Örvitinn

KFUM í kvöld

kfumÉg kíkti á fund hjá Kristilegu Félagi Ungra Manna í kvöld. Í salnum voru um 35 manns og meðalaldur var eflaust hátt í 70 ár með mér og rétt rúmlega tvítugum sessunaut mínum.

Hvað um það, þetta var ósköp leiðinlegt. Einhver gaur flutti hugvekju sem var innihaldslaust blaður. Séra Hans Guðberg, Vinaleiðindaprestur í Garðabæ flutti svo afar daufa og frekar villandi kynningu á Vinaleið, það kom svosem fátt áhugavert fram en eitthvað þó sem hægt verður að nota. Jújú, Hans er ungur og þokkalega máli farinn en það er furðulegt hvað Vinaleiðarsinnar hafa mikla þörf fyrir að snúa málstað þeirra sem eru á móti Vinaleið á haus, þetta fólk er haldið strámannssýki á háu stigi. Meira um það síðar.

Að lokinni kynningu flutti Séra Hans svo hugleiðingu sem var enn innihaldslausari en blaðrið í upphafi. Í alvöru talað, megnið af þessum hugvekjum Þjóðkirkjufólks er bara bull, innihaldslaust þvaður, merkingarlaust blaður.

Við slepptum kaffinu og spjallinu. Engin ástæða til að stuða gamla karla.

dagbók
Athugasemdir

Einar Örn - 08/02/07 23:34 #

Hvað finndist þér um að einhver skrifaði svona:


Ég kíkti á Liverpool leik á Players í kvöld. Í salnum voru um 35 manns og meðalþyngd var eflaust yfir 120 kíló með mér og grönnum sessunaut mínum.

Hvað um það, þetta var ósköp leiðinlegt. Einhverjir gaurar spörkuðu bolta á milli sín í algjöru tilgangsleysi.


Hvað sannar það að gera lítið úr áhugamálum annarra? Að fara á samkomur þeirra að því er virðist í þeim einum tilgangi að gera lítið úr þeim?

Mér finnst margt í þinni baráttu og málflutningi vera lofsvert, en þetta finnst mér hálf slappt.

Matti - 09/02/07 08:10 #

Ég benti á meðalaldurinn vegna þess að félagi heitir Kristilegt Félag Ungra Manna. Ég hélt það hefði verið augljóst. Ef þú villt líkja þessu við Liverpool, þá hefði það verið þannig að ég hefði farið á fund hjá Liverpool klúbbnum og allir hefðu verið í Chelsea treyjum, þetta var tilraun til að benda á broslegan (en sannan) flöt á þessari heimsókn.

Ég mætti á staðinn til að heyra hvað séra Hans Guðberg hefði að segja um málið og staðreyndin er að þetta var afar leiðinlegt og þurrt. Ef við viljum líkja þessu við Liverpool leik, þá var þetta steindautt jafntefli þar sem hvorugt lið reyndi að skora.

Þessi pistill er ekki liður í neinni baráttu heldur heiðarleg lýsing mín á fyrstu heimsókn minni á KFUM fund. Svona upplifði ég hann. Hér var ég ekki með nein ódýr skot að mínu mati.

Matti - 09/02/07 09:07 #

'hr' virkar núna, en 'i' er úrelt tag ;-)

Einar Örn - 09/02/07 10:49 #

Miðað við fyrri skrif þín þá fannst mér þetta vera sambærilegt því að fólk sem hataði fótbolta færi sérstaka ferð á Players til að segja hversu ömurlegur sér finndist fótbolti.

Það er að segja ef þessi líking var ekki nógu skýr hjá mér í fyrra kommenti. :-)

Og ég skal nota em næst. ;-)

Matti - 09/02/07 10:53 #

Tja, ég ætla ekki að venja komur mínar á KFUM fundi en þarna var skólapresturinn í Garðabæ að fjalla um Vinaleið og því þótti mér ástæða til að mæta og heyra hans hlið á málinu. Vinaleið er efni sem skiptir mig miklu máli.

Fyrirlesturinn fór þannig fram að presturinn las texta af glærum sem hefði kannski verið í lagi ef hann hefði bætt einhverju við það efni sem þegar er hægt að lesa á heimasíðu Þjóðkirkjunnar. Hann gerði lítið af því.

Enn gengur líking þín ekki alveg upp, því ég hef mikinn áhuga á trúmálum. Þannig að þetta væri frekar svona eins og að ég mætti á Players til að horfa á leik Manchester United og Chelsea ;-)

Annars er ég þeirrar skoðunar að ef það er ekki hægt að nota fótboltalíkingar sé kominn tími til að skipta um umræðuefni, hér eiga fótboltalíkingar vel við :-)