Örvitinn

Vitlaus kirkja

HáteigskirkjaÉg kom að luktum kirkjudyrum í Reykjavík í dag enda mættur í ranga kirkju á réttum tíma. Það gerir eflaust ekkert svo mikið til, er að fara að taka nokkrar myndir fyrir vinnufélaga minn á morgun. Ég stoppaði örstutt fyrir utan rétta kirkju til að skoða aðstæður, tók þá meðfylgjandi mynd.

Ég skrifaði athugasemd við þennan pistil á trú.is. Athugasemdin fór ekki inn og nú er búið að loka fyrir athugasemdir. Athugasemd mín er aftur á móti á vefsíðu Svavars, þar sem hann svarar mér með hroka og stælum, sem kemur reyndar ekki á óvart.

Að mínu mati er ritstjórnarstefna trú.is frekar óheiðarleg. Athugasemdir komast seint í loftið þegar opið er fyrir athugasemdir á annað borð, t.d. má aldrei kommenta á prédikanir - þó þær séu oft afar gagnrýniverðar. Þegar trú.is birtir pistla sem hafa birst annars staðar er ekki vísað á fyrri birtingar greinarinnar - jafnvel þó þar séu umræður um efni hennar. Lesendur trú.is missa þannig af gagnrýni á efni greinanna. Það er algjör undantekning að vísað sé á vefgreinar í pistlum þar - ég man satt að segja ekki eftir því að það hafi gerst - í besta falli er talað um Vantrúarvefinn undir rós. Best þætti þeim að fá að vera í friði fyrir okkur öfgafólkinu, ég held satt að segja að mörgum þeirra sé afskaplega illa við okkur, sem er skrítið - ekki heimsækjum við leikskóla barna þeirra! Þetta er enn einn munurinn á þeim og vantrúuðum (eða siðlausum eins og Svavar vill frekar kalla okkur). Við fögnum gagnrýni, a.m.k. þokkalega málefnalegri gagnrýni. Við tökum ekki mark á allri gagnrýni, sumu erum við einfaldlega ósammála - en við erum alltaf ánægð að fá andsvör.

Það er nefnilega eitt sem ég er stoltur af varðandi Vantrú og samskiptin við kirkjuna. Við höfum ótvírætt verið heiðarlegri. Á sama tíma og HÍB og fleiri plotta og svíkja, hafna heiðarlegum óskum og fara í leðjuna leggjum við okkur fram um að misnota ekki aðstöðu okkar, segja satt og reynum að gera hið rétta í stöðunni. Þannig myndi okkur ekki detta í hug að fara viljandi með rangfærslur við fjölmiðla - eins og þeim er tamt. Verst er að eflaust vita þau fæst nokkuð um okkur, uppfull af fordómum. Kannski er tímabært að bretta upp ermar og hoppa út í drullupollinn, fara bara á þeirra plan. Æi, nei - við leggjumst ekki svo lágt.

Á morgun fer ég í kirkju. Vitlausa kirkju.

kristni
Athugasemdir

Árni Svanur - 09/06/07 06:31 #

Þetta er góð ábending með vísun á fyrri greinar og bætt hefur verið úr því. Takk fyrir þá áminningu. Þú bendir sjálfur á að umræðan er farin af stað á bloggi Svavars og það er hið besta mál að hún fari fram þar.

Árni Svanur - 09/06/07 06:56 #

ps. Hvað áttu við þegar þú skrifar að Svavar vilji kalla vantrúaða menn siðlausa, ertu þá að hugsa um hugtakið siður í merkingunni átrúnaður? Eða hefur þú í huga einhver fyrri skrif hans? Ég spyr vegna þess að í samræðum okkar hefur mér virst sem þetta orð, siðleysi, sé alla jafna notað í tengslum við siðgæði eða siðferði. Slíka tengingu sé ég ekki út frá færslu Svavars sem segir meðal annars:

[...] allra síst trúleysingjar, sem ég minntist reyndar ekki á í þessari færslu. [...]

Siðferði trúleysingja er ekkert endilega á lægra plani en þess trúaða en ef til vill á öðru. Trúleysingjar geta verið ósköp vel dannaðir, Guði sé lof. Trúaðir menn geta líka verið óttalegir ruddar.

Matti - 09/06/07 09:10 #

Árni, ekki segja mér að þú teljir þessa tilvitnun í hann eðlilega. Er það bara misskilningur minn og annarra sem kommenta hjá honum - þegar við teljum að hann sé að tala um trúleysingja í pistli sínum? Af hverju virðast sumir þjóðkirkjumenn leggja sig fram við að skrifa texta sem hægt er að "misskilja" sem dylgjur um trúleysingja?

Ég vísa m.a. í athugasemd nr. 5 hjá honum og ummæli hans um Vantrúarvefinn. Ég svaraði honum í nótt en hann hefur eytt athugasemd minni, eins og lenska er hjá prestum. Ég tók sem betur fer afrit:

"Hvað telur Matthías að ég megi hafa lítið í laun til að mega tjá mig um græðgina?"

Prestar á Íslandi eru hálaunamenn, með töluvert hærri laun en kollegar þeirra í nágrannalöndunum. Þessir sömu prestar vilja margir meira, fyrir því hef ég góðar heimildir. Það er gott að vera kominn undir kjaranefnd.

"Tengingarnar milli vantrúar og græðgi eru rökstuddar í færslunni, frá sjónarhóli trúaðs manns."

Þessi rök eru afskaplega léleg Svavar. Finnst þér skrítið að vantrúaðir einstaklingar mótmæli þessum málflutningi þínum?

"þess vegna þykir mér leiðinlegt þegar bloggið mitt er notað til tenginga inn á öfgafullar vefsíður"

Æi Svavar, af hverju svona dylgjur og hroka? Greinarnar sem ég vísa á tengjast allar efni pistils þíns. Er trú.is öfgafull vefsíða - þar sá ég pistil þinn.

"sem hafa að geyma rangfærslur og svívirðingar um trú mína og nafngreinda kollega mína"

Ef þar eru rangfærslur er þér og öðrum velkomið að leiðrétta þær, við fögnum öllum ábendingum. "Svívirðingar" - sumum finnst að ekki megi hallmæla "heilögu fólki", sem betur fer er fer sá hópur minnkandi.

"allra síst trúleysingjar, sem ég minntist reyndar ekki á í þessari færslu"

Þú ert greinilega í læri hjá biskup, sem talar alls ekki um trúleysi þegar hann talar um trúleysi - þú ert alls ekki að tala um vantrúað fólk þegar þú talar um vantrúað fólk - eða skort á traust á Gvuði.

"Hvers á svo vanþakklætið að gjalda? Hvers vegna tekur enginn málstað þess? Hvenær verða Samtök vanþakklátra að veruleika?"

Hvað ertu nú að reyna að segja Svavar? Af hverju þessar dylgjur - væri ekki heiðarlegra að tala skýrt - eins og við gerum á Vantrú?

Ég legg því til að þú breytir viðbót þinni á trú.is, því þú skrifar "þar er hægt að ræða um efni hans" sem er augljóslega ekki lengur rétt.

Árni Svanur - 09/06/07 09:29 #

Sæll Matti.

Ég var meira að hugsa um síðari tilvitnunina þar sem Svavar skrifar „Siðferði trúleysingja er ekkert endilega á lægra plani en þess trúaða en ef til vill á öðru.“ Mér finnst þetta svo afgerandi yrðing að ég á erfitt með að koma henni heim og saman við þá trúleysingjasiðleysisafstöðuna sem þú nefndir í færslunni.

Annars er kannski ástæða til að velta því fyrir sér hvað það er í þessum samskiptum sem leiðir til þess að menn endast ekki og gefast upp á þeim.

Birgir Baldursson - 09/06/07 11:38 #

Vantrúin er í því fólgin að treysta ekki Guði heldur leggja allt undir eigið framlag. Allt stendur og fellur með því sem við gerum, árangrinum sem við náum og sigrunum sem við vinnum. Þetta skapar þann ómanneskjulega heim sem við þekkjum. Þar er lögmál frumskógarins í gildi og þess vegna nauðsynlegt að olnboga sig í gegnum lífið. Sá sterki mun sigra. Og sterkur er sá sem getur reitt sig á eiginn mátt og megin.

Skýrir þetta eitthvað, Árni Svanur?

Árni Svanur - 09/06/07 12:32 #

Ég las þennan hluta færslunnar Birgir og geri mér jafnframt greint fyrir að þið túlkið orð Svavars með öðrum hætti en ég geri. Ég legg meiri vigt í þau orð hans sem ég vísaði til hér að framan.

Birgir Baldursson - 09/06/07 13:01 #

Já, en þau orð hans eru skrifuð eftir að hann fær athugasemd á grein sína þar sem þetta stendur sem ég vísa í. Ég veit að það er lenska hjá guðfræðingum að skýra burtu allt sem óþægilegt er, en í þessu tilfelli er fullgróft að ætla að segjast ekki hafa fullyrt eitthvað, jafnvel þótt fullyrðingin komi skýrt fram í þeim texta sem gagnrýndur er.

Þú ættir því að sýna af þér þann heiðarleika að ræða upprunalega textann, en vísa honum ekki á bug með tilvísun í eftiráskýringar Svavars. Þær komu seinna og útrýma engan veginn því sem skrifað var í upphafi.

Árni Svanur - 09/06/07 17:08 #

Kannski þarf eitt ekki að útiloka annað: Ummælin hans sem ég vitnaði til hér að ofan má skilja sem eftiráskýringu (eins og þú bendir á) en þau geta líka verið tilraun til að skýra hvað upphaflega var átt við (eins og Svavar hefur bent á).

Þegar haft er í huga að það er Svavar sjálfur - höfundur upphaflega textans - sem segir nokkuð skýrt í ummælunum: Ekki skilja textann minn á ákveðinn hátt þá á ég erfitt með að átta mig á því hvað er unnið með því að ræða þetta frekar.

Og ég er enn hugsi - í ljósi umræðunnar allrar - yfir tengingunni milli siðleysis og trúleysis.

Hjalti Rúnar Ómarsson - 09/06/07 19:07 #

Svavar segir að frumskógarlögmálin gildi ef þú trúir ekki á guð. Notar auðvitað ekki orðið "siðleysi", en hann gefur sér það augljóslega að án guðs sé allt leyfilegt.

Annars skil ég ekki hvers vegna þú lokaðir á athugasemdirnar við pistilinn á trú.is, því það er augljóslega ekki "hægt að ræða um efni hans" á heimasíðu Svavars, sbr viðbrögð hans við athugasemd Matta.

Birgir Baldursson - 10/06/07 02:44 #

Kannski þarf eitt ekki að útiloka annað

Þú ert auðvitað að djóka, er það ekki. Með því að vilja ekki ræða það sem Svavar skrifaði í greininni, en einblína á það sem hann skrifaði í eftiráskýringum sínum ertu einmitt að útiloka eitt með öðru, hið fyrra með hinu síðara, aðdróttunina með undanslættinum.

Ef þú ert raunverulega á því að eitt þurfi ekki að útiloka annað (undanslátturinn að útiloka upprunalegu aðdróttunina) þá ræðir þú auðvitað þau orð Svavars að skortur á guðstrú kalli frumskógarlögmál yfir samfélagið.

Birgir Baldursson - 10/06/07 11:31 #

Ertu nokkuð hættur, Árni Svanur?

[Vantrúin - það að treysta ekki guði] skapar þann ómanneskjulega heim sem við þekkjum. Þar er lögmál frumskógarins í gildi og þess vegna nauðsynlegt að olnboga sig í gegnum lífið.

Hvað telur þú Svavar vera að segja hér ef ekki það að skortur á guðstrú ýti undir ómanneskjulegt samfélag? Er skortur á guðstrú eitthvað annað en trúleysi? Er það sem Svavar kallar vantrú eitthvað annað en það sem við á Vantrú stöndum fyrir?

Birgir Baldursson - 10/06/07 15:58 #

Alveg hættur?

Reyndar má færa rök fyrir því að trúleysi stuðli að ómanneskjulegu samfélagi, en þó ekki á þann hátt sem Svavar og biskupinn halda, heldur með þessum hætti hér.

Matti - 13/06/07 00:36 #

Annars er kannski ástæða til að velta því fyrir sér hvað það er í þessum samskiptum sem leiðir til þess að menn endast ekki og gefast upp á þeim. #

Kannski er Árni kominn í frí.