Örvitinn

Athugasemd á annál

Þessi athugasemd mun ekki komast í loftið hjá "umburðarlynda" prestinum Erni Bárði. Ég skrifaði við þessa grein:

"Nú hefur löggjafinn tryggt hommum og lesbíum sama rétt og hjónum."

Þetta er rangt. Löggjafinn hefur ekki heimilað trúfélögum (almennt) að gifta samkynhneigða vegna þrýstings frá Þjóðkirkjunni. Þar með hafa samkynhneigðir ekki sama rétt og hjón.

Þetta snýst ekkert um Þjóðkirkjuna. Þetta er spurning um að önnur trúfélög fái að gifta samkynhneigða, hvort sem Þjóðkirkjan gerir það eða ekki.

Meðan Þjóðkirkjan berst gegn slíku lagafrumvarpi er pistill sem þessi ekkert annað en hræsni.

Örn Bárður ritskoðar athugasemdir mínar vegna þess að hann hefur logið því að sjálfum sér að ég hafi drullað yfir hann í athugasemdum á bloggsíðu hans. Þetta er lygi vegna þess að samskipti mín í þeim umræðum voru málefnaleg. Hann fann aftur á móti skrif á þessari síðu minni um annað fólk og taldi þar með að ég væri úr leik í umræðunni, hann notfærði sér það semsagt til að þurfa ekki að standa við mál sitt. Ég skrifaði um þetta á sínum tíma, í athugasemdum er atburðarrásin rakin.

Í tölvupóstsamskiptum nýlega, eftir að Örn Bárður eyddi athugasemd frá mér sagði hann:

Ertu búinn að gleyma umræðu sem við áttum fyrir margt löngu og var svo skætin af þinni hálfu að mér hreinlega ofbauð?

Ég svaraði honum:

Hér ert þú sennilega að rugla saman umræðum okkar á milli og öðrum skrifum mínum því ég hef ekki verið með skæting við þig í samræðum okkar. Hið rétta er að í umræðum okkar á milli á annál þínum dróst þú fram eldri skrif mín af bloggi mínu sem tengdust ekkert okkar samtali og þar sem ég nota gróft orðalag um fólk, til þess að dæma mig úr leik í þeirri umræðu. Ég hafi ekki verið með nokkurn skæting í þinn garð. Hér er umfjöllun mín um þessi samskipti: http://www.orvitinn.com/2004/08/16/11.49/

Þú ert náttúrulega búinn að eyða öllum þessum samskiptum, en ég fullyrði að þetta er beinlíns ósatt hjá þér, dylgjur enn og aftur.

Hann hefur engu svarað, veit vafalítið að þetta er rétt hjá mér, en er þrautþjálfaður í að sannfæra sjálfan sig um að rangt sé rétt, ósatt sé satt. Þannig tekst honum vafalítið að vera fullkomlega sannfærður í hjarta sínu að ég hafi verið skætinn í hans garð.

kristni
Athugasemdir

Matti - 01/05/07 12:26 #

Örn Bárður svarar athugasemd minni í tölvupóst:

Lög nr. 87 12. júní 1996

5. gr. Staðfesting samvistar hefur, með þeim undantekningum sem greinir í 6. gr., sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar. Ákvæði laga sem varða hjúskap og maka gilda um staðfesta samvist og einstaklinga í staðfestri samvist

(undirstrikun mín)

Örn B

Matti - 01/05/07 12:27 #

Örn Bárður veit vel að umræðan undanfarið hefur alls ekki snúist um þessa lagagrein, heldur þá staðreynd að trúfélög mega ekki lögum samkvæmt gifta samkynhneigða. Ég svaraði pósti hans:

Landslög heimila trúfélögum að gifta karla og konu, ekki karl og karl eða konu og konu. Hér er ekki verið að neyða trúfélög til neins heldur heimila.

þar með mismuna landslög fólki eftir kynhneigð.

Biskup Íslands fór fyrir nefndina sem um málið fjallaði og flutti heita ræðu um samkynhneigð sem synd, sumir þeirra sem á hlýddu sögðu að biskup hefði verið öfgafyllri en Gunnar í Krossinum þegar hann mætti fyrir nefndina. Þjóðkirkjan hefur barist fyrir því að önnur trúfélög fái ekki þessa heimild.

Þjóðkirkjan kemur í veg fyrir sjálfsögð mannréttindi samkynhneigðra vegna þess að hún ræður ekki við innri átök og myndi ekki þola það ef önnur trúfélög fengu þessi réttindi, því þá yrði almenningi augljóst hvílík fornaldarstofnun þetta er.

Matti - 01/05/07 12:31 #

Mér finnst þetta dálítið dæmigert fyrir kirkjuna og Örn Bárð. Reyna að snúa út úr umræðu síðustu daga með vísun í eitthvað allt annað. "Samkynhneigðir hafa það svo helvíti gott, hvað eruð þið að væla" segir prestur og reynir svo að sannfæra okkur (og sjálfan sig) að kirkjan sé í raun ógeðslega líbó og standi framarlega í þessum málum.

Sem betur fer sér fólk orðið í gegnum þetta og skráir sig úr þjóðkirkjunni enda löngu kominn tími til.

Binni - 01/05/07 15:40 #

Ekki orð um samskipti ykkar Arnar Bárðar, en aðeins í sambandi við meinta baráttu þjóðkirkjunnar gegn heimild annarra trúfélaga til að gefa samkynhneigða saman í hjónaband: Heldur þú ekki að þessi andstaða sé ofmetin hjá þér? Mér koma engin trúfélög í hug sem gætu orðið fyrri til en þjóðkirkjan að gefa samkynhneigða saman (nema kannski Fríkirkjan í Reykjavík sem hefur snúist öndverð gegn þjóðkirkjunni á seinni árum). Sannleikurinn er sá að flestar fríkirkjuhreyfingar eru jafnvel andvígar blessun samkynhneigðra sem kirkjan hefur nú tekið upp.

Matti - 01/05/07 15:43 #

Ásatrúfélagið vill fá þessa heimild líka.

Ef Ásatrúfélagið og Fríkirkjan í Reykjavík mættu gifta samkynhneigða gæti það fólk leitað þangað og myndi vafalítið gera það í stórum stíl.

Ég er líka nokkuð viss um að fjölmargir samkynhneigðir og aðstandendur myndi flytja trúfélagsskráningu sína í þau félög.

En þetta er í raun spurning um grundvallarmál. Af hverju berst Þjóðkirkjan gegn því að trúfélög fái þessa heimild? Ég sé enga aðra ástæðu en þá að meðan trúfélög hafa ekki þessa heimild getur Þjóðkirkjan falið sig á bak við það.

Binni - 01/05/07 15:50 #

Ég er hræddur um að flest trúfélög standi á bak við biskupinn í þessu máli.

Og ég er ekki í nokkrum vafa um að það er ofmetið að samkynhneigðir kristnir einstaklingar gangi af trúnni fyrir þetta og blóti Þór í staðinn. Þetta snýst ekki um félagaskráningu. Það er hópur af samkynhneigðum í kirkjunni sem vill ekki fara úr kirkjunni þó að seint þokist. Og þeir vilja heyja baráttu sína innan vébanda hennar áfram þó að svona hafi farið í Húsavík.

Matti - 01/05/07 15:57 #

Þetta snýst um það að ef lög heimila trúfélögum að gifta samkynhneigða kemur loks í ljós hvaða trúfélög vilja gifta þá og hvaða trúfélög vilja það ekki.

Þegar það er komið í ljós munum við hvaða breytingar það hefur í för með sér.

Hvað með Fríkirkjuna í Hafnafirði?

Binni - 01/05/07 16:07 #

Já, ég var einmitt að hugsa þetta, hvað um Fríkirkjuna í Hafnarfirði? Hef ekki hugmynd um afstöðu hennar.

En um afstöðu annarra kristinna fríkirkjuhreyfinga vitum við. Þær ætla ekki einu sinni að nota nýju biblíuþýðinguna. ;-)

Hjalti Rúnar Ómarsson - 01/05/07 16:36 #

Pétur í Óháða söfnuðinum og ef ég man rétt einhver úr Fríkirkjunni í Hafnarfirði skrifuðu undir tillögu "41-menninganna" ef ég man rétt, þannig að við erum með amk 3 kristin trúfélög og Ásatrúarsöfnuðinn.