Örvitinn

Leikskólaprestarnir ganga enn lengra

Það er einföld ástæða fyrir því að ég hef lítið skrifað um leikskólaprest undanfarið. Eftir að Kolla byrjaði í Ölduselsskóla fæ ég minni fréttir frá leikskólanum, Inga María er ekki jafn gjörn á að segja mér fréttir af heimsóknum prests og ég hef ekki verið að spyrja hana út í það sérstaklega þó við ræðum í lok hvers dags um það hvernig dagurinn hennar var.

Ég sagði frá því að þegar ég sótti um fyrir Kollu í vistinni eftir skóla þurfti ég að haka við það hvort ég vildi að hún færi í kirkjuna. Þegar Gyða sótti um fyrir Ingu Maríu um daginn þurfti hún að afhaka við að Inga María færi til kirkju, það var semsagt sjálfgefið val, í stað þess að vera akkúrat öfugt, foreldrar velji að senda börnin sín til kirkju, sem mér þætti eðlilegra. Athugið að enn tel ég algjörlega óásættanlegt að kristið trúboð sé hluti af frístundarstarfi ÍTR, en ég er þrátt fyrir allt, ólíkt þjóðkirkjufólkinu, maður sátta og reyni að sætta mig við að sumum börnum sé smalað í kirkjuna - en mínum haldið til hliðar.

Við höfum semsagt ekkert kvartað undan þessu þó okkur finnist afar skítt að þurfa enn og aftur að velja að börnin okkar séu tekin út úr hefðbundnu starfi vegna trúarskoðana. Við skiljum ekki af hverju trúmenn halda sig ekki bara við sunnudagaskólana. Af hverju á það að koma starfsfólki leikskóla, grunnskóla eða frístundastarfs ÍTR eitthvað við hverjar lífsskoðanir mínar eða annarra foreldra eru? Með því að aðgreina börn á þennan hátt eru verið að draga lífsskoðanir á yfirborðið án góðrar ástæðu. Kolla var yfirleitt að dunda sér með einum öðrum strák meðan krakkarnir fóru í kirkjuna en síðar fór hún að fara í íþróttahúsið með eldri krökkunum á þeim tíma.

Það var sæmilega ásættanleg lausn á þessu leiðinlega máli að okkar mati.

Á fimmtudaginn síðasta sagði Kolla fréttir. Þann dag mættu Séra Bolli og sérlegur aðstoðarmaður hans, Óli Jói, yngsti prestur landsins, í Ölduselsskóla og voru með leikstund. Kolla og vinkona hennar völdu þessa leikstund, vissu ekkert að þarna var um kirkjustund að ræða. Meðal þess sem gert var í leikstundinni var að fara með bænir. Kolla og vinkona hennar fóru ekki með bænir.

Ég skal segja ykkur hvernig þetta kom til. Fyrstu mánuði skólaársins voru allir krakkar sem ekki hafði verið sérstaklega merkt við að ekki ættu að fara í kirkju, selfluttir í Seljakirkju á fimmtudögum, einu sinni eða tvisvar í mánuði. Eftir nokkra mánuði var þessu breytt þannig að krakkar höfðu val, máttu velja hvað þeir vildu gera, þar með fara í kirkju. Skyndilega hættu flestir að fara í kirkjuna. Þá fóru prestanir að plotta, hvað áttu þeir að gera. Jú að sjálfsögðu er ekkert eðlilegra en að mæta með fjárans kirkjuna í skólann.

Það er þá alltaf hægt að setja börn þessara trúleysisnöttara til hliðar segja þeir eflaust, þau geta bara farið út að leika eða eitthvað, má ekki bara senda þau heim. Þess má geta að foreldrar vinkonu Kollu, sem fór með henni í leikstundina, eru Búddistar.

Gyða hringdi í gær og ræddi við umsjónarmann frístundarstarfsins. Það kom honum nokkuð á óvart að það þætti eitthvað athugavert við þetta en hann virtist skilja athugasemdir Gyðu, tók ábendingum hennar vel og ætlaði að skoða málið. Hann játaði að þetta hefði ekki verið kynnt sem kirkjustarf en Gyða benti á að það skipti ekki máli, þetta starf ætti alls ekki heima í frístundastarfinu innan skólans.

Ef þetta verður ekki stöðvað munum við fara lengra með málið, bæði til ÍTR sem rekur þetta, Reykjavíkurborgar sem ber ábyrgð á starfi ÍTR og einnig fjölmiðla.

Lesendur þessara síðu gera sér vafalítið ekki grein fyrir því hve mikið við höfum haldið aftur af okkur í leikskólaprestsmálum. Þannig hafa aðrir aðilar alveg séð um samskipti við leikskóla og Reykjavíkurborg. Því miður hefur ekkert verið gert þrátt fyrir að flestir sýni málstað okkar skilning og játi að þetta sé ekki eðlilegt. Kirkjufólk virðist hafa furðulega mikil ítök innan stjórnsýslunnar.

Það er kominn tími til að gera meira. Enn og aftur gengu þessir andskotar of langt.

Þess má geta að Óla Jóa finnst ég ekkert geta sagt, þar sem ég flutti fyrirlestur í framhaldsskóla og það er, að hans mati, á einhvern hátt sambærilegt við að fara í leikskóla og barnaskóla, leika við börnin og kenna þeim að tala við Gvuð.

leikskólaprestur
Athugasemdir

Óli Gneisti - 20/03/07 12:19 #

Ef ég væri á sama siðferðisstigi og sr. Bolli þá myndi ég leita uppi börnin hans og útskýra fyrir þeim að það væri ekki til neinn guð og benda þeim á að Jesús hafi sagt að maður ætti að hata foreldra sína. En ég er ekki slíkur hálfviti og myndi augljóslega ekki gera svoleiðis.

Það er vissulega sorglegt að Sr. Bolli eigi aldrei eftir að upplifa það sjálfur að völdin séu tekin svona af honum í trúaruppeldi barna sinna, það væri væntanlega eina leiðin til þess að hann myndi skilja hverslags siðferðislegur aumingi hann er. Við höfum bara enga samherja sem eru á sama lága stiginu og hann.

Hvernig í ósköpunum geta menn verið svona miklir skíthælar? Ég bara spyr.

Mummi - 20/03/07 12:47 #

Ekki yrði ég hissa ef svona fólk réttlæti þetta fyrir sjálfu sér þannig að það sé jú að bjarga sálum barnanna. Það telji sig raunverulega vera að bjarga börnunum. Að stígið sé á tær foreldra og olnboginn rekinn í síðu þeirra sé algert aukaatriði, og kannski m.a.s. plús, því svona foreldrar eru jú augljóslega guðleysingjar og siðleysingjar og hvort eð er á leiðinni til vítis.

Eða þá að það veit, að ef það gerir þetta ekki þá mun það missa vinnuna eftir 1, 5 eða 15 ár.

Hver veit hvað fer í gegnum hausinn á svona siðleysingjum?

khomeni - 20/03/07 16:40 #

Þvílíkur hroki hjá þessu trúfélagi. Hvað halda þeir eiginlega að þeir séu? Er þetta stef við Vinaleiðarásælni trúfélagsins Þjóðkirkjunnar?

Það ætti að skamma ÍTR fyrir þetta fíaskó. Skamm!

Birgir Baldursson - 20/03/07 20:12 #

Við höfum bara enga samherja sem eru á sama lága stiginu og hann.

Það liggur við að ég sé tilbúinn til að taka að mér að vera á þessu lága siðferðisstigi, til að kenna Bolla lexíu.

Kári Svan - 20/03/07 20:41 #

Já, bara gjalda líku líkt. Leyfa honum svo að fyrirgefa okkur seinna meir í skiptum fyrir að ósýnilegur einræðisherrann hans tuski okkur til fyrir vikið þegar við verðum ekki lengur til.

Birgir Baldursson - 20/03/07 21:03 #

Við ættum kannski að senda biskupsstofu bréf þar sem við gerum tilkall til þess að fá að halda samkomu með börnum allra þeirra presta sem steðjað hafa inn í skóla og leikskóla að undanförnu. Slík krafa hlýtur að teljast réttlát í ljósi þess að þessir einstaklingar hafa fengið aðgang að börnum trúleysingja án þess að spyrja kóng eða prest. :)

Birgir Baldursson - 21/03/07 00:13 #

Og þá eru þeir um leið að viðurkenna að þeirra eigin boðun sé slíkt. Punktur okkar með þessu kæmist því algerlega til skila.

Pétur Björgvin - 24/03/07 12:35 #

Legg til að þið hvetjið ÍTR til að setja viðmiðunarreglur eða starfsreglur hvernig aðkomu utanaðkomandi hópa inn í starf ÍTR er háttað. Kannski eru slíkar reglur til, ekki að marka þó ég þekki þær ekki enda ekki enda ekki búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægt að hér væri jöfn aðkoma allra aðila að málinu og óeðlilegt að ein félagasamtök, til dæmis íþróttafélag, fengi meira aðgengi heldur en önnur, til dæmis trúfélag.

Matti - 24/03/07 13:59 #

Finnst þér ekki eðlismunur á því að láta börn hoppa og skoppa í leikfimisal annars vegar og kristniboði (orð Séra Bolla) í skólum hinsvegar.

:-/

Pétur Björgvin - 24/03/07 19:39 #

Ég sé ekki eðlismun á því hvaðan þeir sem eru ,,utanaðkomandi" koma þegar þeir koma með hópastarf á eigin vegum, sömu reglur hljóta að gilda um þá. Get ekki séð að það sé hlutverk ÍTR að ritskoða innihaldið né aðferðafræðina heldur að setja rammann um innihald og aðferðafræði sem er í samræmi við markmið starfsins hjá ÍTR.

Matti - 26/03/07 10:37 #

Ég get tekið undir það að það eiga að vera til reglur um aðkomu utanaðkomandi félaga að starfi ÍTR. Ég held meira að segja að ÍTR hugsi um þetta, líkt og skólarnir. En af einhverri undarlegri ástæðu tekst Þjóðkirkjunni að komast framhjá öllu svona, yfirleitt í krafti hefðar, jafnvel skáldaðrar.

En ég er algjörlega ósammála þér með að það sé ekki eðlismunur á utanaðkomandi félögum. Ég geri sama greinarmun á íþróttafélagi og stjórnmálaflokki annars vegar og íþróttafélagi og trúfélagi hinsvegar.

Mér finnst ekkert að því að íþróttafélög eða tónlistarskólar starfi innan ÍTR. Ég set reyndar þann fyrirvara við t.d. starf íþróttafélaga að þar á ekki að reka áróður fyrir íþróttafélaginu (láta börn í tómstundastarfinu þylja "áfram ÍR" eins og tíðkast á æfingum). Þar erum við komin út í eitthvað sem líkist trúboði.

Að sama skapi hef ég ekkert á móti því að rætt sé við börn um siðferði og heimspeki. Það er kristniboðið sem ég mótmæli.

Pétur Björgvin - 26/03/07 20:42 #

Held að við séum að tala um sama hlutinn, ég vil bara ekki að einhver sé útilokaður á grundvelli þess ,,hvað hann er" heldur að allir gangist undir sömu reglur og þá sé ,,ákveðið innihald" bannað sem og aðferðir sem samræmast ekki ákveðnum reglum um þá aðferðafræði sem á að nota.

leikskólakennari - 30/11/07 17:50 #

"Þvílíkur hroki hjá þessu trúfélagi. Hvað halda þeir eiginlega að þeir séu?" Vá, hvað ég tek undir þessi orð en sný þeim að ykkur félögum. Hvers konar málflutningur er það þegar ráðist er persónulega að prestum vegna þess sem þeir standa fyrir? Hér fer bara fram grjótkeppni úr glerhýsum.

Óli Gneisti - 30/11/07 17:58 #

Bolli vegur mjög persónulega að Matta með því að ráðast svona á börnin hans.

Í hvaða leikskóla starfar þú annars?