Örvitinn

Ísskápsraunir

Helvítis ísskápurinn okkar er dauður. Hitastigið í honum rokkar á milli 15-20° sem er hlýrra en í stofunni okkar áður en við létum gera við ofnana. Frystirinn hefur ekki fryst í nokkra mánuði.

Það er ekki nema rétt rúmlega ár (mikið óskaplega líður tíminn hratt, ég hefði getað svarið að það væri um hálft ár) síðan ég lét gera við ísskápinn fyrir um sjötíu þúsund krónur, þannig að þetta er ansi blóðugt. Borgaði níutíuþúsund fyrir skápinn fyrir fimm árum, keypti hann notaðan af Ásmundi frænda. Reyndar hefur ísskápurinn aldrei verið í lagi, vatnskúturinn var ónýtur þegar við fengum hann, væntanlega vegna þess að hann hefur frosið í geymslu og því lak alltaf vatn á gólfið þegar við reyndum að fá okkur vatn að drekka en klakavélin virkaði þó. Nú virkar ekkert.

Þegar maður hefur vanist því að vera með tvöfaldan ískáp með klakavél er dálítið freistandi að kaupa sér annan slíkan, en staðreyndin er að peningar vaxa ekki á trjánum, jafnvel þó græjukaup þau er ég stæri mig af á þessari síðu af og til bendi til annars. Þannig að nú þurfum við að kaupa nýjan ísskáp og það strax, það er engin lausn að geyma matvörur úti á svölum :-)

græjur
Athugasemdir

Bragi - 28/11/06 15:08 #

Matti minn. Ég þekki mikið af fólki. Ekkert þeirra lendir jafn mikið í heimilistækjatengdum raunum og þú. Ég er meira að seja með lausnina fyrir þig. Byrja aftur í Henson, lukkan fylgir okkur sanntrúuðum :Þ

Eva - 28/11/06 15:54 #

Úff! Þú átt alla mína samúð. Ómögulegt að vera kæliskápslaus.

Fyrstu 8 mánuði mína í hjónabandi eignaðist ég 3 þvottavélar. Ein var mér gefin en hinar keypti ég. Þegar sú síðasta bilaði og eyðilagði um leið þvott sem kostaði meira en þessar tvær sem ég hafði greitt fyrir samanlagt, ákvað ég að reynsla mín af notuðum heimilistækjum væri orðin nógu löng og dramatísk.

Ég hef ættleitt nokkur notuð heimilistæki síðan en aldrei borgað fyrir þau, hvað þá viðgerð á þeim.

Matti - 28/11/06 22:04 #

Bragi, ég byrja í Henson um leið og ég er kominn í form. Eins og þú veist gæti það tekið smá tíma.

En já, ég virðist ekki vera mjög heppinn með heimilistæki.

Eva, við erum hætt að kaupa notað og/eða ódýrt. Hér eftir er það bara nýtt og vandað.

Fórum í Elkó í dag og skoðuðum ísskápa. Erum búin að ákveða að kaupa ekki tvöfaldan með klakavél, en ætlum að kaupa í staðin tveggja metra háan skáp. Það ætti að spara töluvert pláss í eldhúsinu okkar sem er afskaplega lítið. Kaupum ísskápinn á morgun (ætlum að athuga hvort við fáum hagstæðara verð annars staðar)

Sirrý - 29/11/06 00:53 #

Þið verðið nú að kíkja í Max í Garðabæ ekki spurning

Sævar Helgi - 29/11/06 15:29 #

Matti þú færð alltaf hagstæðara verð hjá mér. Svo geturðu auðvitað fengið það enn hagstæðara hjá þú veist....

Matti - 29/11/06 15:36 #

Ég er búinn að fara í búðina þína og finna ísskápinn. Verst að það er ekki hægt að fá hann afhentann fyrr en eftir helgi :-|

En eins og ég sagði í fyrri athugasemd. Ég ætla ekki að kaupa "ódýran" ísskáp, er hættur slíkur. Kaupi bara vandað.

Sirrý, vandinn með Max er að þeir hafa ekki nothæfa heimasíðu. Ég vil geta gert samanburð á vefnum áður en ég versla svona græjur.

Sirrý - 29/11/06 17:50 #

Já það er rosalega þægilegt að sitja heima í stofu og skoða hvað maður ætlar að kaupa.