Örvitinn

Helgin

Trúleysingjar í HeiðmörkHittum ofsatrúað (naívt) vísindahyggjufólk í Heiðmörk á laugardag. Þar var fín stemming og gott að vera í góðu veðri, mikið rabbað. Ekki vantaði veitingar frekar en fyrri daginn.

Þar var lítið gert annað en að spjalla mjög bernskulega um það hvernig vísindin væru búinn að leysa öll vandamál heimsins og svara öllum hugsanlegum ráðgátum - svo eltum við uppi trúfólk í Heiðmörk og vorum vond við það. Tja, þannig væri útgáfan í Viðskiptablaðinu.

Vorum reyndar nokkur mætt klukkutíma of snemma vegna misskilnings en það gerði ekkert til, gátum rabba og svo fengum við líka skemmtiatriði fyrir börnin sem fengu að skella sér örstutt á hestbak.

Við nenntum ekki að elda í gærkvöldi þannig að við ákváðum að skella okkur út að borða með fjölskylduna. Ætluðum fyrst að skjótast í Smáralind og borða á Fridays (þar sem hnakkarnir borða víst) en ákváðum að sleppa því þegar við ókum hjá á sama tíma og hópur manna í steggjun mætti á staðinn, nenntum ekki í slíka stemmingu. Rúntuðum því í bæinn, lögðum við hliðargötu og röltum í góða veðrinu. Kíktum aðeins á skemmtilega tónlist fyrir framan Nakta apann og plötusnúna á Austurstræti. Reyndum svo að fá borð á nokkrum stöðum en þurftum frá að hverfa. Ég vil koma á framfæri smá kveðju til þjónsins á Apótekinu:

Hoppaðu upp í rassgatið á þér sjálfumglaði fáviti.

Jæja, þá er það afgreitt.

Við enduðum á Fjalarkettinum. Stelpurnar fengu sér skelfisk og franskar, rétt sem þær fengu greinilega ekki nóg af í Frakklandi. Rétturinn á Fjalarkettinum var vel heppnaður, stór skammtur og soðið gott. Ég fékk mér saltfisk, vænt stykki af þorsk, skemmtilega framreitt og með góðu meðlæti. Gyða fékk sér túnfisksteik og var afar ánægð. Flott þjónusta og ágætt verð á íslenskan mælikvarða. Við fengum okkur desertinn á Ingólfstorgi. Gyða sá um aksturinn heim í þetta skipti og ég fékk mér því bjór fyrir mat og hvítvínsglas með matnum. Oftast er það á hinn veginn þegar fjölskyldan fer út að borða en ég á þetta inni eftir að hafa verið bílstjóri í vínsmökkunarferð :-)

Við stilltum okkur upp í kaffitímanumSunnudagurinn fór í garðvinnu. Ég byrjaði á því að slá fyrir framan hús og svo tókum við smá skurk fyrir aftan. Byrjuðum á því að moka upp mesta illgresinu, en það var heljar verk og svo skófum við gróður af hellunum. Veðrið var fáránlega gott, það lak af mér svitinn og ég vil biðja nágranna afsökunar, ég varð að fara úr að ofan. Tókum nokkrar pásur vegna hita og borðuðum svo nesti á grasinu.

Ég klikkaði alveg á því að taka myndir áður en við byrjuðum en þetta lítur örlítið betur út núna. Það er samt nóg eftir að gera í garðinum, þetta er endalaust. Ef við fáum fleiri svona daga verður þetta lítið mál.

Ég held ég hafi tekið lit.

Í kvöld horfði ég svo á úrslitaleik Copa America í þokkalegum gæðum á netinu. Gera snillingarnir hjá 365 sér grein fyrir því að þeir eru líka að keppa við internetið? Ég efast um það.

dagbók