Örvitinn

Inga María á slysó

Inga María á slysóInga María fór á slysavarðstofuna í kvöld. Aðdragandinn var sá að hún stóð á bekk hjá ömmu sinni og afa á Arnarnesi. Skyndilega brotnaði fjölin sem hún stóð á og fóturinn húrraði í gegn. Hnéð bólgnaði strax afar mikið og Gyða var hrædd um að eitthvað væri brotið. Ásmundur skutlaði Gyðu og Ingu Maríu á slysó og hún hringdi í mig þaðan. Ég var þá á heimleið og að aka að sprengisandi, beygði inn Bústaðaveg og var kominn á slysó fimm mínútum síðar.

Þetta reyndist svo ekkert brot, Inga María er bara bólgin. Hún var nokkuð brött í kvöld en á eftir að versna næstu tvo-þrjá daga.

Ég hef nokkrum sinnum fengið myndarlegar bólgur og hefði hugsanlega ekki brugðist eins við, þó er aldrei að vita, þetta var víst ansi ljótt.

Myndina tók ég eftir að læknir var búinn að skoða og við biðum eftir hjúkku sem setti plástur á sárið og teygjubindi utan um löppina.

fjölskyldan