Örvitinn

DV verður dagblað - slæm hugmynd?

Ég held það sé vanhugsað að breyta DV aftur í dagblað. Þegar blaðið kom út daglega var augljóslega ekki nóg af krassandi fréttum að finna þannig að grafa þurfti upp frásagnir af foreldrum sjúkra barna og álíka "krassandi" sögur og smella á forsíðuna, helst með stórri forsíðumynd án samþykkis þeirra sem fjallað var um.

Þarna erum við ekki að tala um glæpamenn heldur bara fólk sem lenti í hörmungum og langaði ekkert að verið á forsíðum sorprita.

Ég hef sagt það áður að stundum hefur DV réttlætt tilvist sína með því að fjalla um ýmislegt sem aðrir þora ekki að snerta, t.d. handrukkara, þó þeir hafi reyndar klúðrað því með því að birta mynd af fórnarlambi á forsíðu og bendla hann við brotin.

Þegar DV kemur út einu sinni í viku ætti alltaf að vera hægt að hafa alvöru fréttir í blaðinu, en dagleg útgáfa þýðir bara annað af tvennu, blaðið verður eins og öll önnur blöð eða að það fer á lægra plan eins og fyrr.

fjölmiðlar