Örvitinn

"Cech töluvert betri markvörður en Reina"

Pepe Reina gengur af velli eftir landsleik Íslands og Spáns í fyrraUmfjöllun Blaðsins í dag um leik kvöldsins endar með þessum orðum:

Sóknarlína liðsins ber þunga byrði og liðið þarf helst tvö mörk enda vilja menn Rafa væntanlega ekki lenda í vítakeppni á móti hinum gallharða Petr Cech sem er töluvert betri markvörður en Pepe Reina hjá Liverpool.

Ég tel að það þurfi ekkert að deila um að Petr Cech er frábær markvörður og vafalaust sá besti á Englandi í dag, ef ekki heiminum. En að segja að hann sé "töluvert betri" en Pepe Reina stenst enga rýni.

Ef við skoðum tölfræði kappanna, þá er Pepe Reina sá markvörður í Englandi sem oftast hefur haldið marki sínu hreinu síðustu tvö árin, í fyrra hélt hann marki Liverpool hreinu í 20 leikjum af 34, á sama tímabili hélt Petr Cech marki sínu hreinu í 17 af 34 leikjum. Bæði þessi lið hafa sterkar varnir og því varla hægt að þakka vörn Liverpool allan þennan árangur. Á þessu tímabili hefur Reina einnig haldið hreinu oftar en nokkur annar en Cech missti af nokkuð mörgum leikjum vegna meiðsla, reyndar er tölfræði Cech í þeim leikjum (eftir að hann koma aftur) með ólíkindum, en Chelsea hefur verið á nokkuð góðu flugi síðustu tvo mánuði. Vissulega hefur Reina gert mistök en það sama gildir um Cech.

Svo er það hitt, þarna er sérstaklega verið að tala um vítaspyrnukeppni og Pepe Reina er þekktur vítaspyrnubani. Tölfræði Reina í vítaspyrnum er með ólíkindum, í úrslitaleik FA bikarsins í fyrra varði hann 3 af fjórum vítaspyrnum og þegar hann spilaði með El Madrigal Villa Real varði hann 7 af 9 vítaspyrnum!

Þrátt fyrir þetta er ég dauðstressaður fyrir leik kvöldsins, en ef leikurinn endar í vítaspyrnukeppni verður það ekki Pepe Reina sem ég mun hafa áhyggjur af.

boltinn
Athugasemdir

Matti - 01/05/07 21:23 #

HVAÐ SAGÐI ÉG :-)

Gummi Jóh - 01/05/07 21:29 #

Djöfulli magnað eftir að hafa lesið færsluna þína fyrr í dag.

Til hamingju.

Matti - 01/05/07 21:32 #

Takk takk. Djöfull er ég búinn að vera stressaður :-)

Kristján Atli - 01/05/07 21:39 #

Matti, ef það er eitthvað réttlæti í heiminum er þessi ágæti blaðamaður atvinnulaus á morgun. Talandi um að láta reka orð sín ofan í sig. Cech: 0/4, Reina: 2/3. Þarf ég að segja meira? :-)

Jón Magnús - 01/05/07 21:51 #

Gott að halda með Liverpool á svona stundum og ég var nú bara að sjá færsluna hjá þér og en ég hefði sagt að ef þetta færi í vítaspyrnukeppni þá þyrfti ekki að hafa áhyggjur - Liverpool myndi rústa henni!

Einar Örn - 01/05/07 22:36 #

"El Madrigal" - Villareal meinarðu væntanlega. El Madrigal er völlurinn.

Það var ekki bara að hann hafi varið, heldur varði hann allavegana 1 eða 2 vítaspyrnur örugglega (þetta er allt í smá móðu hjá mér).

Annars er þessi blaðamennska auðvitað bara grín. Sérstaklega skemmtilegt grín í ljósi úrslita kvöldsins. :-)

Matti - 01/05/07 22:39 #

Þetta var copy/paste af Liverpool síðunni. Ég var ekkert mjög vandvirkur í dag, þetta er jú völlurinn og Villareal liðið :-)

Matti - 03/05/07 08:09 #

Svo skemmtilega vill til að Blaðið í gær barst ekki til okkar. Hvernig var fjallað um leikinn og vítaspyrnukeppnina í Blaðinu?

regin - 04/05/07 19:00 #

Er ekki bolti á morgun?

Matti - 04/05/07 20:28 #

Jú, það held ég!