Örvitinn

Athyglissýki sumra Moggabloggara

Þegar Morgunblaðið fór að bjóða fólki að blogga hjá sér var einn fítus sem vakti athygli mína. Moggabloggarar geta sett vísanir á fréttir á mbl.is og þá kemur vísun á bloggfærsluna við fréttina. Dæmi um þetta má sjá t.d. hér, neðarlega á síðunni, undir liðnum tengdar bloggfærslur, er vísað á þrjár bloggfærslur þessa stundina. Þetta er sniðugur fítus og t.d. stofnuðum við á Vantrú moggablogg til að geta sett vísanir á fréttir um trú og önnur hindurvitni. Eins og sést notum við þetta ekki mikið, en við grípum tækifærið þegar það gefst.

Mikið óskaplega þykir mér það samt aulalegt þegar bloggarar setja vísanir við fréttir án þess að bloggfærslan tengist fréttinni á nokkurn hátt. Er athyglissýkin alveg að fara með fólk? Vissulega er dálítið pirrandi að rss yfirlit mikkivefs sé niðri þessa dagana, en látið ekki svona, þessar fáránlegu fréttavísanir sumra moggabloggara eru ekkert annað en spam. Skil ekki að moggafólk hugsi ekki um þetta, ef vísanir á bloggfærslur sem fylgja fréttum tengjast fréttinni ekkert hætta þessar vísanir að hafa tilgang og enginn nennir að lesa þær. Aftur á móti er þetta stórsniðugt þegar bloggarar fjalla nánar um efni fréttarinnar.

Það sem mér finnst skrítið er að þeir moggabloggarar sem eru einna duglegastir við að spamma á þennan hátt eru þrælvanir fjölmiðlamenn og ættu að fá næga athygli dags daglega. Spam er alltaf óæskilegt og þetta kommentaspam á mbl er að skemma þennan ágæta fítus. Báðir þessari bloggarar eru þrælskemmtilegir og þurfa ekki svona vitleysu til að laða að lesendur. Hér er ég að tala um Steingrím Sævarr sem stundar þetta af krafti (dæmi: (a, b, c) og Sigmar Guðmundsson sem er kannski ekki alveg jafn slæmur (dæmi: a, b, c). Ég hvet þá til að hætta þessu rugli, eða moggann til að eyða vísunum sem ekki tengjast efni fréttarinnar á nokkurn hátt. Spam er sori.

vefmál
Athugasemdir

Einar Örn - 27/11/06 17:48 #

Bravó! Ég ætlaði að skrifa um nákvæmlega sama hlutinn. Sérstaklega er þetta hvimleitt hjá Steingrími Sævarri, sem er annars með skemmtilegt blogg.

Vona að Moggamenn taki þetta til greina. Það er einsog sumir geti ekki byrjað færslur á Moggablogginu án þess að vísa í einhverjar fréttir.

Veit ekki hvort menn eru yfir höfuð að reyna að vera fyndnir með þessar tilvísanir einsog að linka á einhverja storma færslur þegar talað er um ástandið í Samyflkingunni. En þetta er bara ekkert sérlega fyndið og gerir lítið úr mbl.is vefnum.

Henrý - 22/12/06 05:33 #

Já. Ég verð nú að viðurkenna að hafa átt þessa hugmynd að fréttatengingunni og koma henni á.

Í upphafi lét ég vefhlutann, sem sá um að tengja milli frétta og bloggs, senda mér og öðrum starfsmönnum netdeildar tölvupóst sem benti bæði á fréttina og bloggfærsluna. Ef efnistök bloggfærslunnar var ótengd fréttinni þá var tengingunni eytt.

Sem gerðist þónokkuð og aflaði mér fárra vina á meðal bloggara. Síðan hættu menn að vilja taka við þessum pósti þar sem þetta fór að telja nokkra tugi á dag. Svo ég lét þetta einskorðast við mig og annan vaskann starfsmann netdeildar Morgunblaðsins.

Svo vildi þannig til að við hættum báðir að vinna þarna. Svo nú er enginn til að fylgjast með þessu, og eymingjans nethlutinn minn baunar bara meldingum á ótengd netföng.

Ég vorkenni stundum þessum forritum sem maður hefur hripað og skilið eftir í reiðuleysi hér og þar um tíðina..