð. Var ekki vingjarnlegur í því samtali. Hlakka mikið til þegar það verður alveg bannað að reykja á opinberum stöðum.

Eva - 19/11/06 16:37 #

Svo má spyrja hvort sé í raun skaðlegra, svifryk af völdum nagladekkja eða að hafa hundruð bíla sem komast ekki áfram í gangi tímunum saman, eins og í dag.

Ætli það hafi verið kannað?

Matti - 19/11/06 20:06 #

Vafalaust spæna nagladekkin malbikið upp þegar götur eru auðar, en það er satt, pikkfastir bílar um allan bæ hljóta að menga eitthvað. Ég hef hingað til keypt loftbóludekk á mína bíla, keypti reyndar harðkornadekk á Micruna sem við áttum fyrir mörgum árum. Varðandi mengun, hef ég eitthvað lesið um að þrif á götum muni minnka svifrik verulega, en þekki það mál ekki.

Varðandi reykingar á veitingastöðum, þá gæti ég ekki verið meira sammála, ég mun fagna því þegar reykingum verður úthýst.