Örvitinn

Ísskápur, pípari og veikindi

Nýr ísskápur er kominn á sinn stað og kælir eins og .. uh, kæliskápur. Ég tók mynd af þeim gamla í gærkvöldi og svo nýja skápnum í kvöld. Eldhúsið hefur stækkað töluvert við skiptin. Nú þarf ég bara aðstoð við að bera gamla ísskápinn út í bílskúr, hann stendur í holinu á miðhæðinni eins og er og tekur dálítið mikið pláss.

Píparinn kom í kvöld til að rukka og kíkja á ofninn í baðherberginu á efstu hæð í leiðinni. Hann kom ofninum í gang með smá tilfæringum. Ég fékk hann til að kíkja á salernið á miðhæðinni í leiðinni. Það yrði vesen að laga það þannig að ég stefni á að kaupa nýtt (jamm, enn eitt bilað "heimilistæki"). Ég borgaði honum með bros á vör, þetta var ósköp sanngjarnt verð og ég átti von á feitari reikning.

Inga María er veik. Hún var byrjuð að dotta fyrir framan sjónvarpið í kvöld, ég tók hana í fangið og fann að hún var ansi heit. Munnmælir sýndi 38.9° þannig að hún er ekki að fara í leikskólann á morgun. Dálítið leiðinlegt þar sem á morgun er föndurdagur og ég er viss um að hún hefði haft gaman að því að fá mömmu sína í heimsókn.

dagbók