Örvitinn

Næstum því snilldarmark

Ég var næstum því búinn að skora ótrúlegt mark í inniboltanum í Víkinni í morgun.

Ég var á eigin vallarhelmingi, rúman meter frá miðju og mitt lið var að sækja. Það kom hár bolti frá marki andstæðinganna, beint að mér en of hár til að ég næði að skalla. Í staðin hallaði ég mér fram og tók boltann með hælnum. Snertingin var fullkomin, knötturinn fór í háum boga og stefndi efst í markhornið. Loksins var það að gerast, þarna kom það, markið sem fullkomnaði verkið, markið sem myndi skilgreina mig, markið mitt.

En það varð ekki, Steini djöfull varði með skalla, ekki veit ég hvaða mannvonska þetta var, svona skot á maður ekki að verja, maður beygir sig undan svona skoti, dáist að og klappar. Maður ver ekki bara með skalla eins og ekkert sé sjálfsagðara!

Tæknilega séð hefði þetta ekki talið þar sem ég var ekki kominn inn fyrir miðju en eflaust hefði það verið látið gilda vegna þess að svona mörk eiga að gilda.

En þetta var bara næstum því. Fjandakornið. Næstum því snilldarmark er eins og næstum því fullnæging, ekkert sem maður stærir sig af, öfugt við alvöru fullnægingar sem maður, uh.. , stærir sig af... er það ekki? :-)

boltinn
Athugasemdir

Halldór E - 11/05/07 17:42 #

Svona vitnisburðir eru alltaf fremur vafasamir, enda væntanlega ekki hægt að endurtaka atburðinn aftur á nákvæmlega sama hátt.

Ef aðrir geta ekki upplifað það sama við sömu aðstæður þá er engin leið til þess að staðfesta upplifunina. Ef það er ekki hægt að prófa fullyrðinguna, þá er ekki hægt að segja til um það hvort að upplifunin reyndist rétt. Vantrú: Vitnisburður

:-)

Matti - 11/05/07 17:52 #

Enda er hér fært í stílinn, skáldað í eyðurnar og logið þar sem hentar. Ég er yfirleitt duglegur við að benda á að mig geti misminnt, hugsun mín sé kannski valkvæm eða ég sé að blekkja sjálfan mig. Slíkt gerist.

Aftur á móti voru átta vitni.

Atburðinn er hægt að endurtaka að einhverju leyti enda er ég afskaplega fær í hælspyrnum :-) Spurning hvort ég fari út í að sviðsetja þetta næstum því mark fyrir fólk. Leigi sal á sunnudögum og endurtaki næstum því snilldina, svona fyrir þá sem ekki fengu að upplifa þetta næstum því kraftaverk.

Ég er viss um að meðspilarar mínir eru allir betri menn eftir þetta atvik :-P

Halldór E - 11/05/07 18:17 #

Við vitum báðir að þessi átta vitni munu ekki lýsa atburðinum nákvæmlega eins og þú. Einhverjir myndu örugglega fullyrða að þú hafir hallað þér fram, reynt að skalla boltann og rekið hælinn í knöttinn, þegar hann sveif yfir hausinn á þér.

En tilfinning þín er ósvikinn, og ég er viss um að það að færa frásöguna á vefinn sé engu minna áhrifaríkt en að reyna að leigja sal. Ekki allir vitnisburðir þurfa sömu umgjörð. :-)

Hitt gæti verið snjallt, að mynda lið sem spila knattspyrnu, búa til keppni, spila vikulega og selja inn, svo fólk geti komið og horft, upplifað, fagnað og grátið, vonast eftir kraftaverkum. :-)

Matti - 11/05/07 18:42 #

Til að gæta sanngirnis (gagnvart mér), þá er ekkert ótrúlegt við það að ég geri eitthvað flott af og til á knattspyrnuvelli. Vissulega fer mikið fyrir mér en ég er samt ansi liðtækur í fótbolta. Þegar við það bætist að ég spila fótbolta ansi reglulega er eiginlega öruggt að af og til geri ég eitthvað sem kalla má snilld.

Vitnisburðir eru nefnilega iðulega dæmdir út frá því sem þeir fjalla um og í þessu tilviki er atburðurinn ekki bara trúverðugur, hann er eiginlega óhjákvæmilegur :-)

Sigurjón - 11/05/07 19:36 #

Þetta hefur einnig gerst hjá mér! Ég hef nú skorað nokkur falleg mörk í gegnum tíðina og flestum er maður búinn að gleyma en ég gleymi því ekki þegar ég tók við fastri sendingu af kantinum með sporðdreka-sparki (svona 15-20m frá marki) og boltinn fór svona 5cm framhjá samskeytunum.

Það er komin tæp 10 ár síðan og það svíður ennþá að hafa ekki séð hann inni.