Hereford steikhús
Við skelltum okkur á Hereford steikhúsið í kvöld. Höfum ekki heimsótt þann stað áður.
Vorum fjögur, Áróra er hjá pabba sínum um helgina.
Gyða pantaði þriggja rétta matseðil (5.990,-) sem samanstóð af humar í forrétt, nautalund í aðalrétt og volgri súkkulaðiköku í eftirrétt. Ég fékk mér nautacarpaccio (1.690,-) í forrétt og stelpurnar deildu hvítlauksristuðum sniglum (1.390,-) sem þær borðuð með bestu list.
Ég pantaði Rib eye, 250gr steik (medium rare) í aðalrétt (3.290,-), franskar, bernaissósu og hereford salat (680,-). Stelpurnar deildu lambalund (200gr) (3.980,-). Í desert fékk ég mér líka súkkulaðiköku (1.550,-) en stelpurnar vanilluís. Við keyptum rauðvín hússins í karöflu (1.890,-), ég fékk mér eitt glas en Gyða drakk rest!
Kjötið var afbragð. Steikin mín var ekkert rosalega falleg en einstaklega góð. Lambakjötið var líka gott og Gyða var afar ánægð með steikina sína. Nautacarpaccio fannst mér vel heppnað. Súkkulaðikakan var örlítið of mikið bökuð að mínu mati. Stelpurnar voru hrifnar af sniglunum en Inga María var ekkert sérlega ánægð með kjötið, Kolla borðaði það með bestu lyst.
Þjónustan var mjög góð, stöðugt fyllt á vatnsglös og bið lítil. Ekkert mál var að skipta rétti fyrir stelpurnar og redda annarri sósu á ísinn fyrir Ingu Maríu. Við vorum snemma á ferðinni, mættum klukkan sjö, þegar við fórum kortér fyrri níu var staðurinn fullur.
Við borguðum 21.440,- fyrir heimsóknina sem mér finnst ansi mikið en þegar ég skoða reikninginn er ekkert sem mér finnst sérlega dýrt. það kostar bara sitt að fara út að borða með fjölskylduna og leyfa stelpunum að borða alvöru mat. það er samt miklu skemmtilegra heldur en að þær séu að borða hamborgara eða pizzu meðan við fáum okkur steik. Þeim finnst gaman að borða flottan mat og smökkuðu alla rétti. Við borguðum ekkert fyrir ís stelpnanna sé ég þegar ég skoða reikninginn. Veit ekki hvort það voru mistök eða bara góð þjónusta.
Ég er afskaplega sáttur við verðið á rauðvíninu. Þetta var ágætis rauðvín, á flestum stöðum borgar maður að minnsta kosti þrjú þúsund krónur fyrir flösku af ódýru víni.