Örvitinn

Hjónabönd samkynhneigðra og setningarræða biskups

Í tilefni þess að Þjóðkirkjuprestar deila um það á kirkjuþingi hvort samkynhneigðir megi giftast í alvöru (en ekki bara blessast) vil ég koma með eftirfarandi yfirlýsingu.

Það er árið 2007, ég endurtek tvöþúsund og sjö. Er þetta fólk snargeðbilað?

Æi, hvernig spyr ég.

Biskup hélt setningarræðu (sem heitir Synodusræða á kirkjumáli) og sagði meðal annars þetta um gagnrýni sem Þjóðkirkjan hefur fengið:

Það er mikil þörf starfseflingar presta og trúnaðarmanna safnaðanna, ekki síst í ljósi vaxandi andtrúaráróðurs og andróðurs gegn kirkjunni sem stofnun. Þjóðkirkjan hefur í vaxandi mæli orðið fyrir óvæginni gagnrýni af hálfu fjölmiðla og annarra. Sem dæmi má nefna að Vinaleiðin, sem er nýjung í samstarfi kirkju og skóla, hefur valdið mikilli umræðu og jafnvel titringi og ómaklega hefur verið vegið að henni. Hér í dag verður rætt um samskipti og samstarf kirkju og skóla og um kirkju og samfélag.

Þjóðkirkjan, starf hennar og staða, þolir rýni og skoðanaskipti. Við höfum góðan málstað að verja og mikilvægan boðskap að miðla. Gagnrýnin og andstaðan getur verið vísbending um að kirkjan sé að sækja fram, gera rétt, að gera vel, standa fyrir máli sínu og hafa áhrif [skáletrun Matti].

Takið eftir því að ekki dettur biskup í hug að gagnrýnin og andstaðan við Vinaleið og leikskólatrúboð (svo dæmi séu tekin), sé komin til vegna þess að eitthvað sé athugavert við það sem Þjóðkirkjan er að gera - er þetta ekki fullkomið dæmi um siðblindu ?

Ég lofa ykkur að "andtrúaráróðurin" og "andróðurinn" gegn kirkjunni á eftir að aukast. Verði þeim að góðu, það er það sem þau vilja. Ekki taka þau minnsta mark á málefnalegri gagnrýni.

kristni
Athugasemdir

Halldór E - 27/04/07 12:12 #

Matti, ertu búin að sjá framsögu Sigurðar Pálssonar á Prestastefnu? Ég held að það svari vel innleggi þínu um Vinaleið og Leikskólatrúboð. Auðvitað tekur hann ekki sjálfkrafa undir allt sem sagt er hér á þessari síðu en skilaboðin að mínu viti eru ljós, sér í lagi þar sem hér er um að ræða lykilmann hjá kirkjunni.

Vinaleiðin er kapítuli út af fyrir sig. ... Þó er ljóst að kirkjan hefur ekki talað einum rómi um þessa þjónustu og hefur það gefið tilefni til margvíslegrar gagnrýni, bæði réttmætrar og óréttmætrar. Stóra álitamálið er hvort slík þjónusta trúfélags eigi heima inni á vettvangi skólans. Auk þess að skilgreina þessa þjónustu með vönduðum og skýrum hætti, svo sem þegar hefur verið leitast við, sbr. siðarglur Vinaleiðar, þarf að taka þessa spurningu alvarlega og komast að rökstuddri niðurstöðu í samvinu við yfirvöld menntamála.

http://kirkjan.is/?prestastefna/2007/samstarf_kirkju_og_skola

Matti - 27/04/07 13:08 #

Ég var ekki búinn að sjá þetta og tek undir með þér, þetta eru miklu skárra en það sem biskup segir.

Gunnar - 27/04/07 22:08 #

Já, þetta er klárlega það besta sem ég hef séð um þessi mál frá kirkjunnar mönnum.