Örvitinn

Léleg þjónusta hjá Hans Petersen

Í dag tók ég mynd af Gyðu fyrir ökuskírteini. Gyða var búin að fara á netið og sá m.a. að Hans Petersen býður upp á að fólk sendi þeim myndir í tölvupósti og þeir prenta út passamyndir.

Ég vinn í sama húsi og Hans Petersen Laugavegi. Við sendum þeim því myndina og Gyða rölti yfir til þeirra.

En þar kom hún að tómum kofanum og gat enga prentun fengið, henni var sagt að þetta verk tæki tuttugu og fjórar klukkustundir. Sólarhring til að prenta út passamyndir!

Ég hringdi strax í Pixlar, sem auglýsa sömu þjónstu á netinu. Þar var ekkert mál að redda málinu, ég sendi þeim myndina í tölvupósti og korterí síðar gekk Gyða þaðan út með útprentaðar myndir. Hún náði í tæka tíð til lögreglustjórans og reddaði málunum.

Hvaða helvítis rugl er þetta hjá Hans Petersen. Þrír starfsmenn eyddu tíma sínum í að staðfesta að ekki væri hægt að leysa þetta mál - í stað þess að leysa það bara. Þetta er náttúrulega hrikaleg þjónusta - eða réttara sagt, þjónustuleysi.

kvabb
Athugasemdir

Stígur - 31/05/07 02:17 #

Pixlar verða stórir, er viss um það.

Frábær þjónusta breytir miklu.

Gummi Jóh - 31/05/07 09:19 #

Ég hef einmitt alltaf verslað við Pixlar þegar ég þarf að framkalla.

Þar hefur allt verið gert hratt og vel. Meira að segja framköllun fyrir jólakort á miðjum annatíma tók bara sólarhring.

Matti - 31/05/07 09:55 #

Ég fer þangað næst, engin spurning.

Svona þjónusta snýst nefnilega ekki um þessi tilteknu (litlu) viðskipti, heldur viðskipti framtíðarinnar. Þau missti Hans Petersen í gær.

ókunnug - 31/05/07 10:09 #

Ég hef svipaða sögu að segja, vantaði passamynd fyrir vegabréfsáritun og gerði ráð fyrir því að að tæki ekki langan tíma. Þar sem ég var fótgangandi taldi ég mig ekki geta hlaupið yfir í pixla og reddað þessu. Ég hélt ég hefði góðan tíma en það var greinilega ekki og endaði með því að ég þurfti að fresta flugi norður á Akureyri um tvo daga því passamyndin fékkst ekki fyrr en þá (það var frídagur á milli). Versta var að þegar maðurinn minn hringdi í þá seinna um daginn þá sögðu þau honum að það væri ekkert mál að redda þessu og myndirnar voru tilbúnar innan klukkutíma en þá var ég þegar búin að breyta flugi og plönum. Þetta eru meiri vitleysingarnir. Ég þekki tvo aðila sem hafa gengið þarna inn og fengið þessu reddað á engri stundu. Auðvitað geta þau alveg prentað passamyndir á innan við 24klukkutímum, það fer bara eftir því við hvern er talað og hversu liðlegir þeir eru þann daginn. Það er ljóst að ég mun aldrei aftur eiga viðskipti við Hans Petersen ef ég mögulega kemst hjá því.

Matti - 31/05/07 10:11 #

Þetta er bara spurning um viðhorf. Ef starfsfólkið hefði viljað redda þessu, þá hefði það tekið þau jafn langan tíma og það tók þau að redda þessu ekki.

Í bónus fengu þau þessa fínu auglýsingu!

Arnold - 31/05/07 12:50 #

Jens eigandi Pixla er einn reyndasti mini-lab maður landsins. Hokinn af reynslu og hefur metnað. Vandinn með Hans Pet. er það að það engin þekking eftir innan fyrirtækisins lengur. Allir sem eitthvað kunnu eru löngu farnir frá fyrirtækinu. Pixlar er málið.

Matti - 01/06/07 15:17 #

Stígur, spamvörnin stoppaði athugasemd þína þar sem ip-talan þín er á svörtum lista. Ég tók ekki eftir þessu fyrr en rétt í þessu.