Örvitinn

Tekjur og gjöld

Ég kemst ekki á neina lista þetta árið. Samt ætlar skatturinn að vera svo vinsamlegur að draga væna summu af laununum mínum næstu mánuði. Mér finnst það reyndar frekar vafasamt. Ekki veit ég af hverju þeir draga það af mínum launum en ekki launum eiginkonunnar - ég meina, hún er eldri :-)

Af hverju senda þeir mér svo ekki bara reikning - er það ekki frekar mikil frekja að fara beint í launin - ég yrði a.m.k. frekar fúll ef einhverjir aðrir gerðu það?

Ætli ég fengi afslátt ef ég staðgreiddi?

Annars kvarta ég ekki undan því að greiða þetta - það er ekkert sem kemur á óvart. Þetta var bara miklu skemmtilegra í "gamla daga" þegar þessi mánaðarmót þýddu að við sáum hve mikið við fengjum endurgreitt frá skattinum.

Þeir sem vilja nánari upplýsingar um mínar tekjur geta kíkt á álagningarskrár sem liggja frammi hjá skattstjóra þessa dagana. Verði þeim að góðu :-)

dagbók