Örvitinn

Reykingabannið

Ég fagna reykingabanni á veitinga og skemmtistöðum gríðarlega. Ég fagna væli þeirra sem kvarta (heimskulega) næstum því jafn mikið.

"Fasismi - hvað verður bannað næst - fólk veit af hverju það gengur þegar það fer út að skemmta sér - af hverju eru ekki til reyklausir skemmtistaðir fyrst meirihlutinn vill skemmta sér í reykleysi"

Það sem er skemmtilegast við fasistafrasann er að margir sem nota hann væru næstum því örugglega fasistar ef þeir hefðu fæðst 60 árum fyrr. Í staðin er þetta lið upp til hópa repúblikanar. Það eru ekki rök gegn reykingabanninu þó Þjóðverjar hafi gert sér grein fyrir óhollustu reykinga áður en Hitler komst til valda.

Hvað verður bannað næst? Hver veit, þarf eitthvað að deila um að eðlilegt er að setja reglur um ýmislegt, því fylgir ekki að allt verði bannað. Það gildir hámarkshraði á götunum ("Hvað verður bannað næst?"). Ofbeldi gagnvart náunganum er bannað ("hvað verður bannað næst"). Það er bannað að taka út delann og hrista fyrir framan börn ("hvað verður bannað næst?"). Slippery slope er yfirleitt rökvilla.

Fullt af fólki getur ekki farið á skemmtistaði vegna óþols útaf reykingum og enn fleiri geta ekki verið lengi á reykfylltri krá. Til er fólk með ofnæmi gagnvart reykingum sem getur ekki einu sinni gengið í gegnum reyksvæði veitingastaða. Á Íslandi hafa verið lög um að veitingastaðir skuli hafa reyklaus rými, flestir hafa kosið að gera grín að þeim lögum. Það þurfti einfaldlega strangari lög. Það er fyndið þegar menn kvarta undan því að í núverandi lögum sé ekki nægilegt svigrúm fyrir veitingastaði - svigrúmið var til staðar í fyrri lögum - flestir misnotuðu það.

Hér á árum áður var reykt í flestum heimahúsum, enginn kippti sér upp við það þó gestur reykti, jafnvel þó heimilið væri reyklaust. Í dag fer fólk út á svalir, jafnvel í teiti þegar áfengi er við hönd. Þetta þykir ekkert tiltökumál. Það var reykt á vinnustöðum, í skólum (á göngunum), í verslunum, flugvélum og þannig mætti lengi telja. Tímarnir breytast ósköp einfaldlega.

Ég vil alls ekki banna reykingar, þó ég þoli þær ekki. Þvert á móti, ég vil meira að segja rýmka lög um eiturlyf og heimila neyslu sumra sem í dag eru bönnuð með öllu. Reykingabannið snýst nefnilega ekki um það hvað fólk gerir sjálfu sér heldur hvað það gerir öðrum. Það snýst ekki um frelsi þitt til að reykja, heldur mitt til að þurfa ekki að reykja.

Jújú, ég gæti bara haldið mig heima. En við gætum líka bannað reykingar á veitinga og skemmtistöðum, reykingar færast út fyrir og allir geta skemmt sér saman. Alveg eins og að partí á Íslandi eru enn skemmtileg þó reykingafólk fari út í garð eða út á svalir - ég á það meira að segja til að fara út með þeim til að ræða málin og kæla mig niður.

Ég fer út að borða með góðum hópi annað kvöld og ætla að skála fyrir reykingabanninu.

Að lokum legg ég til að þeir sem minnast á fasisma eða Hitler til að andmæla þessum lögum fái raflost í kynfærin, svona til að setja hlutina í rétt samhengi.

eiturlyf pólitík
Athugasemdir

Erna - 01/06/07 21:54 #

Oh.. ég er svo sammála þér. Ég fæ mér oft sígarettu yfir bjór, þ.e. þegar ég er með íslensku vinum mínum, Kanar reykja yfirleitt ekki, allavega ekki þeir sem ég þekki. Þegar reykingar voru bannaðar hér í NYC á börum fyrir þremur árum síðan, stórminnkuðu reykingar mínar. Mér fannst þetta bann kannski pínu fáránlegt áður en það gekk í garð, en var svo stóránægð með það svona eftirá. Það er líka stór plús að ef maður fer á bar og reykir ekki þá stinkar maður ekki þegar maður kemur heim. Mér finnst líka alltaf viðbriðgi að koma heim og fara út á lífið, finnst ólíft á börum í Reykjavík eftir að hafa vanist öður.

Þess má geta að í kvöld er ég að fara á jazzbarinn SMOKE sem hefur alltaf verið reykingalaus!!!!

Matti - 02/06/07 01:04 #

Það var magnað að sitja á reyklausum Næsta bar í kvöld, fullt af fólki en loftið samt ferskt.

Ég held að fólk muni ekki skilja þetta vesen að nokkrum mánuðum liðnum.