Örvitinn

Verslunarferð og siglt um vatnið

Ég á vatninuVið sváfum frameftir. Ég og Kolla dormuðum til rúmlega tíu.

Sátum úti og borðuðum morgunmat, settum svo hreinsiróbótann út í laug. Það er dálítið mögnuð græja sem skríður eftir botninum og hreinsar allt drasl.

Kolla var orðin ansi pirruð og við vorum nokkuð viss um að hún þyrfti smá frí frá systur sinni. Við ákváðum því að skella okkur í stórmarkaðinn, ég, Gyða, Áróra og Inga María en Kolla varð eftir með ömmu sinni og afa, fór með þeim í göngutúr.

Stórmarkaðurinn Hypur U í Manosque var magnaður, úrvalið af ostum,áleggi, kjöti og fiskmeti var svo miklu meira en við eigum að venjast. Allar hillur troðfullar og verðlag langt frá því sem við eigum að venjast. Við keyptum risastóran bakka af svínakótilettum, 14 kótilettur, á €8.3 sem er bara rugl! Það vakti reyndar athygli mína að grænmetisdeildin var ekkert miklu flottari en það sem við eigum að venjast frá Íslandi. Úrvalið var reyndar eitthvað betra og grænmetið var stærra og fallegra, en úrvalið heima er greinilega orðið mjög gott. Það var a.m.k. ekki sami stjarnfræðilegi munur þarna á milli og á kjöt-, osta- og fiskdeildum.

Þegar við komum aftur í Esparron skelltum við okkur í bátsferð um vatnið. Ég og Áróra fórum ásamt Ásmundi, Gunnu, Stebba og Margréti.

Kvöldverður borðaðurÆtlunin var svo að grilla kótiletturnar. Ég hafði sett þær í lög með hvítlauk, olíu, balsamic og fleiru en grillolían var búin og mér tókst ekki að fá almennilegan hita á grillið. Rétt brúnaði því kjötið grillinu og við kláruðum svo að elda það í ofninum. Næstum ekkert salt var til að setja á kartöflurnar, saltstaukurinn sem til var er sá minnsti sem ég hef séð.

Ég drakk fullt af bjór og rauðvíni um kvöldið, tókst að verða dálítið ölvaður. Hópurinn undirbjó morgundaginn í arinstofunni.

Myndir dagsins

Fyrri dagur - næsti dagur

Frakkland 2007