Örvitinn

Sjónvarpið er drasl

Í gærkvöldi áttu sér stað undarlegir atburðir í Bakkaselinu. Í miðjum CSI þætti slökkti Gyða á sjónvarpinu og fór að horfa með mér á heimildarmynd sem ég var að horfa á á netinu.

Vefsíðan Smashing Telly býður upp á bíómyndir og sjónvarpsþætti í fullri lengd. Þarna hefur David Galbraith tekið saman áhugavert efni frá YouTube og Google Video.

Í gær horfðum við á tvo þætti, annars vegar The boy with the incredible brain sem fjallar um breskan snilling sem sér tölur á undarlegan hátt og hinsvegar The Hawking paradox, heimildarmynd um Stephen Hawking og umdeilda kenningu hans um svarthol sem hverfa (og eyða þar með öllum upplýsingum sem í þeim eru). Báðar myndirnar eru afskaplega áhugaverðar, í fyrri myndinni er gaman að fylgjast með því þegar söguhetjan fer til Íslands og lærir íslensku á einni viku, fer svo í viðtal í Kastljósi sem ég man ekki eftir að hafa séð.

Staðreyndin er sú að ég er löngu búinn að fá leið á CSI og fleiri sjónvarpsþáttum, þetta eru ómerkilegar sápur (þó sumir þættir séu áhugaverðir). En á Smashing Telly er fullt af afar áhugaverðu (og jafnvel fróðlegu) efni sem hægt er að horfa á í staðin fyrir draslið.

Í kvöld ætla ég aftur á móti að horfa á handbolta og fótbolta í sjónvarpinu þannig að imbinn hefur eitthvað gildi ennþá :-)

fjölmiðlar
Athugasemdir

Erna - 01/02/07 12:46 #

Ó, takk fyrir þessa færslu! Þessi Smashing Telly síða er náttúrulega snilld! Ég horfði á myndina um draugagang í neðanjarðalestum Lundúna í gær. Snilld!

Ég get sagt þér að sjónvarpið hér í Amríku er líka drasl. Við erum með yfir hundrað stöðvar, HBO og allt, en samt er ALDREI neitt í því. Við horfum aldrei á neitt um leið og það er sent út, en tökum upp einstaka þætti á DV-R til þess að getað spólað yfir auglýsingar. Það eina sem er horft á í sjónvarpinu hér er fótbolti og ef það væri ekki fyrir hann værum við örugglega ekki með allar þessar stöðvar.

Er sjónvarpið ekki bara dauður miðill?

Matti - 01/02/07 15:38 #

Þær þáttaraðir sem við horfum á sækjum við flestar af netinu, ég glápi náttúrulega töluvert á fótboltann og stelpurnar á barnatímana.

En auðvitað er þetta handónýtt form að varpa út efni á tilteknum tíma, af hverju á ég að þurfa að koma mér fyrir klukkan átta þrjátíu fyrir framan sjónvarpið? Plúsinn, þar sem hægt er að horfa á dagskrána klukkutíma síðar var vissulega viss bót á máli, en eðlilegast væri að allt þáttagláp væri þannig að maður myndi velja þáttinn og horfa svo, svipað og hægt er að gera með bíómyndir á Skánum.

En þessi Smashing Telly síða er snilld og ég á vafalítið eftir að nota hana til að finna áhugaverða heimildaþætti.