Örvitinn

Prófessor um brjóstakrabbamein og íslenskan efnahag

Prófessorinn Jane Plant er hér á landi til að kynna hugmyndir sínar um mataræði en þær ganga út á að sniðganga mjólkurvörur til að minnka líkur á krabbameini - brjóstakrabbamein ku víst vera sjaldgæft í Kína og þar borðar fólk lítið af mjólkurvörum.

Í viðtali í Fréttablaðinu í dag er Jane spurð um þau viðbrögð sem hún hefur fengið hér á landi. Þau hafa flest verið jákvæð að hennar sögn en "það er á brattan að sækja þar sem íslenskt samfélag byggir efnahaginn að stóru leyti upp á framleiðslu mjólkurafurða".

Þetta þykja mér merkilegar fréttir, ekki vissi ég að ítök kúabænda væru svo mikil hér á landi.

Getur verið að fólk í þessum "bransa" hafi þörf fyrri að búa til samsæri gegn sér, stóra vonda aðila sem koma í veg fyrir að almenningur fái að heyra sannleikann? Ég bara spyr.

ps. Er lítil neysla á mjólkurvörum virkilega það eina sem aðgreinir Kínverja frá vesturlandabúum?

Ýmislegt
Athugasemdir

Skúli - 12/06/07 09:41 #

Hef heyrt af þessum mun og kemur stórlega á óvart því reykingar þar eystra eru mun meiri en hér heima. Getur verið að þetta eigi við um allt krabbamein?

Bragi - 12/06/07 11:58 #

Ég persónulega heyrði fyrst af þessu á fundi með Guðrúnu forsetaframbjóðanda í Krabbameinsfélaginu. Þá minntist hún á að þetta gæti verið einn aðalorsakaþátturinn. Ekkert hafi verið afsannað í því skyni. Ég tel nú samt að Jane þessi hafi fengið upplýsingarnar sínar frá manneskju sem ekki kunni nógu góða ensku. Áhrif bænda á íslenskt samfélag er náttúrulega langt umfram tölfræðilegt vægi þeirra. Ég er persónulega ekki hrifinn af hindurvitnum og húmbúkki sem framreitt er með þessum hætti en ég er alltaf tilbúinn til þess að skoða tölfræði og gögn sem að lúta. Það gæti bara verið eitthvað til í þessu hjá kerlingu, fljótt á litið. Get ekki trúað því að endalaus kýrhormón séu holl til lengdar.

Erna - 13/06/07 17:35 #

Ég leitaði á PubMed með strengnum: "plant j"[Author], cancer. Það kemur bara upp ein grein frá því 1978, ekki um brjóstakrabba. Þessi prófessor hefur annað hvort aldrei birt neitt um þessi mál eða bara birt í óritrýndum tímaritum.... Hins vegar fann ég greinar þar sem var sérstaklega talað um "anti-tumor" áhrif súrmjólkur.... Það er margt í mörgu segi ég nú bara...

Baddi - 17/06/07 18:53 #

Jane Plant er prófessor í jarðefnafræði við Imperial College London. Þannig að ég er hræddur um að hún sé að boða hindurvitni.