Örvitinn

Er vit í öfugum "skaðsemisrökum"?

Mér finnst eitthvað ekki ganga upp þegar fólk réttlætir vissa hegðun með því að hún sé í raun ekkert svo skaðleg, það hafi gengið í gegnum hitt og þetta og ekki borið (varanlegan) skaða af því eða jafnvel haft gott af athæfinu. Atli Harðarson notar þessa aðferð í bloggfærslu þar sem hann skrifar um trúboð í skólum.

Mér finnst þetta ekki ganga upp vegna þess að hægt er að nota þau á vafasöm dæmi í óbreyttri eða lítið breyttri mynd. Tökum dæmi:

"Ekki skil ég hvað fólk hefur á móti því að fullorðnir karlmenn fletti sig klæðum fyrir framan börn. Þegar ég var ungur drengur sá ég oft nakta karlmenn, t.d. í sturtuklefum almenningssundlauga og ekki særði það mig á nokkurn hátt."

"Ég byrjaði ungur að reykja og hef reykt tvo pakka á dag í þrjátíu ár, lungun á mér eru í fínu lagi"

"Ég var í kristilegum sumarbúðum í æsku og er samt ekkert meira trúaður en gengur og gerist."

Er ekki ljóst að hegðun getur verið röng og/eða óæskileg þó margir, jafnvel flestir, skaðist ekki vegna hennar?

Textinn fyrir ofan er hugsaður sem myndlíking, sjálfum finnst mér full ástæða til að koma í veg fyrir að karlmenn fletti sig klæðum fyrir framan börn og er afar illa við reykingar. Það sama gildir um kristilegar sumarbúðir, sem ég fór í í tvö sumur, níu og ellefu ára (minnir mig) og hlaut engann skaða af.

Ég átti í miklu basli með að finna titil, "öfug skaðsemisrök" er náttúrulega alveg skelfileg skilgreining.

efahyggja
Athugasemdir

Halldór E. - 11/01/07 14:30 #

Matti, finnst þér í alvörunni óæskilegt að einstaklingar taki sig saman um að bjóða sértæka trúarlega þjónustu og auglýsi hana sem slíka?

  1. Er það skoðun þín að trúarlegt starf fyrir börn sé óæskilegt og eigi ekki að viðgangast?
  2. Telur þú að foreldrum sé ekki treystandi til að taka ákvarðanir um hvaða gildismat og lífssýn börn eiga að alast upp við?
  3. Ef svar þitt við 2. spurningu er að foreldrum sé ekki treystandi. Hver á að taka þessar ákvarðanir

Matti - 11/01/07 14:37 #

Halldór, ég skrifaði þessa færslu ekki til að setja út á kristilegar sumarbúðir heldur notaði ég þetta sem dæmi í allt annarri umræðu.

Vissulega finnst mér kristilegar sumarbúðir og kristilegt ungmennastarf sem fram fer í kirkju miklu æskilegra heldur en kristilegt starf sem rekið er í skólum og leikskólum. Ég geri mikinn greinarmun þar á milli og hef oft sagt að ég geti lítið sagt við því þegar fólk stundar kristinboð á eigin börnum.

Mér finnst þetta ekki jákvætt og set stóran fyrirvara við allt starf sem unnið er á trúarlegum /trúboðs forsendum. Mér finnst neikvætt þegar hvatinn á bak við starf er kristniboð, hvort sem um er að ræða æskulýðsstarf eða hjálparstarf. Þannig finnst mér það setja ljótan blett á minningar mínar frá Ástjörn að hugmyndin að baki starfinu þar hafi verið kristniboð, þrátt fyrir að hafa átt góðar stundir þar og unað mér vel hjá góðu fólki.

Kjarni málsins er sá að það eru ekki góð rök með kristilegum sumarbúðum þó ég eða aðrir hafi komist óskaddaðir frá þeim og það sama tel ég gilda um trúboð í skólum.

Ásgeir - 11/01/07 15:52 #

Ég er alveg sammála Atla, hverju einasta orði. Samt get ég ekki séð hvernig það kemur Vinaleið vitund við.

Málið snýst ekki um hlutleysiskröfu á kennara skólanna, heldur hvort ákveðið trúfélag eigi að hafa fulltrúa sinn innan veggja skólans. Eða, með öðrum orðum: Á ríkið að vera afhelgað (eða sekúlar)?

Þannig snýst þetta um trúfrelsi, en ekki hlutleysi í kennslu. Enda eiga þessir skólafulltrúar kirkjunnar ekkert að sjá um hana, eða hvað?

Matti - 11/01/07 15:57 #

Eina tengingin við Vinaleið er að umræða um hlutleysi í skólum hefur aðallega (næstum eingöngu) snúist um Vinaleið síðustu vikur og mánuði. Ég hef a.m.k. ekki orðið var við aðra umræðu og finnst ólíklegt að hún hafi farið framhjá mér þar sem Vantrúarsinnar eru yfirleitt duglegir við að halda slíku til haga. Þannig að þegar Atli skrifar:

Undanfarna mánuði hefur dálítið borið á skrifum í blöð þar sem fundið er að því að kirkjunnar menn sæki inn í grunnskóla með trúboð og áróður.

...sé ég ekki hvað annað en Vinaleið kemur til greina.

Varðandi trúboð í skólum almennt, þá hafa þeir sem mótmæla trúboði í skólum alltaf lagt á það áherslu að gera greinarmun á kennslu um trúarbrögð og trúboði (hér er eitt dæmi).

Ásgeir - 11/01/07 16:06 #

Já, það er rétt.

Ásgeir - 11/01/07 16:08 #

Það sem ég var að reyna að segja er að mér finnst allt í lagi að kennarar geri nemendum sýnum ljóst að þeir séu kristnir eða kommúnistar, jafnvel að þeir reki áróður fyrir þeim skoðunum sínum. En þeir eiga ekki að vera í skólunum sem fulltrúar kirkjunnar eða kommúnistaflokksins.

Matti - 11/01/07 16:10 #

Já, ég mótmæli því ekki :-) Vil reyndar setja fyrirvara við áróðurinn, ég myndi a.m.k. vilja gera þá kröfu til kennara að þeir reyni að vera hlutlausir og setji fram gagnrök/mótáróður en það er hugsanlega óraunhæft hjá mér. Ekki veit ég t.d. hvernig ég ætti að fjalla um kristindóm á jákvæðan hátt ef ég væri kennari!

Ásgeir - 11/01/07 16:54 #

Ég er kannski að nota áróður í jákvæðari merkingu orðsins en flestir, þ.e. einfaldlega að reyna að afla skoðun fylgis. Mér finnst jákvætt að menn reyni að sannfæra aðra um skoðun sína, hver svo sem hún er.

Hjalti Rúnar - 11/01/07 17:01 #

Ég skil þetta ekki alveg. Þó svo að það sé jákvætt að menn reyni að sannfæra aðra um skoðun sína, þá hlýtur það að vera eðlileg krafa að kennarar stundi ekki trúboð í skólanum.

Ásgeir - 11/01/07 17:19 #

Ég ætlast líka til að trúlausir kennarar tali um þá skoðun sína. Ég sé þetta sem svona "marketplace of ideas" þar sem einungis umræða getur fengið mann á rétta skoðun.

Matti - 11/01/07 19:25 #

Ég sé þetta sem svona "marketplace of ideas" þar sem einungis umræða getur fengið mann á rétta skoðun.

Já en þú lítur framhjá "markaðsbrestunum" þar sem sumir sölumennirnir beita óheiðarlegum aðferðum og reyna að pranga skrani upp á grandalausa kaupendur :-)

Ásgeir - 11/01/07 20:40 #

Hahaha!

Birgir Baldursson - 12/01/07 04:10 #

Ég ætlast líka til að trúlausir kennarar tali um þá skoðun sína.

Mér, sem kennara við tónlistarskóla, dytti ekki í hug að blanda viðhorfum mínum í trúarefnum saman við kennsluna. Krökkunum kemur ekkert við hverju ég trúi.

Ég man eftir einu tilviki þar sem ungur nemandi fór að tala um að hann héldi að guð væri ekki til (þetta var fyrir tíma Vantrúar og ekki nokkur séns að honum hefði borist pati af trúleysi mínu). Ég svaraði því einungis til að til væru þeir sem ekki tryðu á guð, þótt flestir gerðu það og að það mætti alveg leyfa sér að efast um þetta.

Þegar nemendur mínir fermast kemur fyrir að ég óska þeim til hamingju með það. Aldrei færi ég að fussa eitthvað yfir slíku eða tala um hræsni og græðgi.

Í persónulegum samskiptum kemur mér trú og trúarástundun annarra ekkert við. Svo einfalt er það. Og skólinn er ekki staður fyrir hugsjónaáróður minn. Til þess hef ég annan vettvang.

Ásgeir - 12/01/07 04:23 #

Já, það er alveg rétt hjá þér. Ég ætla að íhuga þetta um stund.

Már - 13/01/07 22:36 #

Birgir, það er samt kannski dálítill munur á þeim umræðuefnum sem koma upp í tímum hjá umsjónarkennurum grunnskólabekkja (sérstaklega hjá yngri bekkjum) og umræðum í tónlistartímum. Bekkjakennarar lenda örugglega oftar í aðstæðum þar sem þeir hreinlega þurfa að tala frá eigin brjósti og segja heiðarlega frá sinni skoðun -- t.d. um siðferðisleg álitamál.

Líkt og Ásgeir finnst mér ákveðinn eðlismunur á því að kennarar, sem einstaklingar, miðli (með hófstilltum hætti) til barnanna sínum skoðunum, og því að hausaveiðarar á launum hjá trúfélögum fái haftalaust veiðileyfi á börnin innan veggja skólans.