Örvitinn

Úthverfalýður fer í bæjarferð

Kolla og Inga MaríaVið skelltum okkur í bæinn í gær. Byrjuðum á því að skutla Vésteini heim en hann mætti tveim vikum of snemma í brunch. Fórum svo í Laugalækjarskóla þar sem ég tók myndir í sjálfboðavinnu fyrir Barnaheill. Veðrið lék ekki beinlínis við okkur, það var frekar dimmt og við fengum smá skúr, en ég náði samt að taka um 600 myndir, vonandi eru 20-30 góðar. Ég má ekki birta myndirnar, þar sem ég var að taka myndir af annarra börnum - en skelli samt inn mynd af mínum stelpum og Einari, ég sleppi því að fá leyfi hjá foreldrum hans :-)

Þvínæst var skundað í miðbæinn á úthverfajeppanum, fórum og fengum okkur að borða á Kaffi París og kíktum svo á Listasafn Íslands, stelpurnar höfðu bara nokkuð gaman að því. Pældu í verkunum og Kolla las heiti þeirra af litlu spjöldunum. Ég var sæmilega hrifinn, þessi Franska sýning (Frelsun litarins) heillaði mig ekki það mikið. Eftir stutt stopp í Iðu sóttum við Ásdísi Birtu í Breiðholtið og kíktum í sunnudagsmat hjá foreldrum mínum í Mosfellsbæ. Þar var boðið upp á spagettí og kjötbollur, rjómabollur í eftirrétt. Ég borðaði yfir mig en át samt miklu minna en ég var vanur fyrir nokkrum vikum. Það var fjölmenni hjá foreldrum mínum og við fórum ekki heim fyrr en rúmlega níu.

dagbók