Örvitinn

Nýtt RSS yfirlit ?

Er ekki að verða kominn tími á að einhver óháður aðili búin til rss yfirlit sem tæki við af rss.molar.is og mikkivef - en báðar þær síður eru í raun óvirkar, ekki hægt að bæta síðum á molana og mikkivefur hefur ekki uppfærst í einhverja mánuði. Á svona síðu þarf að vera hægt að búa til lista af bloggum, skoða lista, bæta inn nýjum bloggum og svo framvegis. Kerfi sem myndi styðja staðla og vera opið.

Ég held að sú þróun sem er að eiga sér stað nú, með lokuðum bloggsamfélögum á moggablogginu og vísisblogginu sé afar óæskileg. Bloggsamfélagið hér á landi hefur hingað til verið opið, en nú stefnir í lokuð aðskilin samfélög bloggara.

Ég held það sé ekkert stórmál að búa til bloggyfirlit, a.m.k. ekki tæknilega. Jafnvel er spurning hvort hægt sé að útbúa lausn ofan á google reader eða álíka tól. Vandinn er bara með hýsingu og kostnað við tengingu og vél. Það er ljóst að svona síða gæti fengið töluverða umferð og því spurning hvort eitthvað væri hægt að kosta hana með auglýsingum.

Þetta þarf að skoða.

vefmál
Athugasemdir

Bjarni Rúnar - 06/03/07 20:57 #

Mikið rétt. Ég hef reyndar haft spurnir af manni sem er að vinna í svona græju... en ég veit ekki hvort eða hvenær hún á að verða að veruleika.

Matti - 06/03/07 21:47 #

Ég var einmitt að frétta af einum sem er að vinna í þessu máli, mér líst vel á það sem hann er að gera.

SHIFT-3 - 06/03/07 23:56 #

Þetta er lífsnauðsyn fyrir frjálst blogg á Íslandi.

Hver sá sem tæki þetta þjóðþrifaverkefni að sér verður útnefndur höfuðsnillingur og mannvinur.

Matti - 07/03/07 00:16 #

Óli var að benda mér á að mikkivefur virðist vera að lifna við.

Gamla yfirlitið mitt virðist virka.

Þá er bara spurning hvernig staðan er á blogglistanum þar, eflaust þarf að uppfæra hann.

Ég setti mikkavef aftur á upphafs-/vísanasíðuna mína.

Matti - 07/03/07 14:25 #

Mikkivefur er samt ekki kominn alveg í gang. T.d. hefur rss yfirlitið á minni síðu ekkert verið sótt, yfirlitið yfir nýjustu athugasemdir á Vantrú hefur verið sótt en ekki yfirlitið yfir nýjustu greinarnar.

En vonandi er þetta að komast í gang.

Annars skrifaði ég fjórar A4 síður í gær um það hvernig svona kerfi ættu að vera að mínu mati. Spurning hvort ég skelli þeim hugleiðingum á netið, jafnvel með kóðadæmum (python og feedparser.py)

Lalli - 07/03/07 22:45 #

Á forsíðu Mikkavefs segjast menn ætla að koma kerfinu aftur í gang fyrir vikulokin. Þeir segja reyndar ekki hvaða viku, ég vona að það sé þessi vika. :þ

Matti - 07/03/07 23:30 #

Sá texti var síðast uppfærður 12. desember síðastliðinn :-)

Lalli - 08/03/07 04:33 #

Jæja, lengi er von á einum. :D

Björn Friðgeir - 08/03/07 08:11 #

Vissulega þarft verk. Tíðarandinn er að sjá um hluta af þessu, en betur má ef duga skal. Stór galli á Mikka er td að hann sýnir ekki bara nýjustu færslu hvers og eins, eins og rssmolarnir. Annars er bloggheimurinn íslenski orðinn svo stór að svona einnarsíðu dæmi er alltaf frekar tæpt. Það þarf alvöru rss lesara ef vel á að vera, smbr nýlega færslu EÖE. Ég er t.d. með 304 feed í bloglines og er ekkert mjög mikið.