Örvitinn

Grillað nan brauð, garðverk og hjólreiðar

kjúklingur og nan brauð á grillinuÉg grillaði nan brauð með tikka kjúklingaspjótunum í kvöld. Uppskriftin að nan brauðunum var úr grillblaði Gestgjafans. Brauðið heppnaðist afskaplega vel. Ég held að galdurinn sé að pensla með nógu andskoti miklu bráðnu smjöri, það gera þau á Austur Indía félaginu. Brauðin voru dálítið þykk og ég gataði þau með gaffli á grillinu, það var dálítið loft í þeim. Spurning um að hafa þau þynnri næst - sé til, stelpunum þóttu brauðin góð svona.

Við unnum enn meira í garðinum. Byrjuðum daginn í Garðheimum þar sem við keyptum garðverkfæri og moltu. Það er heilmikill munur á því sem við erum búin með en við eigum samt slatta eftir. Ég ók með troðfullan jeppa af garðúrgangi á Sorpu.

Mamma kom óvænt við í dag, hafði hjólað úr Mosfellsbæ. Við fórum út með Kollu til að kenna henni að hjóla. Það gekk þokkalega, en Kolla var samt ekkert alltof ánægð á tímabili. Gyða pumpaði í dekkin á gamla hjólinu í kvöld og tók af því hjálpardekkin. Það hjól er minna og Kolla var mun sáttari, gekk vel á því og hjólaði töluvert sjálf. Inga María æfði sig líka og þær verða vafalítið báðar farnar að hjóla um í sumar.

Pabbi er búinn að vera á mótorhjólanámskeiði fyrir austan fjall síðustu daga. Hann og Bjarni bróðir hans fóru saman á þetta námskeið en Bjarni, sem er einn mesti hrakfallabálkur sem ég þekki, mölbraut á sér handlegginn á laugardag. Áður hefur hann mölbrotið hinn handlegginn, misst framan af þumalfingri og brotið flest bein þegar skíðastökk endaði í urð og grjót.

Pabbi sótti mömmu hingað, það var alveg nóg að hjóla aðra leið.

dagbók matur
Athugasemdir

Sirrý - 28/05/07 23:08 #

Hún verður örugglega fljót að læra að hjóla. Tinna var bara örfá skipti að læra það. Það er gott að læra að detta og þá bjargast þetta allt.