Örvitinn

Hálfur dagur í Eurodisney - ferðast til Provence

Við vöknuðum eldsnemma þar sem garðurinn opnaði tveimur klukkustundum fyrr fyrir hótelgesti. Þetta er gert í tilefni fimmtán ára afmælis garðsins og við vorum afskaplega heppin að það skyldi vera svona aukaopnun akkúrat þennan hálfa dag okkar í garðinum.

Byrjuðum á því að tékka okkur út, geymdum töskurnar í afgreiðslunni. Hittum Guffa á hótelinu og heilsuðum aðeins upp á hann, borðuðum morgunmat í hraði og fórum svo beint í garðinn, röltum framhjá röð af gestum sem biðu eftir almennri opnum garðsins klukkan tíu.

Stelpurnar kveðja garðinnStelpurnar þorðu ekki í Dúmbó tækið, því það lyfti sér örlítið upp. Við stóðum í röð en snerum við úr henn, stelpurnar skelltu sér aftur í bollana. Lítill heimur var bilað þannig að stelpurnar fóru eina ferð í hringekju. Við lögðum af stað úr garðinum, á bakaleiðinni komum við að röð þar sem Disneyfígúrur voru að heilsa upp á krakka, höfðum ekki tíma til að bíða í röðinni en tókum mynd af Ingu Maríu með Bangsímon í bakgrunni en hún er mikill aðdáandi Bangsímon. Við gengum á móti röðinni úr garðinum og vorum eina fólkið sem yfirgaf svæðið klukkan hálf ellefu að morgni, hálftíma eftir almenna opnun.

Kolla og Inga María stilla sér upp með Mínu músVið sóttum töskurnar á hótelið og hittum Mínu mús. Stelpurnar stilltu sér upp með henni. Einn helsti kosturinn við að gista á Disney hóteli var einmitt að fígúrurnar voru þar reglulega og því þurftum við ekki að bíða í röð í garðinum til að stelpurnar gætu hitt þessar ofvöxnu brúður.

stelpurnar í lestinni á leið frá Eurodisny til Gare de LyonÞvínæst röltum við á lestarstöðina sem er mitt á milli hótels og garðs, ekki nema fimm mínútna gangur með allar töskur. Ég keypti lestarmiða í sjálfsala og við tókum lest til Gare de Lyon. Í lestinni uppgötvuðum við svo að lyklarnir að íbúðinni í París höfðu orðið eftir á hótelinu. Þegar ég tæmdi öryggishólfið setti ég allt úr hólfinu fyrir framan það, vegabréfin, psp og lyklana ásamt öðru. Þegar Gyða tók síðasta dótið hélt hún að þessir lyklar væru að öryggishólfinu. Þetta olli dálitlu stressi en það var ekkert sem við gátum gert.

Við vorum dálítið ringluð á Gare de Lyon og þurftum að fara í upplýsingar til að komast að því að afgreiðslan fyrir TGV var á næstu hæð fyrir ofan. Eftir smá bið í röð vorum við komin með miða í hendur, þar með talinn sérstakan barnamiða fyrir Ingu Maríu. Parísardaman hafði reddað okkur betra verði í lestina, keyptum sérstakan miða fyrir Ingu Maríu og svo fengum við hin afslátt fyrir að fylgja henni.

Komum okkur fyrir á kaffihúsi við lestarteinana og borðuðum samlokur og franskar. Þjónarnir töluðu takamarkaða ensku en hún var þó miklu betri en franskan okkar.

Röltum að lestinni okkar þokkalega tímalega að því við héldum en það varð aðeins lengri ganga en við áttum von á enda lestirnar gríðarlega langar og okkar vagn frekar framarlega í lestinni (langt frá lestarstöðinni).

Garmin tækið í lestinniFerðinni til Aix gekk ágætlega en Áróra varð dálítið slöpp – skellti sér fram á gang þar sem ekkert útsýni var, leið betur þar. Ég tók þessa mynd af Garmin tækinu þegar við vorum á 268km hraða, mest fór lestin í um 300km hraða á leiðinni. Mér fannst þetta afar þægilegur ferðamáti og mæli með því að fólk ferðist með hraðlestum í Evrópu.

Þegar til Aix var komið fórum við á Avis bílaleiguna. Fengum þar Opel Zafira en þegar við ætluðum að aka í burtu gat Áróra ekki fest beltið sitt. Við reyndum en það var alveg fast. Ég kvartaði og við fengum nýjan bíl af gerðinni Renault Espace. Ég var dálítinn tíma að finna út úr því hvernig koma ætti bílnum í gang, en það tókst að lokum! Þetta var hörkubíll og við vorum mjög ánægð með hann, jafnvel þó það tæki smá tíma að læra á hann. Hann var rúmgóður og öftustu sætin voru afar góð. Farangurspláss var minna en í Zafirunni, nema öftustu sæti hefðu verið tekin úr, en plássið var nóg fyrir allan farangurinn okkar. Handbremsan var t.d. afar skemmtilega útfærð þegar maður var búinn að átta sig á henni.

Okkur gekk vel að aka á áfangastað, Garmin tæki þrælvirkar fyrir utan einn lítinn krók á hraðbrautinni. Komum til Esparron de Verdon um átta, ókum þar í miðjan bæinn og hringdum svo í Ásmund. Hann lóðsaði okkur til baka en húsið okkar var eitt af því fyrsta þegar ekið er inn í bæinn.

Inga María með skeljarnar sínarVið fórum út að borða um leið og við komum, röltum á lítinn stað í miðbænum. Stelpurnar fengu sér skeljar og franskar en ég fékk mér andabringu með ostasósu, afskaplega góða – það vakti athygli okkar að rauðvínið var kalt. Gunna var fljót að afþakka kranavatnið sem við fengum á borðið. Okkur hinum þótti það full mikið stress og svo fannst okkur það frekar fyndið í ljósi þess að Ásmundur fékk sér hrátt nautakjöt (buf tartar) í kvöldmatinn og Gunna smakkaði hjá honum. Ég drakk vatnið, það var fínt.

Eftir mat komum við okkur fyrir í húsinu. Við fengum besta herbergið út á frekju og barnalán! Vorum með tvö svefnherbergi á miðhæðinni, Kolla og Inga María sváfu í öðru og við hjónin í hinum. Stelpurnar gátu því auðveldlega rölt á milli og kúrt hjá okkur – sem gerðist allar nætur. Svefnherbergið á neðstu hæðinni voru ekki nærri því jafn góð og okkar herbergi og það var ekki laust við að við fengjum stundum dálítið samviskubit yfir því að vera með bestu herbergin. Á móti má segja að það var náttúrulega glórulaust að í svona "fínu húsi" væru svefnherbergin ekki öll jafn fín.

Myndir dagsins

Fyrri dagur - Næsti dagur

Frakkland 2007