Örvitinn

Lögbrot, óh - öll þessi lögbrot

Það er víst til fólk sem finnst að eitthvað þurfi að gera vegna þess að Spaugstofan grínaðist með Þjóðsönginn um helgina. Dæmi: [1, 2, 3] (allt moggabloggarar - en óvænt. Til að vera sanngjarn, þá eru til moggabloggarar sem eru á öndverðri skoðun)

Lög voru brotin, eitthvað þarf að gera. Eitthvað þarf að gera, ætlar enginn að hugsa um bööörnin.. nei, ég meina Þjóðsönginn.

Um árið var sama fólk, í öðrum líkama, að ærast útaf gvuðlasti Spaugstofunnar.

Það kæmi mér ekki á óvart ef flestu þessu fólki þyki algjör óþarfi (jafnvel argasta smámunasemi) að gera nokkuð í því þegar lög eru brotin vegna Vinaleiðar, kristniboðs í leikskólum (sjá t.d. þessa grein) eða ferminga Þjóðkirkjunnar (sjá t.d. þessa grein.

Þegar þetta fólk byrjar að tjá sig um lögbrot út af þessu Spaugastofumáli og talar um að vernda þurfi Þjóðsönginn finnst mér ég eiga afskaplega lítið sameiginlegt með þeim, finnst eiginlega eins þau séu ekki af sömu dýrategund - eða eitthvað.

pólitík
Athugasemdir

Gunnlaugur Þór Briem - 26/03/07 17:10 #

„Sömu dýrategund?“ Svei. Alveg er það eftir ykkur hryðjuverkamönnum hugans að telja mannfólkið til dýrategunda.

(Að hugsa sér að maður skuli þurfa að taka fram að þetta er grín. :) )

Matti - 26/03/07 17:22 #

Sköpunarsinni Vantrúar (í svipaðri merkingu og gæludýr) fer á kostum í athugasemdum akkúrat þessa stundina. Ég held mig fjarri :-)

Annars er það dálítið merkilegt að þegar kemur að Vinaleið og kristniboði í leikskólum er hann sammála okkur. Verst að hann vill eflaust skilgreina kennslu um Þróunarkenninguna sem trúboð líka.

Lárus Viðar - 26/03/07 20:29 #

Reyndar er ég að vonast eftir því að Spaugstofan verði kærð því að þessi lög hljóta að stangast á við ákvæði um tjáningarfrelsi í Stjórnarskránni. Lögin verða því dæmd ógild og þjóðsöngnum fleygt á öskuhauga sögunnar í kjölfarið fyrir að vera hrútleiðinlegt sálmatuð.

OK, óskhyggja á ferðinni en maður getur látið sig dreyma.

Matti - 26/03/07 23:07 #

Eitt þarf ekki að útiloka annað.

Sirrý - 27/03/07 08:14 #

Lögbrot er lögbrot þó ég sé þeirrar skoðunar að það eigi ekki að kæra spaugstofuna en mér finnst allt í lagi að við setjum okkur mörk og virðum þennan annars ekki skemmtilega þjóðsöng okkar. En annars var þjóðsöngurinn víst spilaður of hratt á HM í vetur og er það líka lögbrot. Jafnt skal yfir alla ganga.

Matti - 27/03/07 08:57 #

"Lögbrot er lögbrot"

Tja. Lögbrot eru afskaplega misalvarleg. Sum lög eru einfaldlega asnaleg/röng og í raun skylda borgaranna að brjóta þau að mínu mati. T.d. á það við um lög um gvuðlast.

Ég mun aldrei virða Þjóðsönginn. Því miður. Bæði skortir mig algjörlega þá þjóðarsamkennd sem til þarf auk þess að Þjóðsöngurinn er kristinn sálmur og því algjörlega ómögulegt fyrir mig að virða sönginn.