Örvitinn

Hallærisleg spunablogg sjálfstæðismanna

Ég er hægra megin í pólitík og hef oftar en ekki kosið Sjálfstæðisflokkinn, bara svo það sé á hreinu.

Helsti blogg-spunameistari Sjálfstæðisflokksins heitir Guðmundur Magnússon. Í bloggfærslu sem Guðmundur skrifar í gær er hann svo óheppinn að dylgja um Óla Gneista. Þeir sem til þekkja vita að Óli svarar fyrir sig. Trúmönnum þykir það yfirleitt ógurleg ókurteisi og dæmi um öfgar þegar fólk svara fyrir sig, Guðmundur virðist á sömu línu.

Ég hvet alla til að lesa þessa umræðu, takið eftir því að Guðmundur er algjörlega ófær um að játa að hann hafði rangt fyrir sér. Í stað þess kemur hann með útúrsnúninga og stæla líkt og hann væri tólf ára strákbjáni sem staðinn hefur verið að verki við að gægjast í kvennaklefann.

Þessi pólitíska umræða sem einkennist af spunabloggum á moggablogginu veldur mér ógleði, ég fyllist eiginlega sorg þegar ég les blogg manna eins og Guðmundar, þar sem tilgangurinn helgar meðalið, allt er gert til að rægja andstæðinginn og sannleikurinn skiptir engu máli

Ég var löngu búinn að ákveða að kjósa ekki Sjálfstæðisflokkinn í þetta skipti því mér hugnast hvorki repúblikanar né aðrir kristilegir flokkar. En spunablogg manna eins og Guðmundar gera ekkert annað en að sannfæra mig enn frekar, ég á ósköp einfaldlega ekki samleið með fólki eins og Guðmundi Magnússyni.

pólitík