Örvitinn

Regin steggjaður

við piltarnir ásamt flugmanniJæja, þá er ég hægt og rólega að skríða saman eftir helgina. Alveg merkilegt hvað maður er lengi að jafna sig eftir smá skrall á gamals aldri.

Laugardagurinn var semsagt tekinn með trompi. Regin Mogensen gifti sig á laun (næstum því) í sumar og við ákváðum því að steggja hann eftirá.

Steggjun í okkar hópi gengur ekki út á fíflaskap og niðurlægingu. Við höfum haft þetta með ansi föstu móti og gerðum þetta eftir hefðinni. Regin átti að sjálfsögðu ekki von á neinu, enda varla hægt að búast við steggjun þegar ekkert brúðkaup er í vændum.

Við sóttum hann klukkan hálf tvö, trufluðum hann við að fara yfir einhverja BA ritgerð - skelltum okkur út á Reykjavíkurflugvöll og settum strákinn í listflugvél. Þetta er greinilega orðið vinsælt því tveir aðrir hópar voru á vellinum á sama tíma og við. Nú eru níu ár síðan ég var settur fyrstur í vél af okkur félögunum.

Að flugi loknu fórum við í Mecca spa á hótel Sögu. Þar fór Regin í nudd og við í gufu og pott, drukkum bjór og höfðum það notalegt. Þvínæst skelltum við okkur í keilu, drukkum meiri bjór og fengum okkur snarl. Ég var ævintýralega lélegur í keilu.

Enduðum svo heima hjá mér þar sem við héldum heljar veislu.

Byrjuðum á foi gras og kampavíni í sólinni úti í garði. Næst var humar, ég hafði undirbúið hann kvöldið áður - klauf í tvennt og hreinsaði og lét svo kryddsmjör (smjör, hvítlaukur, fersk basilika, sherry, grand, aprikósusósu) yfir. Afskaplega gott. Í aðalrétt voru nautasteikur, grillaðar kartöflur, sveppir, salat, paprikur, salat og svo sveppasósan hans Davíðs. Mikil snilld allt saman og glæsilegar steikur - svo massívar að ég náði ekki að klára mína steik!

Ostakaka, kaffi og koníak í desert.

Skelltum okkur svo í bæinn, fórum á Ölstofuna og vorum í dálítinn tíma, fórum svo á rölt. Ég og Eiki enduðum á Næsta bar - ég orðinn sauðdrukkinn. Fórum heim um fjögur.

Ég held ég verði orðinn nokkuð góður á miðvikudag!

dagbók